Auglýsingablaðið

1220. TBL 06. desember 2023

Auglýsingablað 1220. tbl. 15. árg. 6. desember 2023.

 


Frestur til að sækja um styrk 2023 er til og með 15. desember 2023

• Íþrótta- og tómstundastyrkur barna 2023
• Lýðheilsustyrkur eldri borgara
• Styrkveitingar vegna keppnis- og æfingaferða
Nánari upplýsingar um styrkina er að finna á heimasíðu Eyjafjarðarsveitar > Umsóknir > listi yfir umsóknir er hægra megin á síðunni.



Bakkaflöt, Eyjafjarðarsveit – kynning skipulagslýsingar

Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar samþykkti á fundi sínum þann 23. nóvember sl. að vísa skipulagslýsingu vegna breytingar á Aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar 2018-2030 og vegna nýs deiliskipulags fyrir athafnasvæði á Bakkaflöt (L235554) í kynningu skv. 1. mgr. 30 gr. og 1. mgr. 40 gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Skipulagssvæðið er um 8,4 ha að stærð og er staðsett um 600 m sunnan Hrafnagilshverfis á svæði sem í Aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar er skilgeint sem landbúnaðarsvæði. Skipulagssvæðinu er ætlað að þjóna íbúum sveitarfélagsins sem sorpflokkunar-, geymslu- og athafnasvæði þar sem skilgreindar yrðu lóðir fyrir fjölbreyttar gerðir atvinnuhúsnæðis. Aðkomuleið inn á svæðið verður frá nýju Eyjafjarðarbraut vestri sem nú er í uppbyggingu. Gert verður ráð fyrir reiðleið eftir árbakkanum og skilgreint efnistökusvæði til sandtöku úr ánni.

Skipulagslýsingin er aðgengileg á sveitarskrifstofu Eyjafjarðarsveitar, Skólatröð 9 Hrafnagilshverfi, milli 6. og 20. desember 2023, á heimasíðu sveitarfélagsins, www.esveit.is og á vef Skipulagsgáttar, www.skipulagsgatt.is undir málsnúmerum 949/2023 og 957/2023. Þeim sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er hér með gefinn kostur á að koma athugasemdum á framfæri til 20. desember 2023. Hægt er að koma athugasemdum á framfæri undir málunum á vef Skipulagsgáttar með innskráningu rafrænna skilríkja. Frekari upplýsingar er hægt að nálgast hjá Skipulags- og byggingarfulltrúa Eyjafjarðar, Skólatröð 9, 605 Akureyri, eða í tölvupósti á netfangið sbe@sbe.is.
Skipulags- og byggingarfulltrúi.



Leikskólinn Krummakot – Atvinnuauglýsingar

Leikskólinn Krummakot auglýsir eftir að ráða leikskólakennara eða starfsfólk með aðra háskólamenntun til starfa í tvær 100% stöður á deild með yngri börnum.
Umsóknarfrestur er til 15. des. 2023. Nánari upplýsingar um starfið og skilyrði er að finna á heimasíðu Eyjafjarðarsveitar

Einnig vantar tímabundunda afleysingu í móttökueldhúsi 50-100% stöðu eða e.t.v. tvær 50% stöður. Afleysing er a.m.k. í desember en möguleiki er á meiri vinnu. Æskilegt er að afleysingin geti byrjað sem fyrst eða eftir samkomulagi. Nánari upplýsingar um starfið er að finna á heimasíðu Eyjafjarðarsveitar.

Frekari upplýsingar veitir Erna Káradóttir, leikskólastjóri í síma 464-8120, netfang erna@krummi.is

 


Bókakvöld HÆLISINS fimmtudaginn 7. desember – húsið opnar 19:30

Höfundarnir Sigmundur Ernir Rúnarsson, Brynhildur Þórarinsdóttir,
Arnór Bliki Hallmundsson, Kristín Aðalsteinsdóttir og Rakel Hinriksdóttir
hafa staðfest komu sína, fleiri mögulega væntanlegir.
Verið öll hjartanlega velkomin meðan húsrúm leyfir.



Jólasjoppan í Kristnesi

Beate og Helgi í Kristnesi eru aftur og enn með jólabúðina sína opna núna í desember. Við erum með söluskúrinn okkar heim á hlaði með allskonar heimaræktuð jólatré og greni þar fyrir utan. Inni í skúrnum má finna heimagerðan varning úr smiðjunni svo sem smáhnífa og skeiðar. Þá eru heimagerðar sápur af nokkrum gerðum og kóngakerti, svo dæmi séu tekin. Auk þess ýmiskonar fjölbreyttar föndraðar vörur, plötur og spólur og guð veit hvað.
Loks má nefna að ef póstþónustan verður í stuði þá eru nokkrar væntingar til þess að nýjar vörur frá Helga og Hljóðfæraleikurunum komist í sölu fyrir jól, en barmmerki frá hljómsveitinni eru þegar komin og þykja mjög eiguleg.
Opið er helgina 9.-10. desember og svo frá laugardeginum 16. desember til og með 23. desember frá kl. 13:00-17:00.
Allir velkomnir.



Yoga Nidra á aðventu

Á aðventunni býður Litla yogastofan tvo tíma í Yoga Nidra í Hjartanu í Hrafnagilsskóla: þriðjudaginn 12. des. og mánudaginn 18. des. kl. 17:30-18:30. Hvor tími kostar 2500 kr og skráning með því að senda tölvupóst á ingileif@bjarkir.net.
Verið öll velkomin.
Ingileif Ástvaldsdóttir jógakennari.



Skötuveisla á Þorláksmessu

Lionsklúbbarnir Vitaðsgjafi og Sif bjóða til skötuveislu á Þorláksmessu, í Hrafnagilsskóla frá kl. 11:30 til 13:30. Saltfiskur verður til reiðu handa þeim sem ekki þora. Verð er 4.500 kr. á manninn og allur ágóði rennur til líknarmála.
Komið og eigið saman ilmandi góða stund fyrir jólin.



Dagbókin Tíminn minn 2024 – hægt að panta til og með 10. desember

Kvenfélagið Iðunn er með dagbókina Tíminn minn 2024 til sölu á 4.500 kr.
Allur ágóði rennur í hjálparsjóð Iðunnar.

Dagbókin er fallega myndskreytt eftir íslensku listakonuna Björgu Þórhallsdóttur og er full af jákvæðni og góðum ráðum. Tilvalin í afmælis- eða jólagjöf handa ömmum, mömmum, dætrum, frænkum, vinkonum og öllum öðrum sem vilja eignast svona eigulega dagbók.

Nánari upplýsingar og pantanir hjá:
Ásta Heiðrún í síma 893-1323/astast@simnet.is
Hrönn í síma 866-2796/idunnhab@gmail.com

Getum við bætt efni síðunnar?