Auglýsingablaðið

1068. TBL 26. nóvember 2020

Auglýsingablað 1068. tbl. 12. árg. 26. nóv. 2020.Gjafabréf í Eyjafjarðarsveit

Kæru sölu- og þjónustuaðilar í Eyjafjarðarsveit.
Til að stuðla að aukinni verslun í heimabyggð hefur sveitarfélagið útbúið gjafabréf sem hægt er að kaupa á skrifstofu sveitarfélagsins er eingöngu hægt að nýta hjá aðilum sem eru með vörur og/eða þjónustu í sveitarfélaginu.
Nú þegar hafa margir aðilar látið vita að þeir vilji endilega bjóða handhöfum gjafabréfsins að nýta það hjá sér og er það mín von að sem flestir vilji taka við gjafabréfunum og nýta þannig þessa þjónustu sveitarfélagsins.

Skráning á listann fer fram á esveit@esveit.is eða í síma 463-0600 og uppfærist listinn jafnóðum og fleiri bætast á hann.
Nýir þjónustu- og söluaðilar geta bæst á listann hvenær sem er.

Sala gjafabréfsins fer fram á skrifstofu sveitarfélagsins og fer upphæð þess eftir óskum kaupandans.

Með von um jákvæð viðbrögð og ábendingu um fallega og góða jólagjöf til vina og vandamanna.
Finnur Yngvi Kristinsson, sveitarstjóri.Íþrótta- og tómstundastyrkur barna 2020 – frestur til 15. des.

Eyjafjarðarsveit veitir foreldrum/forráðamönnum barna og ungmenna á aldrinum
6-17 ára styrki vegna íþrótta- og tómstundaiðkunar. Meginmarkmið íþrótta- og tómstundastyrkja er að stuðla að aukinni hreyfingu og félagsþátttöku barna í sveitarfélaginu. Styrkur er veittur vegna æfinga- og þátttökugjalda fyrir börn á aldrinum 6-17 ára með lögheimili í Eyjafjarðarsveit. Styrkhæft er hvers konar reglulegt íþrótta- og tómstundastarf.

Styrkur árið 2020 er fjárhæð 20.000 kr.
Umsóknir þurfa að berast í síðasta lagi 15. desember.
Sótt er um rafrænt á heimasíðu Eyjafjarðarsveitar – Umsóknir – Íþrótta- og tómstundastyrkur.

Til að fá styrkinn greiddan þarf að senda:
1. Afrit af reikningi þar sem fram kemur fyrir hvaða íþrótt eða tómstund er verið að greiða og fyrir hvaða barn.
2. Staðfestingu á greiðslu.
3. Reikningsupplýsingar til að leggja styrkinn inn á.Sérstakir íþrótta- og tómstundastyrkir vegna áhrifa af Covid-19

Opnað hefur verið fyrir umsóknir á sérstökum íþrótta- og tómstundastyrkjum fyrir börn sem búa á tekjulægri heimilum þar sem markmiðið er að jafna tækifæri þeirra til þátttöku í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi. Styrkirnir koma til viðbótar hefðbundnum íþrótta- og tómstundastyrkjum sveitarfélaga.

Hægt er að sækja um styrk fyrir börn sem fædd eru á árunum 2005-2014 og búa á heimili þar sem heildartekjur heimilisins voru að meðaltali lægri en 740.000 kr. á mánuði á tímabilinu mars – júlí 2020. Styrkurinn er 45.000 kr. á hvert barn og um 13.000 börn eiga rétt á styrknum. Sveitarfélögin annast afgreiðslu styrkumsókna eftir að búið er að kanna rétt til styrksins inni á Ísland.is (https://island.is/styrkur-til-ithrotta-og-tomstundastarfs).

"Íbúar Eyjafjarðarsveitar sem fá jákvætt svar um rétt til styrksins, sækja um í gegnum þjónustugátt Akureyrarbæjar."

 


Sveitarstjórnarfundur

558. fundur sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar verður haldinn í matsalnum, Skólatröð 9, fimmtudaginn 26. nóvember og hefst hann kl. 15:00.
Dagskrá fundarins verður kynnt á upplýsingatöflu í anddyri skrifstofunnar og á heimasíðu sveitarfélagsins.Fullveldishátíð fellur niður 2020

Menningarmálanefnd hefur ákveðið að vegna aðstæðna í þjóðfélaginu núna
verði ekki fullveldishátíð 1. des. í Laugarborg eins og undanfarin ár, því miður.
Menningarmálanefnd.Ullarflutningar í Eyjafjarðarsveit

Ull verður sótt í Eyjafjarðarsveit laugardaginn 28. nóvember.
Svo hægt sé að skipuleggja flutningana sem best eru þeir bændur sem verða tilbúnir með ull beðnir um að hafa samband við Rúnar í s: 847-6616 eða á netfangið run@simnet.is, Bigga í Gullbrekku í s: 845-0029 eða Hákon á Svertingsstöðum í s: 896-9466 eða á netfangið konnisvert@gmail.com.
Munið að merkja, vigta og skrá ullina. Tilgreina þarf pokafjölda og hve mörg kíló bændur eru að senda frá sér. Skráningarblað verður að fylgja ullinni við afhendingu á bíl. Byrjað verður á Halldórsstöðum seinni part föstudags 27. nóvember og bílinn verður staðsettur á Melgerðismelum milli kl. 11:00 og 12:00 laugardaginn 28. nóvember og kl. 13:00 við Svertingsstaði.Ratsjáin – Viltu auka nýsköpunarhæfni þína?

Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðausturlandi (SSNE) í samvinnu við fleiri, bjóða nú fyrirtækjum á sínu starfssvæði að taka þátt í Ratsjánni.

Ratsjáin er ákveðið verkfæri ætlað stjórnendum í ferðaþjónustu og tengdum greinum sem vilja auka nýsköpunarhæfni sína, hraða mikilvægum breytingaferlum og öðlast aukna yfirsýn og getu til að þróa vörur og þjónustu. Íslenski ferðaklasinn leiðir verkefnið í samstarfi við RATA og tengiliði frá landshlutasamtökum sveitarfélaga á Austurlandi, Norðurlandi eystra, Norðurlandi vestra, Vestfjörðum, Vesturlandi, Reykjanesi og Suðurlandi.

Ratsjáin mun hefjast með formlegum hætti í janúar 2021 og standa yfir í 16 vikur eða til 16. apríl. Einungis eru fá sæti í boði og áhugasamir þurfa að sækja um fyrir 1. desember 2020. Þátttakendur frá öllum landshlutum munu hittast á tveggja vikna fresti á sameiginlegum vinnustofum á netinu þar sem kafað verður í kjarna þeirra verkfæra sem fyrir valinu verða. Á milli sameiginlegu vinnustofanna er haldinn svæðisbundinn heimafundur sem er í umsjón landshlutanna sjálfra. Þar verður farið nánar yfir efnistök frá sameiginlegum fundi og unnið með sérstöðu hvers svæðis fyrir sig á þeirra forsendum.

Kynningarfundur verður fimmtudaginn 26. nóvember klukkan 10:00.
Nánari upplýsingar má sjá á https://www.facebook.com/events/2531890897108933.

Áhugasömum er einnig bent á vefsíðu SSNE, ssne.is og einnig er hægt að hafa samband við Rebekku, Silju eða Elvu verkefnastjóra hjá SSNE.Kvenfélagið Iðunn – Jólafundur 2. desember

Kæru félagskonur, vinsamlegast fylgist vel með tölvupósti þegar nær dregur.
Bestu kveðjur, stjórnin.


Fullt af flottum tækifærisgjöfum
Púsl, klukkur og allskyns veggskraut.
Geira Gunn Gunn, 868-3697, geiraegomaniac@gmail.com.

 

Getum við bætt efni síðunnar?