Fréttayfirlit

Fjölbreytni og metnaðarfullir básar

Nú er Handverkshátíð 2011 lokið og allir sammála um  að sýningin hafi verið fjölbreytt og metnaðarfullir sýningarbásar. Aldrei fyrr hafa jafn margir heimsótt Handverkshátíðina.

Framkvæmdarstjóri og stjórn hátíðarinnar vill nota tækifærið og þakka bæði sýnendum og gestum kærlega fyrir komuna.

09.08.2011

Handverksmaður ársins og sölubás ársins

Á kvöldvöku þar sem Hundur í óskilum skemmti gestum voru veitt verðlaun fyrir Handverksmann ársins  og Sölubás ársins 2011.

Guðrún Bjarnadóttir var valin Handverksmaður ársins og Hólmfríður Arngrímsdóttir fékk verðlaun fyrir sölubás ársins. Dómnefnd ákvað að veita Bjarna Helgasyni sérstök Hvatningarverðlaun en Organelle er hönnunar- og silkiþrykks verkefni Bjarna sem hefur það að markmiði að sameina myndlist, hönnun, náttúru og handverk.

 

07.08.2011

Fjöldi gesta aldrei meiri

Nú er öðrum degi hátíðarinnar lokið og fjöldi gesta hefur aldrei verið meiri. Á milli þess sem gestirnir gengu um sýningarsvæðið og versluðu spennandi varning af handverksfólki og hönnuðum gaf það sér tíma til að setjast niður og njóta eyfiskra veitinga í góða veðrinu. Á útisvæðinu í dag var boðið upp á rúning og hundasýningu þar sem hundar drógu börn á vögnum. Ekki má gleyma ungbændakeppninni þar  sem Hákon Bjarki Harðarson frá Svertingsstöðum bar sigur úr bítum í karlaflokki og Anna Sonja Ágústsdóttir frá Kálfagerði í kvennaflokki.

 

07.08.2011

Handverkhátíðin sett

Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir menningarfulltrúi Eyþings setti Handverkshátíðina í dag. Gríðarlegur fjöldi gesta heimsótti hátíðina og ríkir mikil ánægja með fjölbreytta og vandaða sýningarbása.
Á útisvæðinu var boðið upp á skemmtilega viðburði. Tískusýningin var á sínum stað og Félag ungra bænda á Norðurlandi stóð fyrir kálfasýningu þar sem börn 12 ára og yngri kepptu sín á milli um fallegasta og best tamda kálfinn. Best tamdi kálfurinn var Thelma frá Rifkelsstöðum og það voru þær Tanja Sindradóttir og Hulda Þórisdóttir sem þjálfuðu hann. Fallegasti kálfurinn var Stjarna frá Rifkelsstöðum og það var Gunnhildur Þórisdóttir sem þjálfaði hann. Síðast en ekki síst var Hjarta frá Þríhyrningi valin Gullkálfurinn. Það var Benedikt Sölvi Ingólfsson sem þjálfaði hann. Fjölbreytt dagskrá á útisvæðinu verður alla helgina.

 

05.08.2011

Veðrið leikur við okkur

Allt komið á fullt við uppsetningu á sýningarsvæði Handverkshátíðar. Hægt er að nálgast dagskrá hátíðarinnar hér á síðunni undir Dagskrá  Opnunartími hátíðarinnar er  klukkan 12-19 á morgun föstudag, laugardag, sunnudag og mánudag.

 

04.08.2011

Tíu dagar í Handverkshátíð

Um hundrað sýnendur taka þátt í ár og fjölbreytnin er mikil. Innandyra má sjá og versla fatnað, fylgihluti, keramik, list, snyrtivörur, textílvörur, skart ofl. úr rammíslenskum hráefnum svo sem hrauni, ull, roði, lambskinni, hreindýraskinni og vestfirsku klóþangi. 

Ekki má gleyma góðgætinu úr íslensku náttúrunni sem til sölu verður á útisvæðinu.

Ýmsar uppákomur verða á útisvæðinu. Tískusýningar verða alla dagana líkt og undanfarin ár.  Svæðafélag HRFÍ á Norðurlandi – Norðurhundar verða með kynningu á ýmsum hundategundum, hlutverki þeirra og ræktun.  Gestum sýningarinnar gefst tækifæri á að kynnast hundunum og starfi félagsins. Tvær sérstakar sýningar verða bæði laugardag og sunnudag.


Félag ungra bænda á Norðurlandi verður einnig með uppákomur. Þar má nefna rúning, kálfasýningu, ungbændakeppni og traktoraþraut. Sjá dagskrá hátíðarinnar.

26.07.2011

Spennandi námskeið í boði

Hefð er fyrir því að bjóða upp á námskeið í tengslum við Handverkshátíðina. Í ár höfum við fengið til liðs við okkur þær Sveinu Björk Jóhannesdóttur textílhönnuð og Lindu Óladóttur listamann. Allar nánari upplýsingar er að finna undir flipanum NÁMSKEIÐ hér til hliðar.
16.06.2011

Afgreiðslu umsókna lokið

Handverkshátíðinni 2011 barst á annað hundrað umsóknir að þessu sinni. Nú hafa allar umsóknir verið afgreiddar.

Á næstu vikum setjum við inn upplýsingar um sýnendur og þau námskeið sem í boði verða.

16.05.2011

Fjöldi umsókna sló öll met

Það er ánægjulegt frá því að segja að fjöldi umsókna sló öll met í ár og nú eiga allir þeir sem sendu inn umsókn á Handverkshátíð 2011 að hafa fengið staðfest að umsóknin hafi verið móttekin. Niðurstaða valnefndar liggur fyrir þann 16. maí n.k.  

03.05.2011

Umsóknarfresturinn rennur út á laugardaginn

Munið að umsóknarfresturinn rennur út n.k. laugardag. Umsóknareyðublaðið er að finna undir Bréf og umsóknir.
26.04.2011