Óheimil efnistaka

Óheimil efnistaka og samþykkt sveitarstjórnar um aðgerðir gegn henni.
Verktakar hafa sumir hverjir vikið sér undan þeirri skyldu að sækja um leyfi til efnistöku úr Eyjafjarðará og úr ósasvæðinu vestan Eyjafjarðarbrautar eystri.
Með bréfi dagsettu 20. mars s. l. var þeim verktökum og landeigendum sem í hlut áttu bent á að sækja þyrfti um framkvæmdaleyfi og brugðust tveir verktakanna vel við og stöðvuðu framkvæmdir  og sóttu um framkvæmdaleyfi, sem þeir hafa nú fengið. Sá þriðji taldi sér ekki skylt að sækja um framkvæmdaleyfi en hann hefur nú ákveðið að hætta efnistökunni og fjarlægja það efni sem ýtt hafði verið upp norður undir Leiruvegi.
Einn verktaki hefur hafið heimildarlausa efnistöku úr Eyjafjarðará fyrir landi Vagla, en leyfi er í gildi vegna efnistöku fyrir landi Teigs og fyrir landi Eyjafjarðarsveitar milli Grísarár og Hrafnagilsskóla. Þessi leyfi renna út 15. maí n. k.

Ályktun sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar frá 3. apríl 2007.
“Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar ályktar að stöðva beri þegar í stað alla efnistöku úr Eyjafjarðará og óshólmasvæði árinnar vestan Eyjafjarðarbrautar eystri hafi ekki verið gefin út formleg framkvæmdaleyfi hennar vegna. Ályktun sinni til stuðnings vísar sveitarstjórn til 2. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sem er svohljóðandi:

“Öll efnistaka á landi og af og úr hafsbotni innan netalaga er háð framkvæmdaleyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar í samræmi við ákvæði laga nr. 44/1999, um náttúruvernd. Framkvæmdaleyfi vegna efnistöku skal gefið út til tilskilins tíma þar sem gerð er grein fyrir stærð efnistökusvæðis, vinnsludýpi, magni og gerð efnis sem heimilt er að nýta samkvæmt leyfinu, vinnslutíma og frágangi á efnistökusvæði.”.

Þá vísar sveitarstjórn einnig til 1. mgr. 33. gr. laga nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, en þar segir:

“Sérhver framkvæmd í eða við veiðivatn, allt að 100 metrum frá bakka, sem áhrif getur haft á fiskigengd þess, afkomu fiskistofna, aðstæður til veiði eða lífríki vatnsins að öðru leyti, er háð leyfi Landbúnaðarstofnunar. Um byggingarleyfis- og framkvæmdaleyfisskildar framkvæmdir  fer einnig samkvæmt skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, og reglum settum samkvæmt þeim.”   

Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að tilkynna hlutaðeigandi aðilum um stöðvun framkvæmda og leita aðstoðar lögreglu til að stöðva framkvæmdir ef tilmælum um stöðvun þeirra verður  ekki sinnt.”