Jæja þá heldur fjörið áfram, síðastliðinn föstudag mættu Guðni og Anna með sýningarkerfið norður og 20 hörkuduglegir starfskraftar frá bæði björgunarsveitinni Dalbjörg og ungmennafélaginu Samherjum komu því upp á met tíma.
Það er eitthvað fyrir alla á Handverkshátíðinni og er okkur mikið gleðiefni að segja frá því að barnaleikritið Gutti og Selma og ævintýrabókin verður sýnt í Laugaborg alla daga Handverkshátíðarinnar.
Handverkshátíðin Eyjafjarðarsveit er viðburður innan dagskrár 100 ára afmælis fullveldis Íslands. Verðum við því ennþá meira á þjóðlegu nótunum í ár.
Nú tökum við undir með Heimilisiðnaðarfélaginu og segjum: Út úr skápnum - þjóðbúningana í brúk!
Okkur er mikið gleðiefni að segja frá því að Spunasystur munu vera heiðursgestir hátíðarinnar í ár. Þeir sem ekki hafa séð til Spunasystra ættu að sperra eyrun því það er mikið sjónarspil að fylgjast með þeim stöllum. Þær hafa komið með ferskan blæ inn í heim handverksins á undanförnum árum og eins og nafnið á hópnum þeirra gefur að kynna þá kemur spuni við sögu.