Ráðstefna um Jón lærða Jónsson í Möðrufelli

Ráðstefnan verður haldin í félagsheimilinu Laugarborg, Hrafnagili laugardaginn 8. september nk. kl. 11-17.
Ekkert ráðstefnugjald er né þörf að skrá sig en þeir sem eru ákveðnir að koma geta látið Guðmund vita á gudmundur.gudmundsson@kirkjan.is eða í síma 897 3302. Veitingar verða í boði á staðnum á vægu verði.

Ráðstefna um efni sem skiptir máli úr fortíðinni fyrir framtíðina. Kastljósinu verður beint að Jóni Jónssyni (1759-1846), presti í Grundarþingum, fróðum manni með vakandi huga fyrir náttúru og samfélagi, en einnig menningu og trúarbrögðum á hans tímum. Í Grundarkirkju var bókasafn á kirkjuloftinu frá Jóni síðan 1839 sem nú hefur verið skráð og verður opnuð sýning á því í lok ráðstefnunnar á bókasafninu á Hrafnagili. Þá verður einnig greint frá handritum sem Jón yngri eða lærði, sem urðu viðurnefni hans, skrifaði. Þar á meðal eru veðurdagbækur sem faðir hans Jón Jónsson eldri byrjaði á og Jón yngri hélt áfram með og spanna nær 100 ár. Náttúruleg guðfræði var stunduð á þessum árum þar sem sköpunarverkið var skoðað til að skilja Guð og veröldina (það var fyrir daga Darwins). Spurt verður: Geta vísindi liðins tíma lagt eitthvað til málanna? Jón þýddi bók Shums nokkurs sem ber heitið Sá guðlega þenkjandi náttúrskoðari, sem fær sérstaka athygli á ráðstefnunni. Jón lærði hefur orðið að bókmenntapersónu og sögur af honum hafa vakið athygli. Þær eru nokkuð mótsagnakenndar svo spurt er um hans heittrúuðu harðneskju, en einnig gamansemi, staðfestu og þjónustulund. Leitast er við að varpa ljósi á staðbundna sögu og menningu í Eyjafirði og setja í samhengi þegar lútherskur réttrúnaður mætti upplýsingastefnunni og skynsemishyggju. Þá var Jón í sambandi við menn erlendis þar sem kirkjur mótmælenda voru að hefja umtalsvert trúboð sem gerði þær að alþjóðlegri hreyfingu. Verða kynntar til sögunnar heimildir um það og sagt frá þátttöku Jóns varðandi það hugðarefni sitt.

Dagskrá
Staður: Laugarborg á Hrafnagili í Eyjafjarðarsveit
Tími: Laugardaginn 8. september kl. 11-17.
11:00–11:15 Setning
Ávarp í upphafi – kynning á dagskrá, efnistökum og fyrirlesurum
Stjórnandi ráðstefnunnar: Hjalti Hugason, prófesssor í kirkjusögu
11:15–12:15 Maðurinn Jón lærði, sögusvið og einstaklingur
Heittrúuð harðneskja. Af séra Jóni, tíðaranda og menningarástandi
Viðar Hreinsson, bókmenntafræðingur
12:15–13:00 Hádegisverður/Hádegishlé – Boðið upp á veitingar á vægu verði
13:00–15:00 Jón lærði, fræðarinn og náttúruvísindin
Sá Guðlega þenkjandi náttúruskoðari
Bjarni E. Guðleifsson, prófessor emeritus í náttúrufræði, lesa valda kafla úr ritinu.
Náttúrskoðarinn og vísindasagan
Þorsteinn Vilhjálmsson, prófessor emeritus í eðlisfræði og vísindasögu
Handrit á handritadeild og Veðurdagbækurnar úr Eyjafirði
Sjöfn Kristjánsdóttir, handritafræðingur
15:00– 15:20 Kaffi
15:20–16:35 Jón lærði, embættismaðurinn, guðfræðingurinn og hugsjónamaðurinn
Maður á mörkum — Jón lærði, hugarfar, guðfræði og trú
Hjalti Hugason, prófessor í kirkjusögu
Presturinn og trúboðsáhugamaðurinn, „útbreiðsla Guðs ríkis“ meðal framandi þjóða,
Guðmundur Guðmundsson, héraðsprestur
Umræður verða eftir hvern fyrirlestur og samantekt í lokin
16:45 Opnun sýningar á „Safni Jóns lærða“ á bókasafninu á Hrafnagili
Kynning á bókasafninu og sýningunni
Margrét Aradóttir, bókavörður
Ráðstefnan er styrkt af Norðurorku, Eyjafjarðarsveit og Eyjafjarðar- og
Þingeyjarprófastsdæmi.
Undirbúningsnefnd: Bjarni E. Guðleifsson, Guðmundur Guðmundsson, Hjalti Hugason.

Bæklingur

Kynningarbréf