"Blað var brotið í starfsemi félagsmiðstöðvarinnar Hyldýpis um helgina þegar lið frá Hyldýpi tók í fyrsta skiptið þátt í Stíl, sem er hönnunarkeppni Samfés, Samtaka félagsmiðstöðva og ungmennahúsa á Íslandi.
Lið Hyldýpis skipuðu þær Anna Guðlaug Gunnbjörnsdóttir, Emelía Lind Brynjarsdóttir Lyngmo, Kristín Harpa Friðriksdóttir og Rakel Nótt Sverrisdóttir sem sýndi afrakstur vinnunnar sem módel. Einnig var Ólöf Milla Valsdóttir í hópnum en hún átti ekki heimangengt í keppnina sjálfa.
Í Stíl er keppt í hárgreiðslu, förðun og fatahönnun og lögðu stelpurnar mikla vinnu í margar vikur við að þróa sín verkefni sem þær sýndu svo á keppninni um helgina. Þær fengu aðstöðu í textílkennslustofu Hrafnagilsskóla og nutu ráðgjafar Katrínar Úlfarsdóttur textílkennara og fyrir það þakkar félagsmiðstöðin heilshugar. Það var svo Sunna Björg Valsdóttir, umsjónarmaður Hyldýpis, sem fylgdi stelpunum suður að þessu sinni og var þeim innan handar.
Þó að engin verðlaun hafi unnist að þessu sinni stóðu stelpurnar sig frábærlega og ruddu brautina fyrir komandi keppendur frá Hyldýpi. Vonandi verða fleiri lið með á næsta ári og hver veit nema við sjáum undankeppni Hyldýpis í Stíl verða að veruleika."