Loðinlumpa Grýlu

Nú hefur borist til eyrna að loðinlumpa sú er hárstrý Grýlu kallaðist mun hafa fundist fyrir einhverju síðan í grennd við Jólagarðinn í Eyjafjarðarsveit.

Af gefnu tilefni hefur því verið haldið leyndu en þegar upp komst og við nánari eftirgrennslan þá hafa þessir fundvísu íbúar ákveðið að tilefni sé til að snurfusa lumpustrýið og koma því fyrir mannasjónir í tengslum við Húllumhæ-viðburðarviku í Eyjafirði. Vika þessi mun vera frá 8.-15. ágúst og verður auglýst vel og vandlega í tengslum við okkar einu og sönnu Handverkshátíð sem verður sett föstudaginn 10. ágúst klukkan 10. Gott að muna : tíundidagurnæstamánaðarklukkantíu.

... þess ber einnig að geta að Dimmuborgarjólasveinar hafa tilkynnt komu sína á hátíðina í för sinni að Jólagarði ásamt því að Jólaísinn 2007 verður kynntur í Holtseli þann 15.ágúst. Í Eyjafjarðarsveit verða sannkölluð sveitagolfkornhandverkskjötsúpuflugmódelísjól í viðburðarvikunni :) Fylgist með, þetta er eitthvað sem enginn má missa af...

lodinlumpa
Sagan af því hvers vegna Eyfirðingar
héldu sig vera meiri jólasveina en Mývetninga

Sem alkunna er segir sagan að langt inn í fyrndinni hafi Grýla farið milli bæja og gripið upp óknyttabörn. Erfitt var að henda reiður á hvar hana bar niður og nær ómögulegt að verjast komu hennar.
Börnum í Eyjafirði stóð af henni mikill stuggur og þeir sem eldri voru töldu hana, fyrir margra hluta sakir, aldrei langt undan og litu því á hana nánast sem eina sinna ættmæðra. Þessi gamla barnafæla hafði sem sagt á sér aðra hlið og lítt skárri þeirri þekktustu að sækjast í ungviðið. Einmitt þessi “hin hlið” var orsök þess að Eyfirðingar, þeir sem slitið höfðu barnsskónum, töldu sig standa henni nær og nánast sverja sig í ætt hennar. Grýla hafði nefnilega á höfði ógnarmikið og hamslaust hárstrí, ullarkennt og torfkleprað. Úr því drógust loðpungar langir er náðu allt til jarðar, en þar áttu þeir til að verða jarðlægir. Gátu þeir þá skriðið í jörð langt frá þeim stöðum sem Grýla hélt sig. Smugu þeir undir stokka og steina en á endanum skutu þeir upp loðinlumpunni og þá oftar en ekki þar sem af þeim varð ami. Þessar loðinlumpur Grýlu voru algengar inn Eyjafjörð, komu gjarnan upp á túnum og engjum þar sem bændur voru í heyönnum nú eða þar sem grandalausar bændakonur bjástruðu innan dyra. Þar sem loðinlumpan hafði þann eiginleika að loða við hold það, er hún hitti fyrir urðu þegar fram liðu stundir Eyfirðingar og niðjar þeirra hærðari en gengur. Var aðkoma loðinlumpanna sjaldnast nálægt höfuðbeini viðkomandi heldur á þeim stöðum kroppsins öðrum er óprýði þótti að. Ekki þótti greindarlegt í Eyjafirði að fleygja sér flötum á tún eða lyfta höndum í ógáti nú eða standa þar gleiður sem uppkomu lumpunnar var að vænta. Ein er til sögn af bónda sem heldur þótti smár til verka með eina kú á fóðrum. Hafði hann jafnan lokið bústörfum árla dags meðan meira dugandi bændur gengu til verka. Segir sagan að þá hafi hann lagt lófa á torfusnepil úti fyrir og beðið í dugleysi daglangt uns loðinlumpu rak í lófa hans og hann upp frá því talinn bænda “loðnastur um lófana” í Eyjafirði.
En eitt vissu Eyfirðingar ekki að svo gátu loðlumpur Grýlu legið, að milli sýslna bærust og fyrir löngu alþekkt að ættbogi þeirrar gömlu liggi einkum í sýslum austur en bændur eyfirska má enn í dag sjá á handahlaupum um jarðnæði sín.