Auglýsingablaðið

787. TBL 18. júní 2015 kl. 08:26 - 08:26 Eldri-fundur

100 ára kosningaafmæli kvenna 19. júní
Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar samþykkti á fundi þann 27. maí að gefa starfsmönnum sveitarfélagsins frí eftir hádegi þann 19. júní til að taka þátt í skipulögðum hátíðarhöldum þegar þess verður minnst að 100 ár eru liðin frá því að konur fengu kosningarétt.
Sveitarstjóri


SafnvörðurinnNú er illt í efni, safnvörðurinn okkar er horfinn!!
Ekki viljum við taka svo djúpt í árinni og segja að mannrán hafi verið framið en safnverðinum okkar var rænt aðfararnótt mánudags.
Ef einhver hefur upplýsingar um hvar hann er og/eða hverjir tóku hann, endilega látið okkur eða lögregluna á Akureyri vita.
Safnvörðurinn var gefinn af félaginu Geðlist til Smámunasafns Sverris Hermannssonar vorið 2012 og er orðinn táknmynd safnsins.
Verðlaun eru í boði fyrir upplýsingar sem leiða til þess að hann skili sér!
Starfsfólk Smámunasafnsins

 

50 ára afmæli Hólavatns
Í tilefni af því að liðin eru 50 ár frá vígslu sumarbúða KFUM og KFUK við Hólavatn verður boðið til afmælishátíðar á Hólavatni laugardaginn 20. júní kl. 14. Dagskráin hefst með því að flutt verða ávörp og sungnir Hólavatnssöngvar og síðan verður gestum boðið upp á afmælisköku og kaffi. Ýmislegt verður í boði fyrir alla fjölskylduna, leiktæki, bátar, andlitsmálun, vatnaboltar og margt fleira. Allir hjartanlega velkomnir.
Sama dag verður jafnframt hjólað frá Akureyri og fram á Hólavatn en það er tæplega 40 km leið og þar af 9 km á möl. Lagt verður af stað frá Skautahöllinni kl. 10. Á miðri leið verður boðið upp á létta hressingu en svo má fólk líka sameinast um að hjóla vegalengdina og skiptast á eins oft og það vill. Nánari upplýsingar og skráning í tölvupósti á netfangið johann@kfum.is.


Halló halló..
Næsta gönguferð í félagi aldraðra verður 23. júní kl. 20. Keyrt verður fram í Villingadal og gengið þar undir leiðsögn Ingu. Verum dugleg að mæta.
Kveðja, göngunefndin.


Kæru íbúar Hrafnagilshverfis og sveitungar
Það er spurning um hitting vegna uppbyggingar á hjólabrettasvæði og við skulum hittast á þriðjudaginn 23. júní kl. 17:00 á plani Dalbjargar til skrafs og ráðagerða.
Ef óskað er nánari upplýsinga endilega sendið línu á egomaniac@simnet.is


Fjölskyldan á fjallið - Jónsmessuganga
Nú er komið að fara í fyrstu gönguna á vegum Umf. Samherja.
Gengið verður um Kristnesskóg undir leiðsögn Benjamíns Davíðssonar miðvikudaginn 24. júní og hefst gangan kl. 19:30 hjá Kristnesspítala.
Áætlað er að gangan taki um klukkustund.
Kveðja, stjórn Umf. Samherja.


Kæru kvenfélagskonur í Kvenfélaginu Öldunni - Voröld
Mæting í vorferðalagið okkar er kl. 9.00 við Leirunesti sunnudaginn 21. júní. Við munum halda austur á bóginn og áætluð heimkoma er um kl. 22.00. Sjá nánar um ferðatilhögun á fésbókarsíðunni okkar.
Hlökkum til að sjá ykkur.
Kveðjur, nefndin.


Lausaganga búfjár og fjallsgirðingar
Á þessum árstíma berast oft athugasemdir til skrifstofu Eyjafjarðarsveitar um lausagöngu búfjár og þá sérstaklega vegna þess að fjallsgirðingar eru ekki gripheldar.
Í búfjársamþykkt Eyjafjarðarsveitar segir að vörsluskylda sé á öllu búfé neðan fjallsgirðingar allt árið um kring. Eigandi búfjár ber fulla ábyrgð á því að skepnum sé haldið innan gripheldra girðinga og gangi ekki lausar. Jafnframt er kveðið á um að umráðamenn lands annars vegar og eigendur eða notendur sameiginlegs beitilands hins vegar skuli sjá til þess að fjallsgirðingar eða samgirðingar séu gripheldar.
Þegar búfé fer í heimalönd eftir upprekstur vegna þess að girðingar eru ekki gripheldar þá er það búfjáreigandinn sem ber ábyrgð á sínu fé. Umráðamaður eða landeigandi sem ber að sjá til þess að girðingar séu gripheldar en vanrækir það ber enga ábyrgð á búfé annarra þó hann geti verið valdur að því að féð fari á vegstæði eða á beit í skógræktarreitum svo dæmi séu tekin. Í báðum tilvikunum væri auðvelt að meta skaða sem hlytist af hugsanlegu umferðarslysi eða dauðum trjám. En það er eigandi búfjárins sem er skaðabótaskyldur en ekki sá sem átti að halda girðingunni gripheldri. Því eru allir umráðamenn fjallsgirðinga hvattir til að rækja skyldur sínar og sjá til þess að girðingar séu gripheldar og koma þannig í veg fyrir að búfjáreigendur lendi í tjóni vegna vanrækslu annarra.
Sveitarstjóri

Getum við bætt efni síðunnar?