Korn- Fréttabréf frá sveitarstjórn

Fjárhagsáætlun Eyjafjarðarsveitar fyrir árið 2017 og fyrir árin 2018 til 2020 var samþykkt á fundi sveitarstjórnar 9. desember 2016.
Niðurstöðutölur úr fjárhagsáætlun Eyjafjarðarsveitar fyrir árið 2017 í þús. kr. Tekjur kr. 959.517. Gjöld án fjármagnsliða kr. 908.462. Fjármunatekjur og gjöld kr. ( 9.512 ). Rekstrarniðurstaða kr. 41.543. Veltufé frá rekstri kr. 77.501. Fjárfestingahreyfingar kr. 49.235. Afborganir lána kr. 16.416. Hækkun á handbæru fé kr. 11.850. Ekki er gert ráð fyrir nýjum lántökum.

Fjárhagur Eyjafjarðarsveitar er traustur og skuldir sveitarfélagsins eru mjög litlar.

Stærstu viðhalds- og fjárfestingarverkefni ársins 2017 eru:
Hjóla- og göngustígur kr. 18.000.000.-
Ljóðleiðari kr. 15.000.000.-
Laugarborg kr. 10.500.000.-
Leikskólinn Krummakot kr. 6.400.000.-
Viðhald íbúða kr. 4.850.000.-

Fjárhagsáætlun 2018- 2020
Í fjárhagsáætlun áranna 2018 – 2020 er ekki gert ráð fyrir verulegum breytingum á almennum rekstrargjöldum. Gert ráð fyrir fjárfestingum og mörkuðu viðhaldi á tímabilinu fyrir kr. 270 millj. Á áætlunartímabilinu er ekki gert ráð fyrir neinum nýjum lántökum. Langtímaskuldir verða greiddar niður um kr. 50,4 millj. og eru áætlaðar í árslok 2020 kr. 95,8 millj. eða um 10% af áætluðum tekjum.

Embætti skipulags- og byggingafulltrúa Eyjafjarðar
Frágangur við stofnun embættis Skipulags-og byggingafulltrúa Eyjafjarðar er nú á lokametrum. Með því verður starfsemi núverandi embætti byggingafulltrúa lagt niður í núverandi mynd. Jósavin Gunnarsson hefur gegnt því embætti um áratuga skeið og verður. Nýr skipulags- og byggingafulltrúi, Vigfús Björnsson, byggingaverkfræðingur, kemur til starfa 1. apríl nk. Jósavin fylgir nýjum manni úr hlaði og verður í hlutastarfi fram í sumarlok. Aðsetur embættisins verður í á skrifstofu Eyjafjarðarsveitar í Skólatröð.

Aðalskipulag
Skipulagsnefnd vinnur nú að endurskoðun aðalskipulags fyrir Eyjafjarðarsveit 2018-2030. Nefndin fundar aukalega þriðja hvern mánudag, næsta mánudag á eftir reglulegum fundum sínum. Verkáætlun gerir ráð fyrir að nýtt skipulag verði samþykkt vorið 2018.

Hólasandslína 3, Tjarnavirkjun og Hólavirkjun í Fnjóskadal
Eyjafjarðarsveit hefur skilað umsögn vegna draga að tillögu að matsáætlun, þar sem megin þungi liggur á afstöðu sveitarfélagsins að Eyjafjörður verði ekki þveraður með línu, heldur verði lagður jarðstrengur.

Tjarnavirkjun ehf. vinnur að undirbúningi fyrir 1 MW virkjun að Tjörnum og hefur í því skyni leitað heimildar til að vinna breytingu á deili- og aðalskipulagi. Nái áformin fram að ganga má búast við að það flýti fyrir þrífösun rafmagns frá Hleiðargarði og innúr.

Rarik hefur óskað eftir umsögn Eyjafjarðarsveitar um áform um lagningu nýrrar 33 kV háspennustrengslagnar (jarðstrengur) frá Hólsvirkjun í Fnjóskadal, en strengurinn mun liggja um land í Eyjafjarðarsveit ef af verður. Skipulagsnefnd fjallaði um málið og gerði nokkrar ábendingar vegna málsins.


Heilsueflandi samfélag
Verkefnið Heilsueflandi samfélag í Eyjafjarðarsveit beinir þessi misserin sjónum sínum að geðrækt og andlegri lýðheilsu íbúa sveitarinnar.Með samningi um heilsueflandi samfélag skuldbindur Eyjafjarðarsveit sig til þess að hafa heilsueflingu að leiðarljósi í starfsemi og ákvörðunum sveitarfélagsins eftir því sem við verður komið. Meðal annars erum við meðvituð um þetta í vinnu við gerð aðalskipulags, mótun skólastefnu og í annarri starfsemi sveitarfélagsins.

Göngu- og hjólastígur
Verkfræðistofan Verkís hefur tekið að sér umsjón með hönnun og gerð útboðsgagna vegna göngu- og hjólatígs og standa vonir til að hægt verði að bjóða út verkið nú á vormánuðum. Þó liggur ekki fyrir hvort fjármunir fáist frá Vegagerðinni á þessu ári til verksins en vinnu við úthlutun er ekki lokið. Við bindum vonir við að þessi framkvæmd, sem fyrst og fremst lýtur að öryggi vegfarenda - bæði akandi sem og annarra – fái góðan framgang og hægt verði að ráðast í verkefnið þegar á þessu ári. Um verður að ræða samstarfsverkefni Eyjafjarðarsveitar, Akureyrarbæjar og Vegagerðarinnar. Kann Eyjafjarðarsveit Vegagerðinni þakkir fyrir aðkomu hennar að málinu og Akureyringum sérstakar þakkir fyrir þeirra hlut í þessu góða verkefni sem mun auka öryggi vegfarenda.

Sameining sveitarfélaga við Eyjafjörð
Erindi barst sveitarfélögum við Eyjafjörð frá Akureyrarbæ um að þau stæðu sameiginlega að því að kanna fýsileika sameiningar. Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar fjallaði um málið á fundi sínum 18. janúar sl. og ályktaði að hún teldi ekki tímabært að svo stöddu að hefja þá vinnu.

Handverkshátíð 2017
Næsta sumar telst okkur til að verði 25 ára afmæli handverkshátíðar. Undirbúningur er að komast í fullan gang. Samkomulag hefur tekist við Katrínu Káradóttur, annan tveggja framkvæmdastjóra frá 2016 að endurtaka leikinn og auk þess verður Dóróthea Jónsdóttir henni til aðstoðar, en hana þekkja margir af sama vettvangi frá fyrri tíð.

Krummakot – leikskóli fyrir börn frá 12 mánaða aldri
Fyrstu 12 mánaða krakkarnir eru nú komin á Krummakot. Ákvörðun um verkefnið var tekin í lok síðasta árs. Mitt í undirbúningi þess kom á daginn að nauðsynlegt reyndist að ráðast í endurbætur og fjarlægja byggingarefni á deild yngstu krakkanna vegna myglu. Var brugðist hratt við þeim aðstæðum sem upp komu í samstarfi við Vinnueftirlit og Heilbrigðiseftirlit Norðurlands. Ráðist var í endurbætur sem hófust fyrir áramót og lauk þeim í samræmi við verkáætlun á sex vikum frá því málið aðstæður uppgötvuðust. Um leið var lagður hiti í gólf á yngstu deildinni auk annarra endurbóta eftir ábendingum frá Vinnueftirliti og Heilbrigðiseftirliti. Framkvæmdir tókust vel og áætlanir stóðust upp á dag, sveitarfélagið naut við þessa framkvæmd starfskrafta ÁK smíði ehf.og eru þeim færðar þakkir fyrir skjót viðbrögð við þessar aðstæður. Geta skal sérstaklega framlags okkar manna, Einars Tryggva, Davíðs og Halla (Hallgrímur) sem lágu ekki á liði sínu.

Laugarborg
Laugarborg hefur verið að skipa sér sess sem helsta samkomuhús sveitarfélagsins og er skemmst að minnast umhverfisverðlauna sem húsinu féllu í skaut nýverið. Við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2017 var samþykkt að ráðast í viðamikla endurnýjun á eldhúsinu í Laugarborg til að mæta síaukinni notkun hússins fyrir veislur, erfidrykkjur og aðrar viðburði. Auk þess er fyrirhugað að opna dyr úr salnum út til suðurs. Með þessum framkvæmdum er stigið mikilvægt skref að því að gera húsið að aðlaðandi og skemmtilegum stað fyrir hvers kyns samkomur og minni ráðstefnur. Stefnt er að því að framkvæmdum ljúki í sumarbyrjun.

Jón Stefánsson, oddviti Eyjafjarðarsveitar og Ólafur Rúnar Ólafsson, sveitarstjóri