Þjóðbúningasaumanámskeið - Kvennaskólinn á Laugalandi

Þjóðháttafélagið Handraðinn býður upp á námskeið í þjóðbúningasaumum í vetur sem áður fyrr í samstarfi við Heimilisiðnaðarfélag Íslands. Helgin 16. og 17. okt. verður næsta saumahelgi frá kl. 10:00-17:00 báða daga og er ráðgert að sauma líka 20. og 21. nóvember. Nemendur vinna að ólíkum verkefnum bæði búningum karla og kvenna, gerð faldbúninga, kyrtla, peysufata og upphluta, skyrtu- og svuntusaumi, útsaumi eða baldýringu eða lagfæra eldri búninga. Hver helgi er stök og mögulegt er að taka þátt hluta úr helgi. Stefnt er að því að halda slíkar saumahelgar sex sinnum í vetur. Nemendur þurfa að koma með saumavél og einnig að hafa með sér allt almennt saumadót sem gæti nýst s.s. tvinna, þræðitvinna, skæri, nálar, saumavélanálar, málband, krít, skriffæri og fleira. Hægt er að bóka tíma í mátun fyrir sniðtöku og skoða efnisprufur frá verslun Heimlisiðnarfélagsins sé áhugi á þátttöku síðar í vetur.

Verð á hverja helgi er 44.200 kr. (39.780 fyrir félagsmenn) (12 klst). Kennari verður Oddný Kristjánsdóttir eigandi þjóðbúningastofunnar 7íhöggi. Námskeiðið verður haldið í gamla Kvennaskólanum á Laugalandi.

Allar nánari upplýsingar og fyrirspurnir, sem og skráningar sendist á kristin@heimilisidnadur.is.