Um eyðingu á skógarkerfli

Fjárlaganefnd Alþingis samþykkti við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2008 að styrkja tilraunaverkefni um eyðingu kerfils í Eyjafjarðarsveit.

Skógarkerfill hefur á undanförnum árum orðið áberandi á nokkrum stöðum á landinu. Tegundin barst til landsins sem skrautjurt um 1920 og hefur væntanlega borist úr görðum landsmanna og tekur sér gjarnan bólfestu í vegköntum og berst einnig í ræktað land.

Í Eyjafjarðarsveit hefur tegundin breiðst hratt út og er nú orðin mörgum íbúum afar mikill þyrnir í augum. Umhverfisnefnd sveitarfélagsins hefur því ákveðið að ráðast í aðgerðir gegn útbreiðslu kerfilsins. Alþingi samþykkti við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2008 að styrkja tilraunaverkefni um eyðingu kerfils í sveitarfélaginu.
Umhverfisnefnd hefur fengið landbúnaðarháskólann á Hvanneyri í lið með sér við skipulagningu verksins. Ætlunin er að nota komandi sumar til að prófa ýmsar aðferðir til að ráða niðurlögum plöntunnar, og nota síðan reynslu sumarsins til áframhaldandi aðgerða.

Kerfilinn byrjaði að breiða úr sér fyrir nokkrum árum yst í sveitarfélaginu og hefur nú lagt undir sig stór svæði þar, bæði tún og gróið land. Síðustu ár hefur tegundin síðan verið að skjóta upp kollinum á fleiri stöðum vítt og breitt um sveitarfélagið.
Þetta er í sjálfu sér hin fallegasta planta, en er afar ágeng og þykir íbúum nóg um þar sem kerfillinn er orðin nánast einráður og veður yfir allt.

Svona verkefni krefst þess að íbúar sem kæra sig ekki um að fá kerfilinn inn á sitt land, taki þátt með því að halda vöku sinni og ráða niðurlögum kerfilsins þar sem hann er að skjóta upp kollinum. Reikna má með að þetta verkefni taki nokkur ár.