Myrkir - Camilla Söderberg

3. - 10. Febrúar 2008
www.listir.is/myrkir

Þriðjudagur 5.febrúar 2008 – Laugarborg Eyjafirði kl.20.30
Blokkflautuleikarinn og tónskáldið Camilla Söderberg er íslendingum að góðu kunn, enda komið mikið við sögu í íslensku tónlistarlífi í gegnum árin. Undanfarin ár hefur Camilla helgað sig tónsmíðum og hefur nú sett saman sérstaka dagskrá. Það eru Norðlendingar sem fá fyrsta tækifæri til að hlýða á tónlist Camillu en hún verður með sína fyrstu portrait tónleika í tónlistarhúsinu Laugarborg í Eyjafirði þriðjudagskvöldið 5.febrúar kl.20.30.

Camilla Söderberg: Sylanop (8’) 1973
Kjartan Ólafsson: Gullveig (fyrir kontrabassablokkflautu og rafhljóð) (7’) 1999
Camilla Söderberg: Balance (9’) 2004
Camilla Söderberg: Evolution (9’30’’) 2005
Camilla Söderberg: In der Nacht (12’) 2006
Camilla Söderberg: Born to Loneliness (f. tenórblokkfl. og rafhljóð) (10’) 2007
Camilla Söderberg: Possession (12’) 2008 (frumflutningur)

Camilla um verkin:

Sylanop
Samið 1973 þegar ég var við nám í “ Institut für Elektroakustik “ í Vínarborg. Ég var þá búin að taka einleikarapróf á blokkflautu og stúdentspróf og var svolítið leitandi að nýjum leiðum. Það var því mjög spennandi fyrir mig að taka upp allskonar umhverfishljóð og vinna úr þeim eins og heyrist í Sylanop. Verkið var frumflutt opinberlega í Planetarium í Vínarborg.

Gullveig
Titill verksins vísar til persónu úr Völuspá, Gullveigar, sem Æsir vógu þrisvar sinnum og var tilefni styrjaldar milli Ása og Vana. Tónskáldið segir um verkið: “Verkið byggir á draumi sem mig dreymdi meðan á samningu verksins stóð. Í draumnum birtist kona í skrautklæðum sem gerð voru úr skíra gulli og skrýdd bláum og rauðum eðalsteinum. Upplifun þessa draums hafði sterk áhrif á tilurð verksins”.
Rafhljóðin, sem eru óbreytanleg, mynda grunn verksins. Ofan á þann grunn leikur blokkflautuleikarinn frjálsan spuna. Rafhljóðin verða sá hvati sem getur af sér blokkflaututónlistina; hún er svar eða athugasemdir, jafnvel viðbót, sem er breytileg frá einum flutningi til annars. Tónverk sem er alltaf eins en þó aldrei hið sama.

Balance
“- - þróun þess að missa og endurheimta jafnvægi:
Í innganginum, sem tekur um 2 mínútur, jafnvægismissir.
Í öðrum hluta ( 7 mín. ) leit, óstöðugleiki, óróleiki og að lokum sálarró við endurheimt jafnvægis með tilkomu nýrrar vonar.“

Evolution
Ég hef búið til, eða ofið “hljóðteppi” þar sem mismunandi hljóð koma og fara á víxl og draga athygli okkar að smáatriðum. Þróun sem líkja má við okkar eigin þroskaferil.

In der Nacht
Þetta ljóð austurríska skáldsins Klaus Flemmich var kveikjan að þessu verki. Í einfaldleika sínum, en um leið dýpt er falin stígandi sem ég vildi undirstrika með raftónlistinni.
Textinn er lesinn af leikkonunni Gundu König.

Wenn einer geht in der Nacht,
so ganz allein geht in der Nacht
über endlose Strassen,
sollst Du ihn lassen.

Wenn einer singt in der Nacht,
so ohne Grund singt in der Nacht
und ist einsam geblieben,
sollst Du ihn lieben.

Wenn einer stirbt in der Nacht,
so wie ein Hund stirbt in der Nacht
verlassen, getreten,
solltest Du beten.


Í friði lát þann, sem að næturlagi gengur,
aleinn um endalausa vegu að næturlagi gengur.

Elska skalt þann, sem að næturlagi syngur,
ástæðulaust og einmana að næturlagi syngur.
Bið fyrir þeim sem að næturlagi deyr
eins og hundur, yfirgefinn og fótum troðinn deyr.


Born to Loneliness
Íhugun – hægar útandanir, ein einfaldasta leiðin til að tjá tilfinningar okkar.
Hljóðmyndun – ósk um að tjá sig. Textabrot án merkinga með og án flautu. Óróleiki.
Samtal – tilraun til að verða skýrari nær hámarki í byrjun samtals, sambærilegum klisjum er kastað fram og tilbaka, eftirhermur, aðlögun. Mismunandi en þó svipað. Ófrjálst. Löngunin til að segja meira og baráttan við að brjóta þetta mynstur, þennan eilífa hring, nær hámarki í fæðingu sjálfstæðis, frelsis og um leið einmanaleika.
Verkið var pantað af Sveriges Rikskonserter og hlaut 2. verðlaun í alþjóðatónlistarkeppni
International Rostrum of Electroacoustic Music sem fram fór í Lissabon í desember 2007.

Possession
Verkið fjallar um löngunina til að eiga, þörfina að eignast meir og meir og hættuna á að verða þræll efnishyggjunnar.