Handverksprýddir póstkassar

Skemmtilega skreyttur póstkassi við Reykhús.
Skemmtilega skreyttur póstkassi við Reykhús.

Kæru sveitungar.
Eins og við auglýstum í byrjun maí, langar okkur að fá íbúa sveitarinnar í lið með okkur til að mynda allsherjar stemningu með Handverkshátíð ársins og Landbúnaðarsýningunni sem haldin verður samhliða í ár. Stemningunni ætlum við að ná á þann hátt að sveitin skarti skreyttum póstkössum í sumar. Með öðrum orðum að fá ykkur íbúana til að skreyta ykkar póstkassa með einhverju handverki svo sem prjóni, hekli, saumi, útskurði eða hverju því sem ykkur dettur í hug. Póstkassarnir verða skreyttir fram yfir hátíðarhelgina, 10. - 13. ágúst.

Stefnt er að því að 7. júlí verði póstkassar sveitarinnar sem flestir komnir í sparifötin. Þann dag verður atkvæðaseðlum og kjörkössum dreift til ferðaþjónustuaðila sveitarinnar sem ætla að taka þátt og þeir kynntir í næsta Auglýsingablaði. Allir gestir staðanna geta þá greitt atkvæði og sveitungar eru hvattir til að gera sér ferð á einhvern staðanna og taka þátt í atkvæðagreiðslunni sem mun standa fram að hátíðarhelginni sjálfri. Eigendur best prýdda póstkassa Eyjafjarðarsveitar verða verðlaunaðir á kvöldvöku hátíðanna þann 11. ágúst.

Nokkrir póstkassar eru nú þegar orðnir prúðbúnir og þökkum við góðar undirtektir. Við hlökkum til að sjá fleiri útfærslur af ýmiskonar handverki, en minnum á skilyrðið eina: að starfsmenn Póstsins geti vandræðalaust komið póstinum til skila.

F.h. stjórnar Handverkshátíðar og Landbúnaðarsýningar 2012,
Ester Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri.