Héðinsfjarðartrefillinn á Handverkshátíð

Ester Stefánsdóttir framkvæmdastjóri Handverkshátíðar og Landbúnaðarsýningar við Hrafnagilsskóla fékk á dögunum afhenta gjöf frá Fríðu Gylfadóttur listakonu í Fjallabyggð, en það var hluti Héðinsfjarðartrefilsins. Forsaga trefilsins er sú að árið 2010 stóð Fríða fyrir sameiginlegu prjónaátaki heimamanna og gesta í Fjallabyggð og var tilefnið opnun Héðinsfjarðarganga um haustið. Þá höfðu Fríða og félagar prjónað 17 km langan trefil sem tákn um sameiningu og samtöðu.

Þegar Fríða sá umfjöllun um prjónaverkefni kvenfélagskvennanna í Eyjafjarðarsveit setti hún sig í samband við Ester og bauð hluta trefilsins til afnota. Ester sagði já takk og mun hluti trefilsins nýtast til skreytingar á sýningunum við Hrafnagilsskóla. „Trefillinn sjálfur og það sameiningartákn sem hann er endurspeglar þá miklu samstöðu sem ríkir í Eyjafjarðarsveit þegar kemur að undirbúningi og framkvæmd sýninganna, enda vinna þá íbúar sveitarfélagsins saman allir sem einn.“ segir Ester. Framkvæmd Handverkshátíðar undanfarin ár hefur sameinað íbúa Eyjafjarðarsveitar. Verkaskiptingin er orðin rótgróin og unnin af samviskusemi og gleði. Ungmennafélag, hjálparsveit, kvenfélög, Lionsklúbbur og hestamannafélag – félagsmenn vinna allir sem einn, ungir sem aldnir, að því að koma veglegum og skemmtilegum sýningum á laggirnar.