Gráni 100 ára!

Gráni 100 ára!
Nú í ár verða komin 100 ár frá því Sesselja frá Jökli lét byggja gangnamannakofann Grána í Réttarhvammi við Geldingsá. Örnólfur Eiríksson hefur verið helsti umsjónarmaður Grána sem og Sesseljubæjar til margra ára og séð um viðhald á húsunum. Í fyrra var farið í talsverðar framkvæmdir til að viðhalda Grána, en húsið var farið að halla til vesturs. Húsið var rétt af, skipt um allar stoðir og þær steyptar niður. Veggirnir bungast ýmist út eða inn og þess vegna ætlar Örnólfur að nýta þetta sumar í að rífa þá og endurhlaða í von um að húsið standi allavega önnur 100 ár í viðbót. Hann hyggst fara á fjöll eins fljótt og verður fært og vera meira og minna á staðnum fram í ágúst, en það má reikna með að fjallsvegir opni um miðjan júlí. Það að endurhlaða Grána er talsvert mikið verk og þarfnast öflugra og kröftugra einstaklinga til að afreka og er því öll aðstoð við þessa framkvæmd með öllu velkomin og vel þegin. Aðstæður við Sesseljubæ eru eins og hafa verið, þó nokkur svefnpláss í húsinu, prímus til að elda á og helsti búnaður, svo það er alveg hægt að gista á staðnum hvort sem um ræðir lengri eða styttri tíma. Eins er tilvalið að tjalda við húsið eða koma á húsbíl.
Að framkvæmdum loknum verður haldið upp á 100 ára afmælið með fögnuði helgina eftir verslunarmannahelgina, 8.-9. ágúst, nánar auglýst síðar.
Ef þið hafið hug á að taka þátt í framkvæmdunum eða forvitnast frekar um þær hafið þá endilega samband við Örnólf í síma 897-1311.