Þjóðlendukröfur

Fjármálaráðherra f. h. íslenska ríkisins hefur nú afhent óbyggðanefnd kröfur sínar um þjóðlendur á vestanverðu Norðurlandi (syðri hluti) „sbr. 10. gr. laga um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, nr. 58/1998“ eins og segir í tilkynningu frá óbyggðanefnd dags. 26. mars 2008. Um er að ræða hluta af kröfusvæði 7 sem hefur verið skipti í norður- og suðurhluta. Svæðið sem nú er tekið til meðferðar „afmarkast í megindráttum af Fnjóská í austri, að norðan af Hörgá og Öxnadal og Öxnadalsheiði í Eyjafirði, og Norðurárdal og Norðurá í Skagafirði, en vestan þess af norðurmörkum svokallaðrar Eyvindarstaðaheiði og Blöndu,“ sbr. kröfulýsinguna.
Sjá yfirlitsmynd

Kröfugerðinni er lýst af hálfu lögmanns fjármálaráðherra með eftirfarandi hætti hvað varðar Eyjafjarðarsýslu:
„Í Eyjafjarðarsýslu er m. a. gerð krafa til svokallaðs Almennings sunnan Gönguskarðs, Tungnafjalla, afréttarsvæða Fram-Eyfirðinga fram af Sölvadal, til Núpufells- og Þormóðsstaðadals og Æsustaðatungna, hálendisins sunnan Klaufár í botni Eyjafjarðar, afréttarsvæðanna Sneisar, Strjúgstungu og Hvassafellsdals, til hálendisins milli Eyjafjarðardals og Öxnadals, þ. m. t. við Glerárdalshnjúk, Súlur, Vindheimajökul, Tröllafjalla, Bægisárjökul, til afréttar í Þverárdal, Almennings í Öxnadal, Seldalsfjalls og hluta Nýjabæjarafréttar allt suður til öræfa að mörkum kröfulýsingarsvæða á miðhálendinu.“

Kröfugerðinni er nánar lýst í sérstökum texta þar sem almennt virðist miðað við 800 m hæðarlínur enn ekki vatnaskil eða miðlínur háfjalla. Þau mörk standast þó ekki í öllum tilvikum sbr. upptalninguna hér að framan þar sem lýst er kröfu til skilgreindra afréttarsvæða frá háfjöllum niður í dali. Af uppdrætti sem sýnir afmörkun kröfusvæðisins virðist heldur ekki fara á milli mála að Eyjafjarðardalur allur  frá Hólsgerð fellur undir kröfugerðina sem og allur miðhálendishluti Eyjafjarðarsveitar suður að Hofsjökli.
Kröfur þessar voru birtar í Lögbirtingablaðinu 28. mars s. l. Þær verða ekki frekar kynntar einstökum landeigendum af hálfu óbyggðanefndar en kröfulýsingin er fyrirliggjandi í heild sinni á skrifstofu Eyjafjarðarsveitar þar sem hagsmunaaðilar hafa aðgang að henni. Þeir sem telja til eignarréttinda á  því svæði sem fellur innan kröfusvæðis ríkisins þurfa að lýsa kröfum sínum skriflega fyrir óbyggðanefnd í síðasta lagi 30. júní 2008.

Þau sveitarfélög í Eyjafjarðarsýslu, sem kröfugerðin nær til, hafa ákveðið að boða til kynningarfunda um málefnið og fá Ólaf Björnsson, lögfræðing, til að koma á þann fund og fjalla um kröfugerðina og skýra hvernig henni mætti mæta. Ólafur er jafnframt tilbúinn til að taka að sér að annast varnir fyrir þá sem krafan beinist að en sá háttur hefur víða verið hafður á að landeigendur hafa sammælst um að nýta sér sama lögfræðinginn. Ólafur hefur mikla reynslu á þessu sviði en hann hefur rekið fjölda mála fyrir hönd landeigenda á þessum vettvangi.
Fyrirhugað er að tveir kynningarfundir verði haldnir fimmtudaginn 17. apríl n. k., annar á dagtíma en hinn að kvöldinu. Nánari tímasetning og fundarstaður verður auglýstur síðar.

Sveitarstjóri.