Fréttayfirlit

Handverkshátíð lauk í gær

Handverkshátíð 2014 lauk í gær. Stjórnendur hátíðarinnar eru ánægðir með aðsóknina en er gert ráð fyrir að hátíðin hafi fengið um 15.000 heimsóknir. Almenn ánægja ríkti meðal sýnenda og gesta og vakti handverksmarkaðurinn mikla lukku og má búast við að hann verði árlegur viðburður. Samstarfið við Saga Travel lukkaðist vel, en þeir sáu um sætaferðir á hátíðina frá Akureyri og verður samstarfinu haldið áfram á næsta ári. Stjórnendur hátíðarinnar vilja nýta tækifærið og þakka sýnendum og gestum fyrir komuna og við hlökkum til að taka á móti ykkur á næsta ári.
11.08.2014

Sýnendur vel að verðlaununum komnir

Laugardagurinn var bjartur og góður og mikil aðsókn á hátíðina. Deginum lauk með frábærri kvöldskemmtun þar sem viðurkenningar hátíðarinnar voru veittar. Valið var erfitt og því var ákveðið að veita tvenn aukaverðlaun að þessu sinni. Ánægjulegt er að segja frá því að báðir aðilarnir sem hlutu aukaverðlaunin eru að taka þátt á hátíðinni í fyrsta sinn í ár.
10.08.2014

Búumst við miklum fjölda gesta í dag

Handverkshátíðin er opin í dag frá kl: 12-19. Á sýningarsvæðinu er þurrt og logn og spáð er fínasta veðri fyrir daginn í dag. Við búumst við miklum fjölda gesta og mikilli gleði sem nær hápunkti í kvöld á uppskeruhátíðinni sem opin er öllum. Grillveisla, vegleg skemmtidagská og verðlaun hátíðarinnar verða veitt. Kvölddagskránna má sjá hér.
09.08.2014

Öðrum degi lokið

Öðrum degi Handverkshátíðar er nú lokið. Þrátt fyrir úrkomu voru sýnendur og gestir með sól í hjarta. Eftirtektarvert er hversu vandaðar vörur eru á boðstólnum í ár og hversu mikinn metnað sýnendur hafa lagt í sýningarbásana sina. Handverksmarkaður með 20 þátttakendum fór fram í dag og sá næsti fer fram á sunnudaginn. Á morgun laugardag mæta börn í sveitinni og keppa sín á milli um hvert þeirra á fallegasta og best tamda kálfinn. Uppskeruhátíðin fer fram annað kvöld þar sem verðlaun hátíðarinnar verða veitt. Mikið er um að vera í Eyjafirði og hlökkum við til að taka á móti ykkur á morgun.
08.08.2014

Handverkshátíðin hafin

Kristján Þór Júlíusson setti Handverkshátíð 2014 í gær og var fyrstur til að skrifa í 1,5 meters háu gestabókina. Hér sést hann ásamt eiginkonu sinni Guðbjörgu Ringsted.
08.08.2014

Sætaferðir á Handverkshátíð

Handverkshátíð er nú komin í samstarf við Saga Travel. Fastar sætaferðir verða í boði alla sýningardagana kl: 12:30, 14:30 og 16:30 frá höfuðstöðvum þeirra Kaupvangsstræti 4 og til baka síðar um daginn. Upplýsingar í síma: 558-8888. Hátíðin verður sett kl: 12 í dag og er opin fim.-lau. 12-19 og sun 12-18. Sýnendur af öllu landinu hafa komið sér fyrir á 91 sýningarbás. Það er einkennandi hversu fjölbreyttar og vandaðar vörur eru á boðstólnum í ár og mikill metnaður lagður í hvern sýningarbás. Fjölbreytt dagskrá á útisvæðinu svo allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Hlökkum til að taka á móti ykkur á Handverkshátíð 2014
07.08.2014

Allt klárt til að taka á móti sýnendum

Handverkshátíðin verður sett á morgun í 22. sinn og mikið um dýrðir. Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra setur hátíðina kl:12. Fjöldi nýrra sýnenda tekur þátt í ár og fjölbreytnin er mikil. Á útisvæðinu er risið 250 fermetra tjald þar sem matvælaframleiðendur hafa komið sér fyrir. Hátíðinni hefur fengið að gjöf 1,5 m háa gestabók klædda laxaroði og verður hún staðsett í hjarta sýningarinnar og hvetjum við gesti til að kvitta fyrir heimsókn sína í hana. Í fyrsta sinn er boðið upp á handverksmarkað sem fram fer föstudag og sunnudag. Uppskeruhátíðin hefst kl: 19:30 á laugardagskvöldinu og er hún öllum opin. Séra Hildur Eir Bolladóttir er veislustjóri og meðal þeirra sem fram koma eru Álftagerðisbræður, Pálmi Gunnarsson ásamt hljómsveit og prestatríó skipað séra Hildi Eir, séra Oddi Bjarna og séra Hannesi Blandon. Matreiðslumenn Greifans sjá um grillveisluna og verðlaunaðir verða handverksmaður ársins og sölubás ársins. Fjölbreytt dagskrá verður á útisvæðinu alla dagana. Tískusýningar, húsdýrasýning, gamlar vélar, miðaldabúðir, rúningur og börn í sveitinni mæta með kálfana sýna og keppa um hvert þeirra á fallegasta og best tamda kálfinn. Aðgangseyrir er 1.000 kr. fyrir fyllorðna, 500 kr. fyrir eldri borgara og öryrkja og frítt fyrir börn 16 ára og yngri. Aðgangsmiðinn gildir alla helgina. Hlökkum til að sjá ykkur á Handverkshátíð 2014.
06.08.2014

Stórlax á Handverkshátíðinni um aðra helgi

Undirbúningur 22. Handverkshátíðar stendur sem hæst enda aðeins vika í hátíðina. Sýningin verður sett fimmtudaginn 7. ágúst og lýkur sunnudaginn 10. ágúst. Sýningin hefur fengið að gjöf 1,5 m háa gestabók klædda laxaroði og verður hún staðsett í hjarta sýningarinnar og hvetjum við gesti til að kvitta fyrir heimsókn sína í hana. Sýningin verður fjölbreytt líkt og undanfarin ár. 91 sýnandi af öllu landinu selur skart, fatnað, fylgihluti, textíl, keramik og gler og á útisvæðinu er stórt tjald og skálar með ýmiskonar íslenskum matvælum. Félag ungra bænda á Norðurlandi býður upp á húsdýrasýningu auk skemmtilegra viðburða, Búsaga sýnir gamlar vélar og þjóðháttafélagið Handraðinn setur upp miðaldabúðir. Veitingasala, handverksmarkaður og lifandi tónlist alla dagana. Uppskeruhátíðin fer fram á laugardagskvödinu. Matreiðslumenn Greifans sjá um glæsilega grillveislu og meðal þeirra sem fram koma eru Pálmi Gunnarsson ásamt hljómsveit, Álftagerðisbræður og prestatíó skipað séra Hildi Eir, séra Oddi Bjarna og séra Hannesi Blandon kemur sérstaklega saman fyrir þetta kvöld og slær á létta strengi. Allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi og búa aðstandendur hátíðarinnar sig undir að taka á móti 15-20.000 gestum. Allar nánari upplýsingar er að finna á www.handverkshatid.is
31.07.2014

Heimildarmynd um Handverkshátíð á N4

Mánudaginn 28. júlí kl:18:30 verður myndin List og landbúnaður sýnd á N4. Þetta er heimildarmynd um Handverkshátíð og landbúnaðarsýningu sem haldnar voru sumarið 2012 í tilefni af 20 ára afmæli Handverkshátíðar og 80 ára afmæli Búnaðarsambands Eyjafjarðar. Undirbúningur 22. Handverkshátíðar stendur sem hæst og hlökkum við til að taka á móti gestum dagana 7.-10. ágúst n.k..
24.07.2014

Sýnendur á Handverkshátíð 2014

Í dag eru 3 vikur í Handverkshátíð. Nú er hægt að sjá dagskrá hátíðarinnar, yfirlitsmynd af sýningarsvæðinu og hverjir taka þátt í ár. Veldu "UM HÁTÍÐINA" efst í valsktikunni og til vinstri eru í boði ýmsir valmöguleikar svo þú getir tekið forskot á sæluna og kynnt þér hverjir verða með í ár. Hlökkum til að taka á móti þér í ágúst.
17.07.2014