Auglýsingablaðið

1223. TBL 29. desember 2023

Auglýsingablað 1223. tbl. 15. árg. föstudaginn 29. desember 2023.

 


Eyjafjarðarsveit óskar eftir að ráða skrifstofu- og fjármálastjóra

Leitað er að metnaðarfullum einstaklingi með mikla samskiptafærni og frumkvæði sem tileinkað hefur sér skipulögð og vönduð vinnubrögð. Viðkomandi þarf að hafa ríkan vilja til að taka þátt í að efla innra og ytra starf og þjónustu sveitarfélagsins.
Skrifstofu- og fjármálastjóri tekur virkan þátt í stjórnun og stefnumótun sveitarfélagsins og leiðir margþætt verkefni er varðar stjórnsýslu og fjármál á tímum framfara og þróunar í fjölskylduvænu og samheldnu samfélagi Eyjafjarðarsveitar. Skrifstofu- og fjármálastjóri er staðgengill sveitarstjóra.

Helstu verkefni og ábyrgð
Ábyrgð og stjórnun á daglegri starfsemi skrifstofu þar með talið mannahaldi, þróun verklags og þjónustu.
Fjárhagsáætlanagerð og uppgjör fyrir sveitarfélagið og stofnanir þess. Yfirsýn og eftirlit með útgjöldum og tekjum sveitarfélagsins.
Umsjón með stefnumótandi verkefnum í tengslum við stjórnsýslu og fjármál og eftirfylgni með þeim.
Leiðbeinir um stjórnsýsluleg málefni og samræmir góða stjórnsýsluhætti í allri starfsemi sveitarfélagsins.
Ber ábyrgð á framkvæmd rekstrar-, fjárhags-, launa- og starfsáætlana í samvinnu við sveitarstjóra og aðra stjórnendur og starfsmenn.
Boðun og viðvera á sveitarstjórnarfundum, umsýsla og ritun fundargerða sveitarstjórnar og eftirfylgni með ýmsum málum sveitarstjórnar. Seta á nefndarfundum eftir þörfum. 
Samskipti við deildir og íbúa sveitarfélagsins, samskipti við ýmsa opinbera aðila.
Staðgengill sveitarstjóra.

Menntunar- og hæfniskröfur
Menntun sem nýtist í starfi.
Háskólamenntun sem nýtist í starfi er kostur.
Þekking og farsæl reynsla af stjórn fjármála og reksturs, þ.m.t. áætlanagerð.
Farsæl reynsla af stjórnun.
Þekking og reynsla á opinberri stjórnsýslu.
Þekking og reynsla af málefnum sveitarfélaga er kostur.
Leiðtogahæfni, frumkvæði og framúrskarandi samskiptahæfileikar.
Samvinnuþýði og jákvæðni í samskiptum við samstarfsmenn og aðra þá er starfinu tengjast.
Jákvæð áhrif á starfsumhverfi.
Hæfni til að leiða og hrinda í framkvæmd verkefnum í teymisvinnu.
Góðir skipulagshæfileikar, sveigjanleiki og víðsýni.
Góð íslensku- og enskukunnátta og góð hæfni til að tjá sig í ræðu og riti.
Laun samkvæmt gildandi kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og viðkomandi stéttarfélags.

Umsókn um starfið skal skila inn með tölvupósti á sveitarstjori@esveit.is með titlinum "Starfsumsókn skrifstofu- og fjármálastjóri" eigi síðar en 14. janúar 2024.
Nánari upplýsingar um starfið veitir Finnur Yngvi Kristinsson, sveitarstjóri, á tölvupósti sveitarstjori@esveit.is eða í síma 463-0600.
Umsókn skal fylgja ferilskrá, listi meðmælenda og ítarlegt kynningarbréf á íslensku þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og rökstuðningur um hæfni viðkomandi til að sinna starfi skrifstofu- og fjármálastjóra Eyjafjarðarsveitar.
Öllum umsóknum verður svarað að ráðningu lokinni.



Leikskólinn Krummakot – Atvinnuauglýsingar

Leikskólinn Krummakot auglýsir eftir að ráða leikskólakennara eða starfsfólk með aðra háskólamenntun til starfa í tvær 100% stöður á deild með yngri börnum.
Umsóknarfrestur er til 2. jan. 2024. Nánari upplýsingar um starfið og skilyrði er að finna á heimasíðu Eyjafjarðarsveitar. Æskilegt er að afleysingin geti byrjað sem fyrst eða eftir samkomulagi. Nánari upplýsingar um starfið er að finna á heimasíðu Eyjafjarðarsveitar. Frekari upplýsingar veitir Erna Káradóttir, leikskólastjóri í síma 464-8120, netfang erna@krummi.is



Flugeldasala Hjálparsveitarinnar Dalbjargar í Hrafnagilsskóla

Að venju mun Hjálparsveitin Dalbjörg vera með flugeldasölu í Hrafnagilsskóla.
Opnunartímar verða sem hér segir:
• 28. desember kl. 16:00-22:00
• 29.-30. desember kl. 10:00-22:00
• 31. desember kl. 9:00-16:00
• 5. janúar kl. 19:00-21:00 (Dalborg)

Flugeldasalan er okkar stærsta fjáröflun og við hvetjum sem flesta að styrkja björgunarsveitina í okkar heimabyggð.
Við tökum einnig við frjálsum framlögum frá þeim sem ekki vilja styrkja í formi flugelda, bæði er hægt að finna upplýsingar á heimasíðunni okkar, dalbjorg.is eða mæta á staðinn og renna korti í gegnum posann, taka spjallið og fá sér kaffisopa.

Við minnum á að gæta fyllsta öryggis við meðferð flugelda.
Við hlökkum til að taka á móti sveitungum okkar og öðrum velunnurum!
Kveðja, Hjálparsveitin Dalbjörg.

 


Jólatrésskemmtun 30. desember kl. 13:30 í Funaborg
Hin árlega jólatrésskemmtun kvenfélagsins Hjálparinnar verður haldin í Funaborg á Melgerðismelum. Dönsum í kringum jólatré og fáum glaða gesti með góðgæti í poka, svo er kökuhlaðborð.
Aðgangur ókeypis en frjáls framlög.
Hlökkum til að sjá sem flest börn sveitarinnar.
Kvenfélagið Hjálpin.

 


Bókasafn Eyjafjarðarsveitar

Bókasafnið opnar aftur eftir hátíðarnar miðvikudaginn 3. janúar. Þá er opið eins og venjulega frá kl. 14:00-17:00.
Venjulegir opnunartímar:
Þriðjudagar kl. 14:00-17:00
Miðvikudagar kl. 14:00-17:00
Fimmtudagar kl. 14:00-18:00
Föstudagar kl. 14:00-16:00

Þakka liðin ár og sjáumst hress á nýju ári.
Bókavörður.

 


Fyrsta útsaumskvöldið á árinu 2024 verður í betri stofunni á Laugalandi mánudaginn 8. janúar frá kl. 18:00-21:00.
Verið velkomin og takið með ykkur hannyrðirnar.
Handraðinn.

 


Kæru sveitungar
Um leið og við óskum ykkur öllum gleðilegrar hátíðar og farsældar á árinu 2024, þökkum við fyrir samstarfið á árinu sem er að líða.
Með von um áframhaldandi gott samstarf á nýju ári, ekki síst við nemendur og starfsfólk Hrafnagilsskóla.
Jólakveðja frá bræðrunum í B.Hreiðarsson.

 


Kæru sveitungar
Eins og áður hefur komið fram er þetta síðasta útprentaða auglýsingablaðið sem dreift er um sveitina, þar sem Pósturinn hættir með magnpóst um áramótin.
Áfram verður blaðið samt sett upp á þriðjudögum og birt á heimasíðu Eyjafjarðarsveitar. Um sinn verða nokkur eintök prentuð út og sett í anddyri Skólatraðar 9 og Íþróttamiðstöðvar.
Íbúum stendur áfram til boða að senda inn sína viðburði í viðburðadagatal á heimasíðu Eyjafjarðarsveitar. Valið er „Senda inn viðburð“ á eftirfarandi slóð https://www.esveit.is/is/mannlif/vidburdir

Getum við bætt efni síðunnar?