DÍVAN & DJASSMAÐURINN

Fréttatilkynning frá Tónlistarhúsinu Laugarborg
untitled_29.jpg_minni_120
Tónleikar 2. september Laugarborg, kl. 15.00
Að tónleikum loknum býður Kvenfélagið Iðunn upp á sunnudagskaffi.
Miðaverð kr. 2.500,-

Flytjendur: Sólrún Bragadóttir, mezzosópran & Sigurður Flosason, saxofónn
Efnisskrá: Sígild íslensk sönglög í útsetningum flytjenda.


Tónleikarnir marka upphaf vetrardagskrár Laugarborgar.

Vetrardagskrá Laugarborgar hefur frá upphafi hafist með svokölluðum kaffitónleikum og verður svo einnig nú. Að tónlistarflutningnum loknum reiða kvenfélagskonur í Iðunni fram kaffiveitingar.

Sólrún Bragadóttir sópransöngkona og Sigurður Flosason djass-saxófónleikari verða með dagskrá sem samanstendur nýjum útsetningum af nokkrum af þekktustu söng- og þjóðlögum okkar Íslendinga, fyrir sópranrödd og saxófón. Söngarfur síðustu aldar rennur saman í samfelldan flutning þar sem fyrir kemur spuni af hálfu beggja flytjenda, en einnig tiltölulega hefðbundinn flutningur þar sem saxófónninn bregður sér í ólíklegt hlutverk píanósins. Leikrænum tilburðum bregður fyrir, húmorinn er skammt undan og flutningur tónlistar einskorðast ekki við sviði. Allt getur gerst þegar dívan og djassmaðurinn blanda blóði með tónlist þjóðarinnar.
Óperusöngkona og jazzsaxófónleikari eru líklega með ólíklegustu pörum á sviði listarinnar, fulltrúar tveggja heima sem sjaldan skarast.

Dúóið fytur, án frekari undirleiks, þekkt klassísk íslensk sönglög í eigin útsetningum. Höfundar laganna eru Árni Thorsteinsson, Jón Ásgeirsson, Jón Þórarinsson, Karl O. Runólfsson, Páll Íslólfsson, Sigfús Einarsson, Sigurður Þórðarson og Sigvaldi Kaldalóns. Einnig flytja þau nokkur þjóðlög, auk stemmninga sem byggja á algerlega frjálsum spuna beggja flytjenda.

Sólrún og Sigurður frumfluttu verkefnið á Listahátíð í fyrra við góðar undirtektir. Einnig hafa þau komið fram saman í Danmörku og Svíþjóð.

Sólrún Bragadóttir lauk Bachelorsprófi frá Indiana University í Bloomington 1985 og Mastersprófi frá sama skóla 1987. Að námi loknu hóf hún óperuferil sinn sem aðal lýríski sópraninn við leikhúsið í Kaiserslautern í Þýskalandi og var síðar ráðin við óperuna í Hannover. Starfsvettvangur hennar hefur einkum verið við óperuhús Evrópu og hún hefur sungið á þriðja tug aðalhlutverka, sum hver í mörgum uppfærslum. Af fyrri hjóðritunum hennar má nefna hlutverk í tveimur óperum Mozarts, sem Donna Anna í Don Giovanni og Fiordiligi í Cosi fan tutte, fyrir belgíska sjónvarpið.

Sigurður Flosason lauk einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1983 og síðan Bachelorsprófi 1986 og Mastersprófi 1988 í klassískum saxófónleik og jazzfræðum frá Indiana University í Bandaríkjunum. Hann hefur um árabil verið í hópi atkvæðamestu jazztónlistarmanna Íslands og staðið fyrir margvíslegu tónleikahaldi hér heima, en einnig leikið talsvert erlendis. Sigurður hefur sent frá sér meira en tug geisladiska sem spanna vítt svið tónlistar og þrisvar hlotið Íslensku tónlistarverðlaunin í flokki jazztónlistar.