Framúrskarandi þjónusta á Ytra-Laugalandi

Ferðaþjónusta í Eyjafjarðarsveit er metnaðarfull og aðilum innan hennar hefur fjölgað síðastliðin ár.
Gistiheimilið Ytra-Laugaland, sem er í eigu Vilborgar Þórðardóttur, hefur hlotið verðskuldaða viðurkenningu innan greinarinnar. Þar má nefna viðurkenningu frá Ferðaþjónustu bænda þar sem Ytra-Laugaland var valinn einn af þremur framúrskarandi ferðaþjónustubæjum árið 2013. Einnig fékk gistiheimilið einkunnina 9,1 á vefsíðunni www.booking.com sem byggir á umsögnum gesta Vilborgar sem bókuðu í gegnum vefsíðuna. Ber sú einkunn vott um framúrskarandi þjónustu.
Vilborg hóf undirbúning reksturs gistiheimilisins þegar hún fór á eftirlaun sem hjúkrunarfræðingur árið 2007 og tók á móti fyrstu gestunum árið 2009, þá 72 ára. Hún og sambýlismaður hennar, Óttar Björnsson, taka á móti gestum af mörgum þjóðernum af einstakri natni og þrátt fyrir litla tungumálakunnáttu hefur alltaf gengið vel að tala við erlenda ferðamenn. Stöðug aukning hefur orðið á bókunum síðustu misserin. Í fyrra var nánast fullbókað frá maí fram í september og stefnir í það sama í ár. Hvort sem það eru nýstraujuðu rúmfötin, súkkulaðimolinn á koddanum, heimabakaða brauðið, kökurnar með morgunmatnum eða hlýlegar móttökur þá er greinilegt að enginn verður svikinn af gistingu á Ytra-Laugalandi.
Við óskum Vilborgu og Óttari til hamingju með árangurinn.