Viðburðir

Senda inn viðburð
10. des

Jólasjoppan í Kristnesi

Beate og Helgi í Kristnesi eru aftur og enn með jólabúðina sína opna núna í desember. Við erum með söluskúrinn okkar heim á hlaði með allskonar heimaræktuð jólatré og greni þar fyrir utan. Inni í skúrnum má finna heimagerðan varning úr smiðjunni svo sem smáhnífa og skeiðar. Þá eru heimagerðar sápur af nokkrum gerðum og kóngakerti, svo dæmi séu tekin. Auk þess ýmiskonar fjölbreyttar föndraðar vörur, plötur og spólur og guð veit hvað. Loks má nefna að ef póstþónustan verður í stuði þá eru nokkrar væntingar til þess að nýjar vörur frá Helga og Hljóðfæraleikurunum komist í sölu fyrir jól, en barmmerki frá hljómsveitinni eru þegar komin og þykja mjög eiguleg. Opið er helgina 9.-10. desember og svo frá laugardeginum 16. desember til og með 23. desember frá kl. 13:00-17:00. Allir velkomnir.
12. des

Yoga Nidra á aðventu

Á aðventunni býður Litla yogastofan tvo tíma í Yoga Nidra í Hjartanu í Hrafnagilsskóla: þriðjudaginn 12. des. og mánudaginn 18. des. kl. 17:30-18:30. Hvor tími kostar 2500 kr og skráning með því að senda tölvupóst á ingileif@bjarkir.net. Verið öll velkomin. Ingileif Ástvaldsdóttir jógakennari
17. des

Bangsímon og Gríslingur í jólasveinaleit

Minnum á miðasölu á Bangsímon og Grísling í jólasveinaleit í Freyvangi Nánari upplýsingar á freyvangur.is, feisbúkksíðu Freyvangsleikhússins og á Tix.is. "Bangsímon og Gríslingur eru komnir alla leið til Íslands til þess að finna Íslensku jólasveinana, þeir höfðu frétt af því að á Íslandi væru hvorki meira né minna en 13 jólasveinar. Þegar sagan hefst þá eru þeir staddir í kofa á Íslandi og ætla að leggja af stað upp á fjall til þess að vita hvort þeir geti ekki fengið að hitta jólasveinana. Ferðin gengur upp og ofan hjá þeim, en þeir hitta hinar ýmsu verur á leiðinni, eins og við er að búast upp á Íslenskum fjöllum. Þeir halda þó ótrauðir áfram og reyna eftir fremsta megni að halda í trúnna á að þeim takist ætlunarverk sitt og með óbilandi trú á sjálfa sig sem og á hvorn annan. Tónlistin er samin af Eiríki Bóassyni sérstaklega fyrir sýninguna og er hún létt og skemmtileg með bæði frumsömdum textum sem og vísum frá Jóhannesi úr Kötlum. Leikstjórn er í höndum Jóhönnu S. Ingólfsdóttur en er þetta í annað sinn sem hún leikstýrir stuttu barnaverki hjá Freyvangsleikhúsinu en hún leikstýrði einnig Karíus og Baktus fyrir jólin í fyrra. Verkið er einungis rúmur klukkutími að lengd, með hléi, og er því tilvalið fyrir yngstu kynslóðina."
23. des

Skötuveisla á Þorláksmessu

Lionsklúbbarnir Vitaðsgjafi og Sif bjóða til skötuveislu á Þorláksmessu, í Hrafnagilsskóla frá kl. 11:30 til 13:30. Saltfiskur verður til reiðu handa þeim sem ekki þora. Verð er 4.500 kr. á manninn og allur ágóði rennur til líknarmála. Komið og eigið saman ilmandi góða stund fyrir jólin.
30. des

Jólaball Hjálparinnar

Hin árlega jólatrésskemmtun kvenfélagsins Hjálparinnar verður haldin í Funaborg á Melgerðismelum. Dönsum í kringum jólatré og fáum glaða gesti með góðgæti í poka, svo er kökuhlaðborð. Aðgangur ókeypis en frjáls framlög. Hlökkum til að sjá sem flest börn sveitarinnar, kvenfélagið Hjálpin.