Auglýsingablaðið

452. TBL 12. desember 2008 kl. 15:53 - 15:53 Eldri-fundur

Almennur fundur vegna fjárhagsáætlunar ársins 2009

í byrjun nóvember s. l. þegar vinna hófst við áætlun ársins 2009 var strax gerð áætlun um vinnufyrirkomulag og eftirfarandi ákveðið:
• 17.–21. nóv. fundað með formönnum nefnda og forstöðumönnum stofnana.
• 22. nóv. vinnudagur allra nefnda þar sem unnið yrði að gerð áætlunar.
• Að lokinni síðari umræðu um áætlunina yrði haldinn almennur fundur þar sem áætlunin yrði kynnt og þær aðgerðir sem nauðsynlegar eru til að draga úr kostnaði.

í samræmi við það sem hér hefur komið fram er boðað til opins fundar um fjárhagsáætlun Eyjafjarðarsveitar fyrir árið 2009. Fundurinn verður í Laugarborg mánudagskvöldið 15. desember kl. 20:30.
Oddviti




Félagsþjónusta og úrræði á tímum þrenginga í þjóðfélaginu.

Nú er sá tími að við verðum öll að leggjast á eitt til að hjálpa hvert öðru.  ég veit að fólk tregt til að bera vandræði sín á borð fyrir aðra en ef við gerum það ekki þá er erfitt að veita hjálp.  ég vil hvetja þá sem sjá framá vandræði í fjármálum eða húsnæðismálum að láta vita í tíma.  Eyjafjarðarsveit er með samning við fjölskyldudeild Akureyrar um liðveislu og aðstoð við íbúa sveitarinnar og þjónustan er öllum opin.  Viðtalstímar eru pantaðir í síma 460 1420.

Einnig býð ég íbúum sveitarinnar að hafa samband beint við mig vilji þeir það, ef einhver mál eru uppi sem við hér á skrifstofunni getum leyst þá erum við alltaf til taks.  útibústjórar viðskiptabankanna hafa einnig hvatt fólk til að hafa samband ef upp koma vandræði með lán og aðrar skuldbindingar sem fólk er með.  „Ekki gera ekki neitt“. G.J.




Kæru vinir !

í tilefni 40 + 40 ára afmæla okkar bjóðum við til veislu í Funaborg, Melgerðismelum laugardagskvöldið 20. desember n.k. frá kl.20:30.
ánægjulegt væri að þið tækjuð ykkur frí frá önnum jólaundirbúningsins og kæmuð í súpu, söng og dans þessa kvöldstund.
Velkomnir !
Sigga og Brynjar, Hólsgerði 




þorrablót 2009

Minnum á þorrablótið 31. janúar 2009.

Nefndin



Jólabingó

Jólabingó verður haldið í Funaborg sunnudaginn14. desember kl. 13:30.
Glæsilegir vinningar í boði.

Hestamannafélagið Funi




Bændur og aðrir sveitungar athugið

Tek að mér afleysingar á búum í lengri eða skemmri tíma, sem og ýmiskonar smáverk.

Víðir í Torfufelli s: 899 9821




Jólagjafir

Fyrir þá sem vilja gefa eyfirskar jólagjafir þá er ég með ýmiskonar handverk til sölu helgina 13. og 14. des. milli kl. 12 - 16 í Fífilbrekkunni hennar Höddu ofan við Hólshús.

Veski úr bílslöngum og viftureimum, veski úr vaðmáli skreytt með roði eða geitaskinni, ullar húfur með skúf úr halahári af eyfirskum kúm, þæfða trefla, handstúkur úr mokkaskinni.

Miðalda strúthettur, 21 aldar strúthettur, miðalda mánamöttla úr ullarefni.

Grófa og töff skartgripi úr hornum og beinum, svo líka ostaskera, tertuspaða, smjörhnífa og fleira í þeim dúr.

Allir eru velkomnir, það má líka hafa samband í síma 8651621 ef þessi tími hentar illa.

Aðventukveðja - Gunna - Stekkjarflötum.




Nemi í Svæða- og viðbragðsmeðferð

Svæða og viðbragðsmeðferð er ævaforn og áhrifarík nuddaðferð sem byggir á því
að hvert líffæri hafi sína orkustöð í fótum.
Er kominn með aðstöðu að Vökulandi, get tekið fólk í nudd gegn vægu gjaldi.

Upplýsingar í síma: 846 7378




Harmóníka óskast!

óska eftir að kaupa harmóníku, gott ef hún væri u.þ.b. 96 bassa. ég á 120 bassa nikku sem ég væri tilbúin að láta í skiptum fyrir minni harmóníku eða selja bara beint.

áhugasamir geta hringt í 463-1336 eða 894-1303 og talað við Eddu Skarp.




Síðari umræða um fjárhagsáætlun sveitarfélagsins.

í dag föstudag er til síðari umræðu fjárhagsáætlun Eyjafjarðarsveitar fyrir árið 2009.  Vaninn er að við gerð áætlana eru þær nánast fullmótaðar þegar til seinni umræðu kemur og á ég því ekki von á breytinum á tillögunni. í ljósi þess ætla ég að fara yfir helstu áherslur og efnisatriði sem mest snerta íbúana og teljast til skerðingar á þjónustu.

þegar ljóst varð í hvað stefndi með tekjur sveitarfélagsins var ákveðið að kalla saman allar nefndir til vinnufundar og er fjárhagsáætlunin sem nú er lögð fram afrakstur þeirrar vinnu.

það sem liggur fyrir er að póstdreifingu á laugardögum verður hætt, sveitapósturinn lagður niður í núverandi mynd og í staðinn kemur út á föstudögum einblöðungur sem verður dreift af íslandspósti.  þessi ráðstöfun sparar um 2 milljónir á ári.  Framkvæmd Handverkshátíðar verður breytt og fjárhagsleg áhætta færð frá sveitarfélaginu til hagsmunaaðila.  þessi ráðstöfun sparar rúmar tvær milljónir.  Ekki er að fullu búið að útfæra allar hugmyndir um sparnað í íþróttamannvirkjum sveitarinnar.  Hagræðing í rekstri þar gæti sparað 1-2 milljónir og felst það m.a. í lokun vaðlaugar í miðri viku og sundlaugarkers fyrr á kvöldin. Sundlaugin verður samt opin fyrir pott og gufu eins og venjulega.  Með þessu er hægt að spara í mannahaldi og öðrum rekstrarkostnaði. Stærri styrkir í öllum málaflokkum verða lagðir af og þær beiðnir sem berast á árinu verða skoðaðar og metnar, sveitarstjórn mun síðan fjalla um beiðnirnar og taka ákvörðun í hverju tilfelli fyrir sig.  þetta gæti sparað umtalsvert fé og lætur nærri að sparnaðurinn verði rúmar fjórar milljónir.  Hugmyndir eru uppi um innkaupabann búnaðar ef uppæðin er hærri en fimmtíuþúsund krónur, hærri upphæðir verða háðar samþykki sveitarstjóra.  Ekki er ljóst hvað þetta gæti sparað en með þessu er verið að auka verulaga á aðhald í rekstri. útgjöld til menningarmála eru skorin mjög mikið niður.  Reiknað er með að flestir menningarviðburðir verði sjálfbærir og kostnaði við þá ekki velt á sveitarsjóð. Tónlistardagskrá í Laugarborg verður ekki lengur á höndum og í fjárhagslegri umsjón sveitarinnar.  Með þessum mikla niðurskurði sparast um 6 milljónir króna.

í Tónlistarskólanum er áætluð skerðing á þjónustu sem bitnar mest á fullorðnum nemendum.  Börn og unglingar undir 20 ára sitja fyrir og verða fyrir óverulegri skerðingu.  Dregið verður úr undirleik og samsöng og nemendur fá aðeins að vera í einni námsgrein.  Fækkun stöðugilda í Tónlistarskólanum verður 1,3 og snertir breytingin fimm kennara.  Undanfarin ár hefur verið lögð mikil áhersla á umgjörð Hrafnagilsskóla og hefur skólinn notið mikils velvilja sveitarstjórnar, markvist var hlúð að starfinu með fjárveitingum til skólans.  Nú bregður svo við að uppsagnir starfsmanna og kennara eru eina leiðin til að loka fjárhagsramma sveitarfélagsins. Fræðslumálin taka til sín tæp 70% af rekstarakostnaði sveitarinnar og útilokað er að leggja fram hallalausa fjárhagsáætlun án þess að skerða framlög til skólans.  Auk uppsagna í skólanum verður aukið á allt aðhald í rekstri, vettvangsferðir sem kallað hafa á kostnað verða aflagðar og þess í stað hugað að ferðum sem ekki útheimta útgjöld.  Kennslu í heimilisfræðum hafa fylgt útgjöld í formi skólaaksturs, við þá ákvörðun að hætta kennslu í heimilisfræðum sparast tæpar 2 milljón í aðkeypta þjónustu.

Dregið verður úr og sparað í yfirstjórn sveitarfélagsins, auk 4,2% niðurskurðar eru uppi hugmyndir um enn meiri sparnað en þess má geta að í samanburði við önnur sveitarfélög er yfirstjórnarkostnaður pr. íbúa í Eyjafjarðarsveit er lægri samanborið við sambærileg sveitarfélög.  Nú liggur fyrir tillaga um fækkun nefnda og fækkun fólks í nefndum, fækkun funda sveitarstjórnar auk annarra aðgerða sem minnka útgjöld sveitarinnar.  þessi breyting gæti sparað sveitarsjóði á bilinu 600 þúsund til 1,0 milljón króna.

það er afar mikilvægt að bregðast við ástandinu strax svo við komumst fyrr út úr þessum þrengingum.  Auðvitað eru ekki allir sammála um aðferðir og áherslur en við þessa vinnu var kallað eftir sjónarmiðum og hugmyndum frá fjölda fólks.  Tíminn einn mun leiða í ljós hvernig okkur tekst til.  ég ber þá von í hjarta að við komumst fljótt á sama stall og við höfum verið á undanfarin ár.

Guðmundur Jóhannsson, sveitarstjóri.


Getum við bætt efni síðunnar?