Heimildarmyndin Gósenlandið Elín Methúsalemsdóttir

Menningarmálanefnd bíður íbúum Eyjafjarðarsveitar og öðrum áhugasömum á kvikmyndasýningu í Laugarborg þriðjudaginn 3. des. kl. 20:00. 

Heimildamyndin Gósenlandið er sögð með hjálp Elínar Methúsalemsdóttur heitinnar og fjölskyldu hennar, þar sem fjallað er um íslenska matarhefð og þær breytingar sem hafa átt sér stað í matarsögu Íslendinga. Elín sat sem barn við hlóðirnar í gamla burstabænum að Bustarfelli og tók þar síðar við búsforráðum og fluttist á sjöunda áratug í nýtískulegt hús við hliðina á því gamla. Dóttir hennar tók síðan við búinu með eiginmanni sínum sem nú gengur áfram til sonarins.

Farið er víða um land og rætt ýmist við þá sem stunda matarframleiðslu eða fræðimenn, allt eftir því sem viðtalið við Elínu gefur tilefni til.


Nánari lýsing:

Gósenlandið -

- íslensk matarhefð og matarsaga

Í heimildamyndinni Gósenlandinu er fjallað um íslenska matarhefð og þær breytingar sem hafa átt sér stað í matarsögu Íslendinga.
Kvikmyndafélagið Gjóla ehf. framleiddi myndina undir stjórn Ásdísar Thoroddsen og er þetta þriðja myndin sem hún gerir um verkmenningu á Íslandi.

Lýsing:
     Matargerð á Íslandi einkenndist af skorti; salt vantaði, brenni vantaði, korn vantaði, flest það sem nóg var af hjá nágrannaþjóðum. En engu að síður hefur þjóðin sem byggði landið fundið leiðir til að bæta úr skortinum. Því er nafngiftin, Gósenlandið, ekki gefin í kaldhæðni. Heldur má segja að mataræði Íslendinga í hinu gamla bændasamfélagi, hvort sem þeir bjuggu inn til dala eða í þurrabúð við sjóinn hafi verið furðu hollt, þótt vitanlega hafi eitthvað verið um hörgulsjúkdóma á útmánuðum. Síðan hófst mikill innflutningur rúgs og annarra korntegunda á fyrri hluta 19. aldar og prótínneysla Íslendinga snarminnkaði. Sú mikla breyting hélt áfram og um miðja tuttugustu öld töldust Íslendingar með helstu sykurætum heims, ásamt þjóðunum við Karabíska hafið sem framleiddu sykurinn. Menningaráhrif frá herraþjóðinni í Danmörku mótuðu matarsmekk Íslendinga löngum og síðan áhrif frá Bandaríkjunum eftir stríð. Nú koma til aðrir áhrifavaldar; matarmenning innflytjenda og þjóða sem Íslendingar sækja heim, lífræn ræktun og tískustraumar í matargerð. Andi okkar tíma vísar til endurskilgreiningar á hefð og til mótsvars við fjöldaframleiðslu, þegar hún, ásamt alþjóðavæðingu, hefur endanlega haslað sér völl. 

Saga íslenskrar matarhefðar er sögð með hjálp Elínar Methúsalemsdóttur heitinnar og fjölskyldu hennar. Elín sat sem barn við hlóðirnar í gamla burstabænum að Bustarfelli og tók þar síðar við búsforráðum og fluttist á sjöunda áratug í nýtískulegt hús við hliðina á því gamla. Dóttir hennar tók síðan við búinu með eiginmanni sínum sem nú gengur það áfram til sonarins.