Landbúnaðar- og atvinnumálanefnd

38. fundur 18. október 2021 kl. 10:00 - 13:15 fundarstofa 2, Skólatröð 9
Nefndarmenn
  • Hákon Bjarki Harðarson
  • Sigríður Bjarnadóttir
  • Þórir Níelsson
  • Susanne Lintermann
Starfsmenn
  • Finnur Yngvi Kristinsson
Fundargerð ritaði: Sigríður Bjarnadóttir Ritari

 

Dagskrá

1. Matarstígur Helga magra - Styrkbeiðni - 2110009
Sigríður Bjarnadóttir sat ekki fund undir þessum lið og ritaði sveitarstjóri fundargðer þessa liðar í hennar fjarveru.
Landbúnaðar og atvinnumálanefnd samþykkir að styrkja Matarstíg Helga magra um 200.000kr til markaðsmála.

2. Drög að reglugerð um sjálfbæra landnýtingu - 2110005
Landbúnaðar- og atvinnumálanefnd Eyjafjarðarsveitar hafði til umsagnar á fundi sínum 18. október 2021 drög að reglugerð um sjálfbæra landnýtingu, mál nr. 184/2021. Landbúnaðar- og atvinnumálanefnd leggur til við sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar að eftirfarandi umsögn verði send í samráðsgátt stjórnvalda:

Eyjafjarðarsveit telur margt óskýrt í drögunum reglugerðar um sjálfbæra landnýtingu, mál nr. 184/2021 sem þarf að skýra betur og lýsir verulegum áhyggjum af áhrifum þeirra óbreyttum á landnýtingu og þar með landbúnaðarstarfsemi í sveitarfélaginu. Í sveitarfélaginu er umfang landbúnaðar mikið og mun óbreytt reglugerð hafa mikil takmarkandi áhrif á þá starfsemi.

Reglugerðin ber með sér að einsleitur hópur hafi unnið að framsetningu hennar og ekki hafi verið haft nægilegt samráð við hagaðila. Meðal annars var ekkert samráð haft við Bændasamtök Íslands fyrr en fyrstu drög voru tilbúin og fengu samtökin þau til umsagnar fyrst þá en Bændasamtökin eru helstu hagsmunasamtök bænda á Íslandi. Ekki er óeðlilegt að rammi sé settur um landnýtingu en það er mjög mikilvægt að víðtækt samráð sé haft við alla hagsmunaaðila í svo umfangsmiklu máli.

Landgræðslan gerir reglugerðina, setur viðmiðin og ákvarðar út frá viðmiðunum hvort viðkomandi land sé nýtingarhæft eða ekki. Ljóst er með þessu að um einhliða sjónarhorn og ákvarðanatökur verður að ræða og hefur sveitarfélagið verulegar áhyggjur af því að landbúnaður eigi undir högg að sækja ef sá háttur verður á.

Benda má á að viðmið sem talað er um sé alltaf „besta viðmið“ en sjálfbærni gengur hins vegar út á að ganga ekki á auðlind og að hún sé þannig í framför frá því sem hún er hverju sinni. Fyrir vikið er ekki réttlætanlegt að miða við „besta viðmið“ og verulega flókið að ætla viðmiði að vera huglægt.

Talað er um að skilgreiningar beitilands miðist við beitarlandsþekju GróLindar. Sá grunnur verður að vera nákvæmur og réttur til að byggja á sem sanngjörnustu mati. Auk þess þarf að orða og skilgreina miklu betur sjálfa skilgreiningarflokka beitarlandsins og mat visteininga svo allir aðilar átti sig á hvers konar viðmið um ræðir til að taka af allan vafa.

Í 4.grein viðauka II er talað um leiðbeinandi aðgerðir í akuryrkju til að stuðla að sjálfbærri nýtingu lands. Textinn er umfangsmikill en í framsetningunni flækjast saman ýmis leiðbeinandi tilmæli eða beinar skyldur og oft óljóst að greina á milli. Þarna þarf að gera augljósan greinarmun milli svo allir skilji við hvað er átt hverju sinni. Við lestur kaflans kemur í ljós að ýmis viðmið þar eiga ekki við hérlendis, ræktunar- eða veðurfarslega, og þar með er margt illframkvæmanlegt, s.s. vetrarþekja/ræktun á tímabundinni uppskeru.

Stór hluti akuryrkjulands í sveitarfélaginu liggur meðfram bökkum Eyjafjarðarár og fjarlægðarmörk tengt dreifingu áburðar í metrum talið getur takmarkað verulega nýtingu þess lands. Nær væri að horfa til nýtingar tækninnar við dreifingu áburðarefna þar sem það á við og meta mismunandi aðstæður á hverjum stað og takmarka þá vegna ákveðinna forsenda, svo sem vegna neysluvatns.

Í drögunum kemur fram að sveitarfélög komi að eftirliti með beitilandi en ekki skilgreint hvers konar og hver beri kostnaðinn af slíku. Ljóst er að um gríðarleg umfangsmikið og kostnaðarsamt verkefni er að ræða en hvergi minnst á hver beri þann kostnað.

3. Búfjársamþykkt Eyjafjarðarsveitar - 2110036
Landbúnaðar- og atvinnumálanefnd Eyjafjarðarsveitar leggur til við sveitarstjórn að búfjársamþykkt Eyjafjarðarsveitar sé tekin til endurskoðunar.

 

Getum við bætt efni síðunnar?