Spunasystur heiðursgestir Handverkshátíðarinnar 2018

Spunasystur
Spunasystur

Okkur er mikið gleðiefni að segja frá því að Spunasystur munu vera heiðursgestir hátíðarinnar í ár. Þeir sem ekki hafa séð til Spunasystra ættu að sperra eyrun því það er mikið sjónarspil að fylgjast með þeim stöllum. Þær hafa komið með ferskan blæ inn í heim handverksins á undanförnum árum og eins og nafnið á hópnum þeirra gefur að kynna þá kemur spuni við sögu.

Spunasystur eru hópur um 16 kvenna í Rangárvallasýslu sem hittast reglulega til að spinna og vinna úr íslenskri ull. Spunasystur hafa sótt ýmis konar námskeið í vinnslu og meðferð ullarinnar og miðlað öðrum í hópnum af þekkingu sinni.

Markmið spunasystra eru:

1.Breiða út þekkingu á þeim möguleikum sem íslenska ullin býður upp á hvað varðar ýmis konar handverk.

2.Sýna fram á að hægt sé að skapa meira verðmæti úr ullinni sem fellur til í sveitinni og nýta hana á fjölbreyttari hátt en áður hefur verið gert.

3.Varðveita gamalt handverk og ekki síður að þróa nútímalegri aðferðir.

4.Sýning og aðgangur að mismunandi gerðum rokka, kembivéla, þæfingarvéla, vefstóla og annarra tækja og tóla til tóvinnu.

5.Sýning á vinnubrögðum og á ýmis konar handverki sem Spunasystur hafa unnið úr íslensku ullinni.

6.Að koma í veg fyrir að þessi gerð handverks falli í gleymsku.

Á Handverkshátíðinni Eyjarfjarðarsveit 2018 munu Spunasystur setja upp sýningu á handunnum ullarvörum. Áhersla verður lögð á lifandi sýningu með kynningu á spuna á snældu og rokk. Að auki verður sýndur spjaldvefnaðarrammi í notkun, ásamt vefstól, ullarkömbum, kembivél og vattarsaumsnálum. Auk sýningargripa verða m.a. handspunnið band, sjöl, taumar og þæfðar ullarvörur til sölu.

Spunasystur munu einnig blása til Hópspuna, nánar auglýst síðar.

Við hlökkum mikið til að fá þennan flotta hóp til okkar á Handverkshátíðina í sumar.

Spunasystur_1

Spunasystur_2

Spunasystur_3

Spunasystur_4

Spunasystur_5

Spunasystur_6