Auglýsingablaðið

892. TBL 21. júní 2017 kl. 09:45 - 09:45 Eldri-fundur

   Leikskólastjóri óskast í leikskólann Krummakot
 Eyjafjarðarsveit auglýsir lausa til umsóknar stöðu leikskólastjóra í leikskólanum Krummakoti. Leitað er eftir jákvæðum og drífandi leiðtoga með framúrskarandi hæfni í mannlegum samskiptum.

Leikskólinn Krummakot er í Hrafnagilshverfi, aðeins tíu kílómetra sunnan Akureyrar, í barnvænu umhverfi sem hefur upp á einstaka möguleika að bjóða til útivistar, hreyfingar og tónlistar. Krummakot er þriggja deilda leikskóli með um 60 nemendur á aldrinum 12 mánaða til 6 ára.

Starfssvið:
•  Að veita leikskólanum faglega forystu á sviði uppeldis og kennslu.
•  Að leiða samstarf starfsmanna, heimila og leikskólans.
•  Að stýra leikskólanum og bera ábyrgð á daglegri starfsemi, fagstarfi, starfsmannamálum, fjárhagsáætlun og rekstri.

 Menntunar- og hæfniskröfur:
•  Leyfisbréf leikskólakennara og kennslureynsla á leikskólastigi.
•  Viðbótarmenntun í stjórnun eða reynsla af stjórnun.
•  Samstarfshæfni og lipurð í mannlegum samskiptum.
•  Leiðtogahæfileikar, faglegur metnaður og hugmyndaauðgi.
•  Góð almenn tölvukunnátta.
•  Góð íslenskukunnátta.

Eyjafjarðarsveit er blómlegt og öflugt 1.000 manna samfélag. Í Hrafnagilshverfi eru auk leikskólans grunnskóli, tónlistarskóli og íþróttamiðstöð.

Umsóknir um starfið sendist á skrifstofu Eyjafjarðarsveitar, Skólatröð 9, 601 Akureyri, eða á netfang skrifstofustjóra, stefan@esveit.is merkt „Leikskólastjóri 1706018“ í efnislínu (e. subject). Með umsókn skal fylgja leyfisbréf leikskólakennara, ferilskrá ásamt tilvísun til tveggja meðmælenda og kynningarbréf sem tilgreinir m.a. ástæður umsóknar og rökstuðning fyrir hæfni viðkomandi í starfið.

Umsóknir skulu hafa borist á skrifstofu eða í tölvupósti eigi síðar en 3. júlí 2017.
Laun eru samkvæmt kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og KÍ f.h. Félags stjórnenda leikskóla.
Nánari upplýsingar um starfið veitir Stefán Árnason, skrifstofustjóri, í síma 463-0600.
Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin.

   Matráður óskast í leikskólann Krummakot
Laust er til umsóknar starf matráðs við leikskólann Krummakot í Eyjafjarðarsveit, um er að ræða 100% stöðu frá 8. ágúst 2017.

Í starfinu felst umsjón með mötuneyti leikskólans; að framreiða í matar- og kaffitímum, að sjá um innkaup fyrir morgunverð og síðdegishressingu, frágangur og þrif auk annarra tilfallandi verkefna. Hádegismatur er aðkeyptur úr mötuneyti Eyjafjarðarsveitar sem er til húsa við Hrafnagilsskóla.

Hæfniskröfur:
•  Hreinlæti og snyrtimennska skilyrði.
•  Frumkvæði, sveigjanleiki og samstarfsvilji.
•  Lipurð og færni í samskiptum.
•  Reynsla af sambærilegu starfi kostur.

Leikskólinn Krummakot er í Hrafnagilshverfi, aðeins 10 kílómetra sunnan Akureyrar. Um 60 börn eru í leikskólanum á þremur deildum.

Umsóknir um starfið sendist á skrifstofu Eyjafjarðarsveitar, Skólatröð 9, 601 Akureyri, eða á netfang skrifstofustjóra, stefan@esveit.is merkt „Matráður 1706020“ í efnislínu (e. subject). Með umsókn skal fylgja ferilskrá ásamt tilvísun til tveggja meðmælenda. Umsóknir skulu hafa borist á skrifstofu eða í tölvupósti eigi síðar en 28. júní 2017.

Laun eru samkvæmt kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og viðkomandi stéttarfélags. 
Nánari upplýsingar um starfið eru veittar á skrifstofu í síma 463-0600.
Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin.

   Umsjónarmaður Eignasjóðs Eyjafjarðarsveitar
Eyjafjarðarsveit óskar eftir að ráða umsjónarmann Eignasjóðs Eyjafjarðarsveitar. Starfið felst í almennri umsjón fasteigna sveitarfélagsins og umhverfis, eftirliti með ástandi eigna og gerð fjárhagsáætlana. 

Umsjónarmaður eignasjóðs sinnir viðhaldsáætlanagerð, auk annarra verkefna, s.s. viðhaldi gatna, lagna og fleira sem til fellur og heyri undir verkefni eignasjóðs. Umsjónarmaður eignasjóðs sinnir einnig minniháttar framkvæmdum og viðhaldi á vegum sveitarfélagsins. Umsjónarmaður leitar eftir tilboðum og semur við verktaka um stærri verk og hefur eftirlit með framkvæmd verkefna. Umsjónarmaður starfar með öðrum starfmönnum eignasjóðs og hefur samskipti við notendur fasteigna og forstöðumenn þeirra. Umsjónarmaður situr fundi framkvæmdaráðs. Næsti yfirmaður umsjónarmanns er sveitarstjóri. Skilyrði er að viðkomandi hafi bílpróf og geti unnið utan venjulegs dagvinnutíma í tilfallandi tilvikum.

Menntunar- og hæfniskröfur:
Umsækjandi skal vera húsasmiður eða með aðra menntun á sviði bygginga sem nýtist í starfi. Viðkomandi þarf að vera sjálfstæður í starfi, heilsuhraustur, duglegur, skapgóður og tilbúinn að takast á við margvísleg verkefni. Við mat á umsóknum verður auk þess horft til reynslu umsækjanda af áætlanagerð og verkumsjón. Gert er ráð fyrir að umsækjandi búi yfir tölvu- og snjallsímakunnáttu.

Um laun fer samkvæmt kjarasamningi Sambands sveitarfélaga og viðkomandi stéttarfélags.

Umsóknir um starfið, ásamt ferilskrá og tilvísun til tveggja meðmælenda skal senda á skrifstofu Eyjafjarðarsveitar, Skólatröð 9, 601 Akureyri, eða á netfang skrifstofustjóra, stefan@esveit.is merkt „Eignasjóður 1706013“ í efnislínu (e. subject).

Umsóknir skulu hafa borist á skrifstofu eða í tölvupósti eigi síðar en 28. júní 2017.
Nánari upplýsingar um starfið veitir Stefán Árnason, skrifstofustjóri í síma 463-0600.

 

Aðalfundur Ungmennafélagsins Samherja
Aðalfundur ungmennafélagsins verður haldin fimmtudaginn 22. júní kl. 20:30 í Félagsborg.
Auk venjulegra aðalfundarstarfa verða fráfarandi stjórnarmeðlimir með skemmtiatriði.
Allir hjartanlega velkomnir á fundinn að ræða málefni félagsins. Veglegar veitingar í boði.
Stjórn Umf. Samherja 

 

Blómasala Ungmennafélagsins Samherja
Blómasalan um Hvítasunnuna gekk vel í ár og þakkar stjórn Ungmennafélagsins fyrir góðar móttökur og frábæran stuðning.
Við viljum minna þá á sem enn eiga eftir að leggja inn fyrir blómvöndunum að gera það við fyrsta tækifæri.
Allar upplýsingar má finna á heimasíðu ungmennafélagsins www.samherjar.is
Bestu þakkir, stjórn Ungmennafélagsins Samherja 

   Ungfolahólf Náttfara
Hrossaræktarfélagið Náttfari býður upp á hagabeit fyrir ungfola; hólf í Samkomugerði fyrir yngri folana og í Melgerði fyrir þá eldri. Stefnt er að því að sleppa folum föstudaginn 23.júní frá kl.20:00 til 22:00. Athugið að folarnir verða að vera búnir að fá ormalyf. 
Þeir sem vilja koma folum í hólfið er bent á að senda tölvupóst á netfangið holsgerdi@simnet.is með upplýsingum um fæðingarnúmer, nafn, örmerki og lit folans ásamt símanúmeri og nafni umsjónarmanns/eiganda hestsins. Vera folanna í hólfunum er á ábyrgð eigenda/umráðamanna.
Nánari upplýsingar veitir Sigríður Bjarnadóttir, Hólsgerði, s. 857-5457.

Getum við bætt efni síðunnar?