Tilkynning frá sveitarstjóra um starfsemi skóla, íþróttamiðstöðvar og frístundar

Fréttir
Hrafnagilsskóli
Hrafnagilsskóli

Kæru íbúar. Um helgina hefur verið unnið að því að endurskipuleggja starf skólanna svo það megi halda áfram með sem minnstri röskun fyrir börn okkar og samfélag. Til þess þarf að ráðast í ákveðnar skipulagsbreytingar á starfinu sem við vonum að muni eingöngu standa í skamman tíma.

Á morgun verða Hrafnagilsskóli og leikskólinn Krummakot starfræktir fyrri hluta dags. Krummakot mun loka klukkan 13:00 og Hrafnagilsskóli klukkan 12:45 auk þess sem frístund mun falla niður. Vegna þessara aðstæðna munu starfsmenn skólanna nýta seinnipart dags til skipulagningar. 

Til að fylgja reglum um smitvarnir þarf að aðlaga opnunartíma skólanna sem verða nú eftirfarandi: 
Hrafnagilsskóli: 8:00-12:45
Frístund: (eingöngu starfrækt fyrir 1. og 2. bekk) 12:45-16:00
Krummakot: 7:45-16:15

Ekki verður unnt að taka við nemendum utan þessa opnunartíma. 

Íþróttamiðstöð Eyjafjarðarsveitar verður lokuð á mánudag og þriðjudag þar sem sérstök áhersla verður lögð á þrif og endurskipulagningu starfseminnar.

Starfsemi Samherja mun liggja niðri uns búið verður að aðlaga starfsemi félagsins að þeim forsendum sem settar hafa verið fram af heilbrigðisráðherra og sama á við um starfsemi félagsmiðstöðvarinnar.

Strax í upphafi síðustu viku var brugðið til mikilla ráðstafana í mötuneyti skólanna þar sem krakkar skammta sér ekki lengur sjálfir. Þá verður sá hluti starfseminnar einnig aðlagaður enn frekar að breyttum aðstæðum frá og með morgundeginum.

Foreldrar og forráðamenn hafa allir fengið sendar upplýsingar um starfsemi skólanna næstu daga og munu enn frekari upplýsingar um skipulag skólastarfs í Hrafnagilsskóla verða sendar foreldrum á morgun.

Undirbúningur og aðgerðir síðastliðinnar viku, skólabyggingar og skipulag skólanna ásamt nemendafjölda gerði það að verkum að hægt var að bregðast hratt við þeim aðstæðum sem upp komu og halda starfseminni að mestu gangandi frá mánudagsmorgni.

Tónlistaskóli Eyjafjarðar mun starfa áfram samkvæmt skipulagi varðandi einstaklingstíma en æfingar skólahljómsveitar munu líklega falla niður eða verða með breyttu sniði.

Sveitarstjórn mun funda næstkomandi þriðjudag á aukafundi og mun þá ræða sérstaklega þær aðstæður sem upp eru komnar og áhrif þess á samfélagið.

Hér má sjá bréf frá skólastjórnendum Hrafnafgilsskóla til foreldra.

Hér má sjá bréf frá leikskólastjóra Krummakots til foreldra.

 

Með ósk um samheldni og skilning á því sérstaka ástandi sem nú blasir við okkur,

Finnur Yngvi Kristinsson, sveitarstjóri