Til umhugsunar fyrir páskafríið

Fréttir
Finnur Yngvi Kristinsson, sveitarstjóri Eyjafjarðarsveitar
Finnur Yngvi Kristinsson, sveitarstjóri Eyjafjarðarsveitar

Nú þegar páskafrí skólanna ganga í garð er mikilvægt að hafa nokkur atriði í huga varðandi afþreyingu, samkomur og fjarlægðir.

Við þurfum að berjast með þolinmæðina að vopni í hið minnsta einn mánuði í viðbót og leggja okkar að mörkum til að draga úr smithættu Covid-19 milli heimila og hópa. Við þurfum að lágmarka heimsóknir og hvetja krakkana okkar til að leika sér sjálfir en ekki í snertingu eða miklu návígi við þá sem þau almennt ekki umgangast. Um þetta gildir tveggja metra reglan og er vert að benda á að sparkvellir og leiksvæði eru talin hættusvæði varðandi smitleiðir og foreldrar hvattir til að leggjast á eitt með að draga úr því að krakkar hittist í hópum á þeim stöðum.

Við þurfum líka að bera virðingu fyrir heilbrigðiskerfinu okkar sem nú er undir miklu álagi vegna faraldursins. Við þurfum að velja okkur afþreyingu á næstu misserum sem ekki er til þess fallin að auka álag á heilbrigðiskerfið og viðbragðsaðila heldur draga úr því. Það er því heppilegra að stunda afþreyingu á þessum tímum sem er með litla hættu á slysum, létt ganga er þannig heppileg og léttar æfingar heimafyrir mjög góðar.

Það er um að gera að njóta þess að lesa góða bók um páskana og taka þátt í lestrarátakinu „Tími til að lesa“, draga fram spilin eða skoða það úrval afþreyingarefnis sem í boði er á streymiveitum. Þá geta tölvuleikir einnig hjálpað til við að rjúfa samfélagslega einangrun á þessum tímum þó að sjálfsögðu þurfi að stilla skjátímanum í hóf.

Við skulum rækta fjölskylduna, heimilið og sálina og nálgast frekar með tækninni þá sem ekki á heimilinu búa. Við skulum forðast ferðalög, sumarhús og að stuðla að miklum gestagangi. Við skulum öll reyna að hjálpast að á næstu vikum og draga úr áhættunni.

Stöndum saman, stöndum í fjarlægð.


Páskakveðja,
Finnur Yngvi Kristinsson, sveitarstjóri