- Verðlaunaafhending samkeppninnar Þráður fortíðar til framtíðar fór fram á
handverkshátíðinni í Hrafnagili síðastliðinn Laugardag. Mikil gróska í íslenskri hönnun að mati dómnefndar.
Álfheiður Björg Egilsdóttir hlaut fyrstu verðlaun í flokknum „fatnaður“
fyrir kraga og Sigurlína Jónsdóttir fékk fyrstu verðlaun í „opnum flokki“ fyrir prjónað áklæði á
hjólahnakka. Að mati dómnefndar báru tilnefningar í báðum flokkum vott um þá miklu grósku sem er í íslenskri hönnun
í dag. „Verðlaunatillögurnar voru fremstar meðal jafningja og þóttu snjallar, nýstárlegar og í takt við tíðarandann“,
segir Ester Stefánsdóttir, framkvæmdarsstjóri Þráður fortíðar til framtíðar en keppnin hvar haldin í fyrsta skipti í
ár.

Hátt í átta þúsund manns sóttu sýningu sem sett var upp í tengslum við samkeppnina. „Auk þess að skapa farveg fyrir
þann gríðarlega fjölda sem er að skapa verk úr íslenskri ull og verðlauna þá er skara fram úr á því sviði er
samkeppnin ekki síður mikilvæg til að skapa tengsl milli framleiðenda og hönnuða en á laugardeginum gafst þeim aðilum tækifæri til
að hittast og ráða ráðum sínum. Forsvarsmenn fyrirtækja hafa þegar sýnt nokkrum hlutum á sýningunni áhuga með
framleiðslu í huga,” segir Ester sem er sannfærð um að sá vettvangur sem hönnunarsamkeppnin Þráður fortíðar til
framtíðar skapar sé nauðsynlegur hluti verðmætasköpunar í ullariðnaði.

Meginmarkmið samkeppninnar er
að vekja athygli möguleikum íslensku ullarinnar þegar kemur að handverki og hönnun en hún er haldin í samvinnu við Dórótheu
Jónsdóttur framkvæmdastýru Handverkshátíðarinnar að Hrafnagili, Landsamtök sauðfjárbænda, Ístex hf., Glófa ehf.,
Sauðfjárræktarfélag Hólasóknar í Eyjafirði og Sauðfjárrækarfélagið Frey. Dómnefnd keppninnar var skipuð
þeim Védísi Jónsdóttur frá Ístex, Loga A. Guðjónssyni frá Glófa ehf., Birgi Arasyni frá Félagi
sauðfjárbænda í Eyjafirði, Sveinu Björk Jóhannesdóttur textílhönnuði og Jenný Karlsdóttur útgefanda Munsturs og
menningar.
Meðfylgjandi eru myndir af vinningsverkunum og verðlaunahöfunum.
Vinningshafar: Sigurlína Jónsdóttir (t.v.) og Álfheiður
Björg Egilsdóttir (t.h.)