Hrúta- og sölusýning Sauðfjárræktarfélagsins Neista í Hörgársveit

Hrúta- og sölusýning – 9. október nk.

Hrúta- og sölusýning Sauðfjárræktarfélagsins Neista í Hörgársveit verður haldin þann 9. október nk í Skriðu kl 14-17.  Þar verður m.a. eftirfarandi á dagskrá;

Lambhrútaskoðun.  Keppt verður í flokkunum hvítir hyrndir, mislitir og kollóttir.  Lambhrútarnir verða stigaðir upp af hinum þaulreynda þukklara Eyþóri úr Akrahrepp.  Fullyrða má að þarna verður um æsispennandi keppni að ræða enda verður henni lýst beint og stigun jafnharðan birt á upplýsingaskjá svo allir geti fylgst með.

Fallegasta gimbrin.  Gimbrum félagsmanna verður gerð góð skil og munu félagsmenn mæta með fallegustu gimbrina sína til sýnis og þátttöku í fegurðarsamkeppni.  Ekki er víst að há stigun tryggi sigur heldur mun litur, hornalag, útgeislun og geðslag án efa ráða töluverðu um lokaniðurstöðu.  Gestum og gangandi verður jafnvel boðin þátttaka í vali á fallegustu gimbrinni. 

Sölusýning og uppboð.  Félagsmenn mæta með sitt úrvalsfé til sölu og sýnis.  Allt endar þetta svo með æsispennandi uppboði á því besta sem Hörgárdalurinn hefur upp á að bjóða í sauðfé.  Óhætt er að fullyrða að uppboð þetta verði á við góða flugeldasýningu og tryggi um leið mikið fjárstreymi inn í hörgdælska efnahagskerfið.

Vart þarf að taka fram að í Hörgarsveit þykir fé bæði fimt og fagurt svo ekki sé minnst á gerðina.  Því eru allir áhugamenn um sauðfé nær og fjær hvattir til þess að gera sér ferð í Skriðu og taka þátt í þessari mannlífsbætingu og taka með sér heim  áhugaverða kynbótagripi ef svo ber undir.

Sýning þessi er öllum opin án endurgjalds en veitingar verða í boði gegn vægu gjaldi.