CAMERARCTICA í Laugarborg

CAMERARCTICA flytur "Kvartett um endalok tímans"
Tónleikar 28. október 2007 kl. 15.00 í Laugarborg
Miðaverð kr. 2.000,-
Flytjendur: Camerarctica ; Hildigunnur Halldórsdóttir, fiðla - Ármann Helgason, klarínett - Sigurður Halldórsson, selló - Örn Magnússon, píanó
Efnisskrá: "Kvartett um endalok tímans" eftir Oliver Messiaen


Tónleikarnir eru liður í vetrardagskrá Laugarborgar.

Árið 1940 var Olivier Messiaen tekinn til fanga af Þjóðverjum þegar hann gegndi herþjónustu fyrir Frakka í seinni heimstyrjöldinni og var færður til Stalag fangabúðanna í Görlitz. Af þeim stríðsföngum sem með honum voru í fangabúðunum voru fiðluleikari, klarinettuleikari og sellóleikari en sjálfur var hann orgel-og pianóleikari. Klarinettuleikarinn og fiðluleikarinn höfðu fengið að halda hljóðfærum sínum en sellóleikaranum tókst að kaupa selló með hjálp samfanga sinna og Þjóðverjarnir útveguðu Messiaen píanogarm.
Þarna í fangabúðunum þar sem tíminn hætti næstum að vera til dróst Messiaen að andstæðunum Tíma og Eilífð. Hann samdi Kvartett fyrir endalok tímans og setti í formála kvartettsins tilvitnun úr Opinberunarbók Jóhannesar, 10. Kafla:
Og ég sá mikinn engil stíga af himni ofan, hjúpaðan skýi. Regnboginn  var yfir honum og ásjóna hans var sem sólin og fætur hans sem eldstólpar…Hægra fæti stóð hann á hafinu, en vinstra fæti á jöðinni…Og engillinn sem ég sá standa á hafinu og á jörðinni, hóf upp hægri hönd sína til himins og sór við þann, sem lifir um aldir alda…:”Enginn frestur skal lengur gefinn verða”* en þegar kemur að rödd sjöunda engilsins og hann fer að  básúna, mun fram koma leyndardómur Guðs.
(*Tíminn er á enda runninn)
Messien fórust svo orð um þetta:
Með þessa hljóðfæraskipan dróst athygli mín skiljanlega ekki að ósköpum heimsendis, heldur að hinni þöglu dýrkun og stórkostlegu friðarsýn sem honum myndi fylgja. Því þennan texta? Ef til vill vegna þess að á þessum tíma útilokunar/innilokunar var horfið aftur til þeirra grundvallarkrafta sem stjórna lífinu. Hins vegar dregur þessi texti saman allt það sem ég hef vonað, allt sem ég hef unnað og mun halda áfram að unna.
Titill verksins ber þó einnig aðra merkingu, samkvæmt Messiaen táknar hann einnig væntingar hans um endalok óhefðbundinna lengdargilda hrynjandinnar í klassískri tónlist.
Kvartett fyrir endalok Tímans var frumfluttur í fangabúðunum 15. Janúar 1941. Áheyrendur voru úr öllum stéttum þjóðfélagsins og margir höfðu aldrei hlustað á kammertónlist fyrr. Seinna sagði Messiaen: Aldrei hefur verið hlustað á mig með svo mikilli athygli og skilningi sem þá.


Tónlistarhópurinn Camerarctica hefur starfað frá árinu 1992 en um það leyti komu hljóðfæraleikararnir heim frá námi við tónlistarháskóla erlendis. Félagar hópsins hafa á þessum 15 árum einnig komið víða fram sem einleikarar, leikið í Sinfóníuhljómsveit Íslands og kennt hljóðfæraleik við tónlistarskólana á höfuðborgarsvæðinu.
Efnisskrá Camerarctica er fjölbreytt, spannar tímabilið allt frá klassík til nútímans. Hópurinn hefur frumflutt mörg tónverk m.a. eftir Hildigunni Rúnarsdóttur, John Speight, Oliver Kentish og Elínu Gunnlaugsdóttur, en væntanlegur er geisladiskur með verkum þeirrar síðastnefndu í flutningi Camerarctica og Mörtu G. Halldórsdóttur sópransöngkon
Camerarctica hefur sérstaklega vakið athygli og hlotið lofsamlega dóma fyrir flutning sinn á verkum Mozarts á árlegum kertaljósatónleikum í kirkjum á höfuðborgarsvæðinu og á strengjakvartettum Shostakovitch á tónleikum Kammermúsíkklúbbsins í Reykjavík. Camerarctica hefur staðið að og tekið þátt í tónlistarhátíðum í minningu tónskáldanna Hindemith og Fauré, og Schubert og Brahms, Einnig hefur hópurinn leikið á Myrkum músíkdögum, Listahátíð í Reykjavík, Norrænum músíkdögum og Salisbury hátíðinni í Bretlandi og gefið út geisladisk með verkum eftir W.A.Mozart.
Camerarctica var valinn Tónlistarhópur Reykjavíkurborgar árið 2005.

Örn Magnússon lauk burtfararprófi í píanóleik frá Tónlistarskólanum á Akureyri árið 1979 og stundaði framhaldsnám í Manchester, Berlín og London. Hann hefur haldið fjölda tónleika, komið fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands og leikið inn á geislaplötur bæði sem einleikari og í kammertónlist.
Örn hefur komið fram á alþjóðlegum tónlistarhátíðum í Japan, Noregi, Finnlandi, Ungverjalandi, Bretlandi og víðar.Hann hefur undanfarin ár einbeitt sér að flutningi íslenskrar pianótónlistar, meðal annars eftir tónskáldin Jón Leifs og Pál Ísólfsson. Örn hefur margoft leikið með Camerarctica.