Handverkshátíð í Eyjafjarðarsveit frestað til 2021

Handverkshátíð

Handverkshátíðin í Eyjafjarðarsveit hefur verið haldin á hverju ári síðastliðin 28 ár. Hátíðina sækja árlega 10-15 þúsund gestir og eru sýnendur yfir 100 talsins. Handverkshátíðin er ein helsta fjáröflun ýmissa félaga í Eyjafjarðarsveit og hafa félagsmenn lagt á sig mikla og óeigingjarna sjálfboðavinnu í þágu samfélagsins í gegnum árin til að halda frábæra Handverkshátíð.

Í ljósi aðstæðna í samfélaginu hefur stjórn Handverkshátíðarinnar í samvinnu við aðildarfélög ákveðið að fresta hátíðinni fram til ársins 2021. Ákvörðunin var tekin að vel ígrunduðu máli í samráði við helstu samstarfsaðila. Ákvörðunin var erfið en nauðsynleg í ljósi aðstæðna vegna Covid-19 faraldursins og útgefinna leiðbeininga um samkomur.

Á hverju ári koma margir að uppsetningu Handverkshátíðarinnar og lítur stjórn svo á að það sé hennar ábyrgð og skylda að hlýða settum reglum og vernda starfsmenn sína, gesti og þátttakendur og koma í veg fyrir enn frekari smit í samfélaginu með því að fresta Handverkshátíðinni til næsta árs.

Allir sjálfboðaliðar og fyrirtæki sem koma að undirbúningi Handverkshátíðarinnar hafa verið látnir vita af ákvörðuninni. Við óskum þeim alls hins besta á þessum óvissutímum og vonumst til að eiga áframhaldandi gott samstarf að ári. Við þökkum öllum þeim sem höfðu sótt um þáttöku í ár kærlega fyrir og hvetjum alla eindregið að senda aftur inn umsókn fyrir 2021.

Stjórn Handverkshátíðar hefur bókað að hefja strax undirbúning fyrir næsta ár og mun Handverkshátíðin koma aftur inn með krafti og gleði að ári.

Við hlökkum til Handverkshátíðar í Eyjafjarðarsveit 5.-8. ágúst 2021. 

 

Baráttukveðjur,

Stjórn Handverkshátíðar í Eyjafjarðarsveit.