Viðburðir

Senda inn viðburð
4. des

Karíus og Baktus

Leikritið Karíus og Baktus þarf vart að kynna fyrir Íslendingum enda hefur þessi saga um “kallana” tvo sem búa í holunum í tönnunum fylgt börnum þjóðarinnar frá 1965. Laugardaginn 3.12 kl. 13:00 og 15:30 Sunnudaginn 4.12 kl. 13:00 og 15:30 Miðasala á tix.is og í síma 857-5598 Fyrsta útgáfa sögunnar kom út árið 1941 í safni smásagna og var þá töluvert styttri. Eftir sögunni var gert útvarpsleikrit árið 1946 og þá bætti höfundurinn, Thorbjørn Egner, við tónlist í samstarfi við tónskáldið Christian Hartmann, en þeir áttu seinna eftir að vinna aftur saman að tónlist við annað þekkt verk Egners, Dýrin í Hálsaskógi. Útgáfan sem við þekkjum kom svo út á bók 1949, myndskreitt af höfundinum sjálfum. Eftir þeirri sögu var gerð leikgerð sem tekin var upp sem brúðumynd og leikstýrt af höfundi. Myndin var frumsýnd árið 1955. Fyrsta þáttinn úr þerri mynd má finna á Youtube, reyndar með enskri talsetningu (https://www.youtube.com/watch?v=VOJo73IGpfE).
4. des

Opnar dyr í Eyjafjarðarsveit

Ferðamálafélag Eyjafjarðarsveitar stendur fyrir Opnar dyr í Eyjafjarðarsveit kl. 13:00-17:00 sunnudaginn 4. desember 2022. Hér á kortinu má smá þátttakendur og hvað er að finna á hverjum stað.
4. des

Kvenfélagið Iðunn 90 ára – vöfflukaffi í Laugarborg sunnudaginn 4. desember

Við fögnum 90 ára afmæli Kvenfélagsins Iðunnar í Laugarborg, með þátttöku í viðburði Ferðamálafélags Eyjafjarðarsveitar: Opnar dyr í Eyjafjarðarsveit, á sunnudaginn kemur þann 4. desember kl. 13:00-17:00. Það verður kaffihúsastemning, vöfflur á 1.000 kr., ókeypis kaffi/te/djús/heitt súkkulaði, piparkökumálun fyrir alla sem vilja og vörur okkar til sýnis og sölu, auk síðustu eintakanna af dagbókinni Tíminn minn 2023. Nýjar konur eru sérstaklega velkomnar og í boði verður stutt kynning á félaginu. Hlökkum til að sjá ykkur í Laugarborg og höfum það notalegt saman. Iðunnarkonur.
4. des

Jólastemning á Smámunasafninu 4. desember

Opinn dagur í sveitinni. Það verður frítt inn á Smámunasafnið, ilmandi vöfflur og kakó, jólalögin munu óma, fallegt handverk í Smámunabúðinni sem er tilvalið í jólapakkann, dagatölin fyrir 2023 frá Blúndum og blómum, bókin Drífandi daladísir, saga kvenfélagsins Hjálparinnar í 100 ár, og margt fleira. Saurbæjarkirkja verður opin. Komum og njótum aðventunnar á einstöku safni. Verið hjartanlega velkomin. Stúlkurnar á Smámunasafninu.
4. des

Aðventukvöld í Grundarkirkju sunnudagskvöldið 4. desember kl. 20:00

Verið velkomin á aðventukvöld Grundarkirkju sem haldið verður næsta sunnudagskvöld kl. 20:00. Kirkjukórinn okkar verður stjarna kvöldsins og þau munu leggja sig fram við að koma okkur í hátíðarskap undir stjórn Þorvaldar Arnar Davíðssonar organista. Tónlistarmaðurinn Svavar Knútur verður þeim til halds og trausts og ræðumaðurinn ekki af verri endanum og mörgum kunnur hér í sveit, sr. Hjálmar Jónsson, sem bjó um tíma á Jódísarstöðum og ætlar að rifja upp gamlar sögur héðan úr sveitinni. Meðhjálpari er Hjörtur Haraldsson og prestur Jóhanna Gísladóttir. Fermingarbörnin lesa svo bænir í lok samverunnar sem þau hafa sjálf samið. Við hlökkum til að sjá ykkur sem flest!
5. des

Drífandi daladísir

Út er komin saga kvenfélagsins Hjálparinnar fyrstu 100 árin, frábær jólagjöf fyrir alla, sérstaklega afkomendur þessara kjarnakvenna. Fæst hjá Auði í Öldu (audur@melgerdi.is) og Lillu í Gullbrekku (gullbrekka@simnet.is) á litlar 5.000 kr.
6. des

Aðalfundarboð Veiðifélags Eyjafjarðarár

Stjórn Veiðifélags Eyjafjarðarár starfar í samræmi við lög nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði og á grundvelli samþykkta félagsins. Í 9 gr. samþykkta félagsins er kveðið á um hvaða mál skal taka fyrir á aðalfundi: Skýrsla stjórnar fyrir reikningsárið 1/10 2021–30/9 2022. Reikningar félagsins fyrir reikningsárið 1/10 2021–30/9 2022. Rekstraáætlun fyrir næsta rekstrarár. Kosning stjórnar og skoðunarmanna. Pollurinn veiðistjórnun og ólögleg bátaveiði Önnur mál. Í samræmi við hlutverk okkar sem stjórnar Veiðifélags Eyjafjarðarár, samanber ofanritað, þá boðum við til aðalfundar í Veiðifélagi Eyjafjarðarár á Funaborg Melgerðismelum Eyjafjarðarsveit 6. desember 2022 klukkan 20:00.
8. des

Stofnfundur nýrrar Grundarsóknar

Fimmtudaginn 8. des. kl. 20:30 í Félagsborg. Kosning nýrrar stjórnar. Hvetjum öll áhugasöm um kirkjurnar okkar og starfið í þeim til að mæta. Sóknarnefndir.
11. des

Dagbókin Tíminn minn 2023

Kvenfélagið Iðunn er með dagbókina Tíminn minn 2023 til sölu á 4.000 kr. Allur ágóði rennur í hjálparsjóð Iðunnar. Dagbókin er fallega myndskreytt eftir íslensku listakonuna Björgu Þórhallsdóttur og er full af jákvæðni og góðum ráðum. Tilvalin í afmælis- og/eða jólagjöf handa ömmum, mömmum, dætrum, frænkum og vinkonum. Nánari upplýsingar og pantanir hjá Hrönn í síma 866-2796 eða á idunnhab@gmail.com
11. des

Sunnudaginn 11. desember hefði Rósa á Höskuldsstöðum orðið 93 ára hefði hún lifað.

Sunnudaginn 11. desember hefði Rósa á Höskuldsstöðum orðið 93 ára hefði hún lifað. Hún kvaddi okkur 31. júlí 2020 og af þekktum ástæðum var engin erfidrykkja. Rósa hefði nú viljað bjóða sveitungum sínum, ættingjum og vinum til veislu. Það vitum við öll. Þess vegna ætlum við að heiðra minningu hennar sunnudaginn 11. desember kl. 17:00 í Laugarborg. Þar verða kaffiveitingar, harmonikkuleikur, dans og ljúf samvera. Kær kveðja, fjölskyldan frá Höskuldsstöðum.