Stærsta módelflugkoma landsins

Langstærsta módelflugkoma landsins verður haldin á Melgerðismelum laugardaginn 11. ágúst næstkomandi.  Þetta er atburður sem ekki má láta framhjá sér fara, hvort sem um er að ræða flugáhugamenn eða ekki.  Flogið stanslaust frá klukkan 9 um morguninn til 6 um kvöldið. Lesið meira til að sjá dagskrá og fleira.fk014_400

Flugmódelfélag Akureyrar hefur haldið módelflugkomu á athafnasvæðum sínum aðra helgina í ágúst frá árinu 1982.  Á þessa flugkomu mæta velflestir flugmódelmenn á landinu, hafa með sér módelin sín til að sýna þau og fljúga þeim og skoða öll hin, ræða málin og ráða ráðum sínum.  Einnig hafa erlendir módelmenn litið inn og heiðrað okkur með nærveru sinni.
Flugkoma sem þessi er mikið sjónarspil og módelunum er raðað þannig upp að áhorfendur og gestir fá að skoða þau og dást að þeim án þess þó að eiga á hættu að skemma neitt.  Á sama tíma sjá gestir óhindrað  öll módel sem eru á flugi.
Öryggiskröfur strangari en gengur og gerist á flugkomunni okkar.  Sendagæsla byrjar klukkan níu um morguninn og eru allir módelmenn skyldir til að afhenda senda sína og fá ekki að nota þá nema sjá til þess að engin hætta sé á að þeir trufli aðra senda.  Gert er ráð fyrir áhorfendum í skipulagi svæðisins og gengið úr skugga um að áhorfendur og fljúgandi módel séu aldrei á sama stað á sama tíma.
Á flugkomuna koma allar gerðir flugmódela, frá þeim allra stærstu, með vænghaf yfir þrjá til fjóra metra, niður í þær smæstu, sem varla standa út úr hnefa.  Hægt er að sjá listflug á módelum sem eru hin mestu tækniundur, eftirlíkingar af frægum flugvélum fljúga um, svifflugur eru togaðar upp af vélflugum og  þyrlur sýna listir sem varla er hægt að ímynda sér.  Módelin eru knúin áfram með margs konar mótorum: rafmagnsmótorum af nýjustu og tæknilegustu gerð, af hefðbundnum litlum módelmótorum sem ganga fyrir sérstöku eldsneyti og stórum bensínmótorum sem ganga fyrir venjulegu bílabensíni.
Módelflugkoma Flugmódelfélags Akureyrar er atburður sem ekki má láta framhjá sér fara, hvort sem um er að ræða flugáhugamenn eða ekki.  Hvergi á landinu eru samankomin jafn mörg módel af jafn mörgum gerðum og flogið er stanslaust frá klukkan 9 um morguninn til sex um daginn.

  Sjá nánar á heimasíðu Flugmódelfélags Akureyrar