
Uppsalahnjúkur (940 m) er tindur á Staðarbyggðafjalli, sem blasir við Akureyri til suðausturs. ETil að komast að upphafsreit göngunnar er best að aka að Öngulsstöðum og þaðan er jeppaslóði sem liggur að sumarhúsinu Seli. Þó er mælt með að safna saman í bíla ef stórir hópar eru að fara. Við Sel er skógrækt og bílastæði, ásamt skilti með upplýsingum um gönguleiðina.
Fyrst er farið um hlið og gengið í gegnum skógarreitinn, allt þar til komið er að öðru hliði fyrir ofan skóginn. Þaðan er haldið til hægri og síðan til suðurs – upp hálsinn. Gengið er eftir stikaðri leið að vörðunni á Haus, sem er fyrsti áfanginn þegar gengið er á Staðarbyggðarfjall. Gangan er nokkuð á fótinn en greiðfær og stutt, einungis 3km fram og til baka með 300 metra hækkun. Frá Haus er frábært útsýni, og er þetta skemmtileg ganga í sjálfu sér, sérstaklega fyrir þá sem vilja styttri gönguleið.
Frá Haus er gengið áfram inn eftir fjallinu og suður með hlíðinni austan megin við hrygginn. Þar tekur við brattur kafli upp á topp þar sem stórkostlegt útsýni út Eyjafjörðinn blasir við. Gangan getur verið krefjandi en afar skemmtileg í góðum félagsskap. Fólk þarf að gefa sér nægan tíma til uppgöngu og vera vel búið.
Athugið að snjór getur verið í skálinni þegar gengið er austan megin við hrygginn. Það getur reynst varasamt að fara þar yfir án ísbrodda. Í ágúst er þó yfirleitt allur snjór farinn úr fjallinu.
Vegalengd: 10 km
Hækkun: 900 m
Erfiðleikastig: 3-4
Lýsing á gönguleið: kindagötur, moldarvegur, mýri og melur. Stikað alla leið.
Uppgöngustaður: Rétt vestan við sumarhúsið Sel.
Nánari upplýsingar má finna á hlekknum hér yfir á vef Ferðamálastofu

Takk fyrir!
Ábending þín er móttekin