Auglýsingablaðið

888. TBL 24. maí 2017 kl. 13:25 - 13:25 Eldri-fundur

Sumarlokun bókasafnsins
Þá er sumarið vonandi á næsta leiti og því fylgir að bókasafnið lokar þar til í september. Safnið er opið eins og venjulega til mánaðamóta en lokað verður á uppstigningardag 25. maí.
Venjulegur opnunartími safnsins:
Mánudag kl. 10:30-12:30 og 13:00-16:00
Þriðjudag kl. 10:30-12:30 og 16:00-19:00
Miðvikudag kl. 10:30-12:30 og 16:00-19:00
Fimmtudag kl. 10:30-12:30 og 16:00-19:00
Föstudag kl. 10:30-12:30 
Miðvikudagurinn 31. maí er jafnframt síðasti opnunardagur á þessu vori.
Ég vil þakka öllum þeim sem nýttu sér safnið í vetur. Vonandi verða enn fleiri næsta vetur sem koma í heimsókn og nota sér það sem hér er í boði.
Með sumarkveðju, Margrét bókavörður.


Skólaslit Hrafnagilsskóla
Skólaslit Hrafnagilsskóla fara fram í íþróttahúsinu fimmtudaginn 1. júní kl. 20:00.
Fólk er beðið að huga að því hvort skólabækur eða bókasafnsbækur hafi gleymst heima og koma þeim til skila. Einnig eru þeir sem eiga eftir og ætla að skila UNICEF-áheitum hvattir til að skila þeim til ritara.
Óskilamunir verða til sýnis og eru allir hvattir til að kíkja á þá.
Skólastjóri


Skólaslit Tónlistarskóla Eyjafjarðar
Skólaslit Tónlistarskóla Eyjafjarðar verða á Grenivík þetta árið. Athöfnin verður í Gamla skólahúsinu á Grenivík, þriðjudaginn 30. maí kl. 18:00.
Afhending prófskírteina og umsagna verður að loknum skólaslitum.
Innritun lýkur föstudaginn 26 maí.
Skólastjóri


Gönguferðir Heldri borgara
Þá er komið að því. Við ætlum að hittast kl. 20:00 nokkur kvöld og ganga saman.
Fyrsta ganga sumarsins verður þriðjudaginn 30. maí og verður þá gengið á Melgerðismelum.
30. maí - Melgerðismelar         25. júlí - Grundarskógur
13. júní - Svalbarðseyri             1. ágúst - Núpufellsháls
20. júní - Kristnesskógur           8. ágúst - Listigarðurinn
27. júní - Kjarnaskógur           15. ágúst - Möðruvellir
4. júlí - Eyjafjarðarárbakkar    22. ágúst - Innbærinn ( mæting við skautahöllina)
11. júlí - Djúpadalsá               29. ágúst - Eyjafjarðarárbakkar
18. júlí - Vatnsendi

Verum dugleg að mæta og liðka okkur eftir veturinn, höfum gaman saman.
Allir velkomnir ungir sem aldnir.
Nánari upplýsingar veita: Sveinbjörg í síma 846-3222, Ingibjörg í síma 463-1114, Guðný í síma 848-5765 og Hildur í síma 897-4333.
Sjáumst, göngunefndin.


Minningarsjóður Garðars Karlssonar
Umsókn um styrk úr minningarsjóðnum er til 28. maí nk. Allir núverandi og fyrrverandi nemendur Tónlistarskóla Eyjafjarðar hafa rétt til að sækja styrk úr sjóðnum. Umsóknir skulu berast til Tónlistarskóla Eyjafjarðar Hrafnagilsskóli 601 Akureyri.
Nánari upplýsingar í síma 868-3795 eða í te@krummi.is
Skólastjóri


Kæru sveitungar
Sumaropnun á Smámunasafninu er hafin og er þetta 14. árið sem safnið starfar. Ýmislegt hefur verið dregið fram í dagsljósið úr kompum og kytrum, sjón er sögu ríkari. Eins og áður eru ljúffengar sveitavöfflur með heimagerðum sultum og ekta rjóma, ásamt bragðgóðu kaffi til sölu á Kaffistofu safnsins. Í búðarhorninu okkar er gott úrval af handunnum vörum, sem eru tilvaldar til gjafa við öll tækifæri, ýmsar gerðir af kortum og margt annað sniðugt.
Verið hjartanlega velkomin í heimsókn á Smámunasafn Sverris Hermannssonar.
Sumarkveðju, stúlkurnar á Smámunasafninu.


Kettir og fuglar
Nú fer varptíminn í hönd og þá er vert að minna á 11. gr. samþykktar um hunda og kattahald, en þar segir: „Eigendum og forráðamönnum katta ber að taka tillit til fuglalífs á varptíma, t.d. með því að hengja bjöllu á ketti og eftir atvikum takmarka útiveru katta.” Í samþykktinni kemur einnig m.a. fram að eigendur eða umráðamenn katta skulu gæta þess að dýrin valdi ekki hættu, óþægindum eða óþrifnaði né raski ró manna. Ef dýrin valda nágrönnum eða öðrum ónæði, óþrifum eða tjóni þá er skylt að leita leiða til að koma í veg fyrir slíkt.
Nauðsynlegt er að halda fjölgun katta í hófi. Vanti kattagildru eða aðstoð við fækkun katta má hafa samband í vaktsíma 463-0615.
Sveitarstjóri


Kæru kvenfélagskonur í Öldunni/Voröld!
Sumarferðin verður farin sunnudaginn 18. júní nk. Lagt verður af stað frá Leirunesti kl. 9:00 og heimkoma áætluð um kl. 22:00. Nánari upplýsingar um ferðina verða gefnar á fundinum þann 31.05, í Félagsborg.
Vinsamlegast fylgist vel með á Fésbókarsíðunni okkar þar sem hægt verður að skrá sig eða hringið í Þóru í s: 898-3306/462-5211.
Sjáumst hressar í ferðahug!
Ferðanefndin


Hipp, hipp …  … nú tökum við á því !
Hrossaræktarfélagið Náttfari blæs til vinnudags á Melgerðismelunum laugardaginn 27. maí kl. 13:00. Smíðavinna við dómshús (takið með hamra og önnur tilfallandi smíðaverkfæri) og undirbúningur fyrir kynbótasýningu sem er framundan.
HVETJUM FÉLAGA TIL AÐ MÆTA !
Stjórn Náttfara: Einar Brúnum – Jóna Bringu – Sigríður Hólsgerði

Getum við bætt efni síðunnar?