Auglýsingablaðið

491. TBL 25. september 2009 kl. 09:50 - 09:50 Eldri-fundur

Sala á háhraðanettengingum hafin
Fjarskiptasjóður samdi fyrr á þessu ári við Símann hf um uppbyggingu á háhraðanettengingum til að tryggja öllum landsmönnum aðgang tenginga óháð búsetu. Uppbyggingu er nú lokið í Eyjafjarðarsveit og skv. tilkynningu fjarskiptasjóðs, átti salan að hefjast 22. sept. s. l. Símanum ber sem verktaka fjarskiptasjóðs að bjóða íbúum þjónustuna og munu þau heimili sem panta tengingu innan fjögurra vikna frá upphafi sölu ekki greiða tengigjald. Að þeim tíma liðnum er Símanum heimilt að innheimta allt að 25.000 kr gjald fyrir hverja tengingu. Símanum hf. ber að bjóða íbúum þjónustu en þess er vænst að aðrir söluaðilar netþjónustu bjóði íbúum einnig þjónustu enda stendur það öllum söluaðilum til boða. Tilkynningu fjarskiptasjóðs má sjá á heimasíðu sveitarfélagsins www.eyjafjardarsveit.is. Fréttir um samninginn má sjá á heimasíðu samgönguráðuneytisins
http://www.samgonguraduneyti.is/malaflokkar/fjarskogpost/frettir/nr/1924
http://www.samgonguraduneyti.is/malaflokkar/fjarskogpost/frettir/nr/2652
Skrifstofa Eyjafjarðarsveitar



Foreldrafélag Hrafnagilsskóla: Aðalfundur félagsins fyrir skólaárið 2009-2010 verður haldinn þriðjudagskvöldið 29. september næstkomandi kl. 20.30 í Hrafnagilsskóla. Að loknum hefðbundnum aðalfundarstörfum mun Alice Harpa Björgvinsdóttir sálfræðingur flytja fyrirlesturinn: Gaman saman – mikilvægi jákvæðs hugarfars.
Við minnum á að foreldrar/forráðamenn allra barna í Hrafnagilsskóla eru sjálfkrafa félagar í Foreldrafélaginu og eiga því fullt erindi á þennan fund!! í boða verða léttar veitingar.
Vonumst til að sjá sem flesta...
Stjórn Foreldrafélags Hrafnagilsskóla.



Frá Laugalandsprestakalli.
Sunnudaginn 27. september: Messa í Kaupangskirkju kl 13:30.
Kv. Hannes



Sunnudagaskólinn: Um leið og við þökkum frábæra mætingu á fyrstu samveru vetrarins, langar okkur að minna á næstu samveru sem verður næstkomandi sunnudag (27. sept) milli klukkan 11 og 12  í Hjartanu í Hrafnagilsskóla!
Allir velkomnir....
Brynhildur, Katrín, Hrund og Hannes



Orðsending frá SAGA-PLAST: Til að við hjá getum haldið okkur við að sækja baggaplastið bændum að kostnaðarlausu verður frágangur á plastinu að vera vandaður til minnka þann tíma sem fer í lestun hjá hverjum og einum. Langflestir eru að gera þetta mjög vel en alltaf eru einhverjir sem þurfa að bæta frágang. Einnig væri það æskilegt að þeir sem eru með lítið af plasti verði þjónustaðir sjaldnar t.d. annan hvern mánuð eða tvisvar á ári sem dæmi.
Sú nýbreytni verður komið á núna að hægt verður að taka netin og böndin með í baggaplastsöfnuninni en þau verða að vera í sérumbúðum sem þola það að vera með plastinu t.d. stórsekkjum undan áburði.
Fyrsta baggaplastssöfnun vetrarins verður 5 október, eftir það fyrsta mánudag hvers mánaðar.
Sagaplast, Akureyri, Símar: 461 2838 – 894 4238



Helgi og hljóðfæraleikararnir
 halda tónleika í Freyvangi 26/9 kl 21:30. Verð 1500 kall í peningum. Hljómsveitin mun verða á lágværari nótunum og gera tilraunir með nokkrar valsaútgáfur á eldri lögum og hljómborðs útsetningar á öðrum. Bobbi grípur banjó og kassagítar og meir að segja trimbillinn fær að spila á hljóðfæri. Allir velkomnir.



Dansnámskeið fyrir byrjendur !
Kæru sveitungar, ég verð með námskeið fyrir byrjendur á fimmtudagskvöldum í október og nóvember. Kenndir verða samkvæmisdansar, gömlu dansarnir og tjútt. Kennslan fer fram í hjartanu í Hrafnagilsskóla og svo færast tímarnir yfir í Laugarborg þegar gólfið þar verður tilbúið, en einhverjar viðgerðir standa þar yfir núna. þetta eru 8 skipti og tímarnir eru frá 19.30-20.50. Innritun fer fram í síma 891-6276
Danskveðjur  Elín Halldórsdóttir.



Saga Möðruvalla fram
Agnar Hallgrímsson Cand. Mag. hefur skráð sögu Möðruvalla í Eyjafjarðarsveit og gefið út í a4 broti. Ritið er til sölu á skrifstofu Eyjafjarðarsveitar á kr. 1.000.



Sölusýning á Melgerðismelarétt
Sölusýning verður haldin í framhaldi af Melgerðismelarétt 3. október n.k.. ótamin tryppi verða sýnd í Melaskjóli og tamin hross á hringvellinum við stóðhestahúsið.
Skráning fer fram hjá ævari í tölvupóstfang fellshlid@nett.is eða síma 865 1370. Skrá skal nafn og fæðingarnúmer á hrossinu og verðhugmynd. Skráningargjald er kr 1000.- Leggist inn á reikningsnúmer 0302-26-7009 kt.700997-2439. Setjið nafn á hesti sem skýringu. Skráningu líkur miðvikudaginn 30. september.
Stjórn hrossaræktarfélagsins Náttfara



Hrossasmölun og stóðréttir
Hrossum verður smalað í Eyjafjarðarsveit 2. – 3. október. Hrossaeigendur hafa fengið gangnaseðla senda heim og seðlarnir eru jafnframt aðgengilegir á heimasíðu Eyjafjarðarsveitar http://www.eyjafjardarsveit.is  
Réttað verður á þverárrétt laugardaginn 3. október kl 10:00
Réttað verður á Melgerðismelarétt laugardaginn 3. október kl 13:00. þar verða seldar alls kyns ljúffengar veitingar.



Stóðréttardansleikur  
- verður haldinn í Funaborg 3. október. Húsið opnar kl 22:00. Miðaverð kr 1500.-. Hljómsveitin í sjöunda himni leikur fyrir dansi fram á morgunn.
Hestamannafélagið Funi



374. fundur sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar verður haldinn að Syðra Laugalandi, þriðjudaginn 29. september 2009 og hefst hann kl. 16:00. Dagskrá fundarins má sjá á upplýsingatöflu á skrifstofu sveitarinnar sem og á heimasíðu sveitarinnar www.eyjafjardarsveit.is.
Sveitarstjóri.
Getum við bætt efni síðunnar?