Fréttayfirlit

Sýning í Laugarborg: Refilsaumuð saga landnema

Einstök sýning á yfir 300 refilsaumuðum veggmyndum verður opnuð í Tónlistarhúsinu Laugarborg í Eyjafjarðarsveit laugardaginn 4. febrúar kl. 14:00. SCOTTISH DIASPORA TAPESTRY segir sögu Skota sem hafa flust til annarra landa í gegnum aldirnar og afrekum þeirra. Veggmyndirnar eru saumaðar af afkomendum skoskra innflytjenda í 33 löndum og hefur sýningin verið á ferð á milli þeirra sl. tvö ár. Við hana munu nú bætast fimm myndir frá Íslandi sem segja sögu systranna Þórunnar hyrnu og Auðar djúpúðgu Ketilsdætra sem komu hingað til lands með fjölskyldur sínar frá Skotlandi á níundu öld. Sýningin stendur yfir alla daga frá 4. - 26. febrúar frá kl. 14:00 til 18:00.
30.01.2017

Landhelgisgæslan og sérsveit lögreglunnar við æfingar við Hrafnagil

Nú í þessum skrifuðu orðum er Landhelgisgæslan og Sérsveit lögreglunnar við æfingar við Hrafnagil. Þyrlan lenti við Skólatröð og náðist mynd af hópnum.
25.01.2017

Arnór Snær Íþróttamaður UMSE 2016

Á fimmtudagskvöldið, 19. janúar var kjöri íþróttamanns UMSE lýst í Hlíðarbæ í Hörgársveit. Arnór Snær Guðmundsson, golfari úr Golfklúbbnum Hamri var kjörinn Íþróttamaður UMSE 2016. Hann var jafnframt útnefndur golfmaður UMSE 2016. Annar í kjörinu var Guðmundur Smári Daníelsson, frjálsíþróttamaður frá Umf. Samherjum og frjálsíþróttamaður UMSE 2016 og þriðji Viktor Hugi Júlíusson, frjálsíþróttamaður frá Umf. Svarfdælum.
23.01.2017

Ályktun sveitarstjórnar um stöðu sjúkraflugs og lokun neyðarbrautar

Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar hvetur Borgarstjórn Reykjavíkur eindregið til að opna tafarlaust aftur NA/SV flugbraut á Reykjavíkurflugvelli, svokallaða neyðarbraut, meðan ekki hefur fundist önnur viðunandi lausn. Öllum má ljóst vera að lending á neyðarbrautinni hefur skipt sköpum varðandi sjúkraflug utan af landi, oft í erfiðum tilfellum þar sem um líf eða dauða er að tefla. Lokun neyðarbrautarinnar er ógn við öryggi og heilsu þeirra sem búa og starfa utan höfuðborgarsvæðisins. Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar skorar á stjórnvöld að sýna því skilning að málefni flugvallarins í Reykjavík er ekki einkamál Borgarstjórnar Reykjavíkur. Flugvöllurinn í Reykjavík er eitt mikilvægasta samgöngumannvirki þjóðarinnar. Reykjavík er höfuðborg og verður að kannast við hlutverk sitt sem slík og þvi fylgja ekki bara réttindi heldur einnig skyldur við allt landið.
19.01.2017

Þorrablót Eyjafjarðarsveitar 2017

Þorrablót Eyjafjarðarsveitar verður haldið í íþróttahúsi Hrafnagilsskóla laugardaginn 28. janúar næstkomandi. Veislustjóri verður hinn frábæri ÓSKAR PÉTURSSON. Hljómsveitin EINN OG SJÖTÍU sér um að halda uppi fjörinu fram eftir nóttu. Húsið verður opnað kl. 19:30 og blótið sett kl. 20:30. Að vanda taka þorrablótsgestir matartrog með sér að heiman troðin kræsingum. Glös verða á staðnum en gestir hafa með sér annan borðbúnað. Kaffisala verður að loknu borðhaldi.
18.01.2017

Styrkur frá Norðurorku

Á Handverkshátíð 2016 var haldin listasmiðja fyrir börn. Þótti smiðjan takast vel í alla staði og því hugur á að endurtaka leikinn að ári. Sótt var um styrk til Norðurorku sem auglýsti eftir styrkumsóknum til samfélagsverkefna og var Handverkshátíðin á meðal fjölmargra sem hlutu styrk að þessu sinni. Við þökkum Norðurorku kærlega fyrir og hlökkum til að sjá afrakstur smiðjunnar á Handverkshátíð 2017.
16.01.2017

FUNDARBOÐ 491. fundur sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar

491. fundur sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar verður haldinn í fundarstofu 1, Skólatröð 9, 18. janúar 2017 og hefst kl. 15:00
16.01.2017

Hólasandslína 3 - Mat á umhverfisáhrifum

Landsnet undirbýr nú mat á umhverfisáhrifum Hólasandslínu 3. Um er að ræða nýja 220 kV háspennulínu frá Akureyri að Hólasandi. Tilgangur framkvæmdarinnar er að tryggja stöðugleika raforkukerfisins á Norður- og Austurlandi svo það ráði betur við truflanir, auka hagkvæmni í orkuvinnslunni með samtengingu virkjanasvæða og til að mæta þörfum við uppbyggingu og núverandi atvinnustarfsemi á Norður- og Austurlandi. Framkvæmdirnar eru einnig mikilvægar fyrir flutningskerfi landsins í heild sinni þar sem um er að ræða mikilvægan hlekk í styrkingu tengsla milli sterkari hluta þess á suðvesturhorninu og veikari hluta þess austanlands. Línan mun því bæta afhendingaröryggi raforku á Norður- og Austurlandi til muna.
10.01.2017

Leikskólinn Krummakot í Eyjafjarðarsveit óskar eftir að ráða leikskólakennara eða starfsmenn með aðra uppeldismenntun.

Leikskólinn Krummakot í Eyjafjarðarsveit óskar eftir að ráða leikskólakennara eða starfsmenn með aðra uppeldismenntun. Um er að ræða: 100% stöðu í veikindaafleysingar frá 23. janúar til 8. júlí 2017 og 100% staða vegna fæðingarorlofs í apríl n.k. Krummakot er þriggja deilda leikskóli með rúmlega 60 nemendur og eru deildir aldursskiptar. Verið er að innleiða uppeldisstefnuna Jákvæðan aga og markvisst unnið með málrækt, dygðir, umhverfisstarf, hreyfingu, myndlist og tónlist. Leitað er eftir fólki sem hefur gleði og ánægju af að starfa með börnum, býr yfir metnaði og á auðvelt með traust og lipur samskipti. Góð íslenskukunnátta er skilyrði fyrir starfinu.
09.01.2017

Styrkir til meistaranema 2017

Samband íslenskra sveitarfélaga veitir nú í annað sinn allt að þremur meistaranemum styrki til að vinna lokaverkefni á sviði sveitarstjórnarmála sem tengjast stefnumörkun sambandsins 2014-2018. Til úthlutunar er að þessu sinni allt að 750.000 kr. og stefnt er að því að veita þrjá styrki. Rafrænt umsóknarform, verklagsreglur vegna úthlutunar, Stefnumörkun Sambands íslenskra sveitarfélaga 2014-2018, áhersluþættir við styrkveitingar til meistaranema 2017 og Starfsáætlun sambandsins árið 2017 er að finna á vef sambandsins, www.samband.is.
03.01.2017