Samheldin og jákvæð við örkum af stað

Fréttir
Finnur Yngvi Kristinsson, sveitarstjóri
Finnur Yngvi Kristinsson, sveitarstjóri

Þakklæti er efst í mínum huga þegar ég fer yfir atburði líðandi viku. Það er ótrúlegt hverju samfélagið getur komið í verk með samheldni og jákvæðni að vopni.

Starfsmenn menntastofnananna þriggja í sveitarfélaginu, leikskólans, grunnskólans og tónlistaskólans, hafa brugðist við með opum hug og faglegum vinnubrögðum þessa vikuna. Stjórnendur og starfsmenn hafa saman þróað nýjar nálganir á starfsemina og undirbúið sig fyrir enn frekari breytingar ef til þess mun koma. Aðrir starfsmenn og stjórnendur hafa ekki síður unnið afar gott verk í endurskipulagningu starfsemi sinnar og aðlögun að breyttum aðstæðum.

Foreldrar hafa lagst á eitt með skólunum og sýnt framúrskarandi skilning í þessu fordæmalausa ástandi sem við nú vinnum úr. Krakkarnir okkar standa sem klettar gegnum það og aðlaga sig breyttum aðstæðum þó þau finnist það eflaust einkennilegt á stundum. Þá hefur sveitarstjórn sent út tilkynningu þess efnis að hlaupið verði undir bagga með ferðaþjónustunni og áhættuhópum í samfélaginu.

Ég er stoltur af því að vera hluti af samfélagi sem bregst svona við, samfélagi þar sem íbúar leggjast saman á eitt þegar á móti blæs. Við höfum arkað af stað upp brekkuna, eflaust verður hún brattari og einstaka grjót geta torveldað förina, það verður þó ekkert óyfirstíganlegt. Saman munum við draga vagninn upp hæðina og saman skulum við njóta þess að renna okkur niður hana hinumegin

Kærar þakkir til ykkar allra og sérstakar þakkir til starfsmanna sveitarfélagsins sem unnið hafa þrekvirki í aðlögun starfseminnar.

Baráttukveðjur
Finnur Yngvi Kristinsson, sveitarstjóri