Auglýsingablaðið

879. TBL 22. mars 2017 kl. 14:45 - 14:45 Eldri-fundur

Atvinna framtíðarstarf
Eyjafjarðarsveit óskar að ráða starfsmann á skrifstofu sveitarfélagsins sem er á Hrafnagili. 

Á skrifstofunni eru unnin hin ýmsu störf sem snúa að fjölbreyttum rekstri og stjórnsýslu s.s. færsla bókhalds, launavinnsla, skjalavarsla og ýmiskonar þjónusta og samskipti við íbúa sveitarfélagsins og aðra sem til skrifstofunnar leita.

Helstu hæfniskröfur eru:
Reynsla og/eða menntun sem nýtist í starfi.
Góð almenn tölvukunnátta.
Rík hæfni í mannlegum samskiptum.
Jákvæðni, rík þjónustulund og að vera tilbúinn til að takast á við fjölbreytt verkefni.

Skrifstofa Eyjafjarðarsveitar er vel búin og vinnuaðstaða eins og best verður á kosið.

Frekari upplýsingar veitir Stefán Árnason, skrifstofustjóri í síma 463-0600, netfang stefan@esveit.is.
Umsóknarfrestur er til og með 26. mars 2017. Umsóknum skal fylgja ferilskrá og upplýsingar um meðmælendur. Umsóknir skal senda á netfangið stefan@esveit.is, merktar „umsókn“.
 

 

Árshátíð miðstigs 2017

Árshátíð miðstigs Hrafnagilsskóla verður haldin í Laugarborg, föstudaginn 24. mars og hefst kl. 20:00.

Dagskráin hefst á tónlistaratriði frá Tónlistarskóla Eyjafjarðar og að því loknu sýna nemendur í 5., 6. og 7. bekk stutt leikrit úr bókinni „Fólkið í blokkinni“ og einnig er stuðst við samnefnda þætti.
Að loknum skemmtiatriðum verður boðið upp á hressingu og síðan verður stiginn dans og mun Elín Halldórsdóttir stjórna honum eins og henni er einni lagið.
Skemmtuninni lýkur kl. 22:30. Aðgangseyrir er 700 kr. fyrir grunnskólanemendur, 1.400 kr. fyrir eldri og frítt fyrir þá sem hafa ekki náð grunnskólaaldri. Allur ágóði rennur til nemenda, bæði til að greiða lyftugjöld í skíðaferð og einnig fá 7. bekkingar niðurgreiðslu þegar þeir fara í skólabúðirnar á Reykjum.
Athugið að ekki er posi á staðnum.
Veitingar eru innifaldar í verðinu og sjoppa verður á staðnum.
Allir eru hjartanlega velkomnir.
Nemendur 5.-7. bekkjar Hrafnagilsskóla
 
 

Danssýning
Senn lýkur danskennslu hjá nemendum í 1.-5. bekk í Hrafnagilsskóla og elsta árgangi í Krummakoti. Af því tilefni verður danssýning í íþróttahúsi skólans þriðjudaginn 28. mars kl. 13:15. Þar sýna nemendur hvað þeir hafa lært undanfarnar vikur hjá Elínu Halldórsdóttur danskennara.
Allir hjartanlega velkomnir.

 

Styrktartónleikar minningarsjóðs Garðars Karlssonar
Sunnudaginn 26. mars verða tónleikar til styrktar minningarsjóði um Garðar Karlsson kennara en hann hefði orðið sjötugur á þessu ári. Tónleikarnir verða í Tónlistarhúsinu Laugarborg Eyjafjarðarsveit og hefjast kl. 14:00.
Fram koma bæði núverandi og fyrrverandi nemendur og kennarar skólans auk kirkjukórs Laugalandsprestakalls.
Sérstakur gestur er Stefán Jakobsson söngvari Dimmu.
Miðasala við innganginn. Miðaverð er 2.000 kr. fyrir fullorðna og 1.000 kr. fyrir 16 ára og yngri. Allur ágóði rennur í sjóðinn.


Aðalfundur Funa
Aðalfundur hestamannafélagsins Funa verður haldinn í Funaborg á
Melgerðismelum fimmtudagskvöldið 23. mars nk. kl. 20:30.
Dagskrá: Venjuleg aðalfundarstörf. Nýjir félagar velkomnir. Kaffiveitingar.
Stjórnin


Aðalfundur fjárræktarfélaganna
Aðalfundur fjárræktarfélaganna verður haldinn í Funaborg þann 28. mars kl. 20:00. Farið verður m.a. yfir nýjungar í nýjum búvörusamningi.
Félagar úr Hrafnagilsfélaginu eru velkomnir á fundinn.
Fjárræktarfélagið Freyr og Fjárræktarfélag Öngulsstaðarhrepps


Frá Saurbæjarkirkju
Aðalsafnaðarfundur Saurbæjarsóknar verður haldinn í Gullbrekku 2. apríl 2017 kl. 11:00. Venjulega aðalfundarstörf.
Sóknarnefndin


Frá Freyvangsleikhúsinu
Þau toga Góðverkin í Freyvangsleikhúsinu þessa dagana enda góður rómur gerður að sýningunni. Dómarnir hafa verið einkar jákvæðir bæði á leiklist.is og í Akureyri vikublað. Bestar eru þó hláturrokurnar í salnum og umtalið á samfélagsmiðlum og manna á milli. Miðasalan hefur farið vel af stað og eru sýningar um páska komnar í sölu.

Miðasala á tix.isfreyvangur@gmail.com eða í síma 857-5598.

Næsta haust stendur til að fagna 60 ára afmæli leiklistar í Freyvangi með dagskrá sem byggð verður á sögufrægum verkum sem sett hafa verið á svið í húsinu. Þar verður því söngur og almenn gleði. Einnig stendur til að gefa út veglega leikskrá með sögu leiklistar í Freyvangi. Ef einhver hefur eða býr yfir myndum eða upplýsingum, er um að gera að hefja leit og grams í krókum og kimum.

Með kveðju úr Freyvangi
 

Getum við bætt efni síðunnar?