Eyjafjarðarsveit og Freyvangsleikhúsið skrifa undir samning

Fréttir
Jóhanna Sigurbjörg Ingólfsdóttir, formaður Freyvangsleikhússins, og Finnur Yngvi Kristinsson, sveita…
Jóhanna Sigurbjörg Ingólfsdóttir, formaður Freyvangsleikhússins, og Finnur Yngvi Kristinsson, sveitarstjóri Eyjafjarðarsveitar skrifa undir samning um Freyvang.

Í gær var skrifað undir samning milli Eyjafjarðarsveitar og Freyvangsleikhússins um afnot þess síðarnefnda á húsinu til næstu tveggja ára. Vonir eru bundnar til þess að með samningnum opnist nýir möguleikar fyrir Freyvangsleikhúsið sem þá getur leigt húsið undir veislur og viðburði utan þess tíma sem hefðbundin leikhússtarfsemi er í gangi.

Samningurinn er liður í undirbúning sveitarfélagsins að fjárfestingu viðbyggingar við Hrafnagilsskóla en með honum dregur sveitarfélagið úr umsýslu í kringum eignina sem flyst yfir á hendur Freyvangsleikhússins. Leikfélagið tekur við Freyvangi þann 1.maí næstkomandi og hefur þá full umráð yfir húsinu að undanskilinni íbúð hússins sem leikhúsið fær til umsjónar þann 1.júní 2023.

Með samningnum aukast möguleikar Freyvangsleikhússins til tekjuöflunar og getur leikfélagið meðal annars leigt húsið undir ýmsa viðburði utan þess tíma sem húsið er nýtt undir leikhússtarfsemi.

Það voru þau Jóhanna Sigurbjörg Ingólfsdóttir, formaður leikfélagsins, og Finnur Yngvi Kristinsson, sveitarstjóri Eyjafjarðarsveitar,  sem skrifuðu undir samninginn með leikmynd Kardemommubæsins í bakgrunni sem verður nú sýndur í síðasta sinn næskokmandi sunnudag og er það tuttugasta og fjórða sýning Freyvangsleikhússins á verkinu á þessu leikári.