Auglýsingablaðið

633. TBL 21. júní 2012 kl. 09:27 - 09:27 Eldri-fundur

Smámunasafnið – Búvélasýning
Sumarhátíð og sýning á gömlum búvélum og smámunum Sverris Hermannssonar í Sólgarði helgina 23. og 24. júní. Komið og eigið notalega stund í sveitinni; fræðast um liðna tíð og njóta veitinga í fallegu umhverfi (grillaðar pylsur).
Vélasýningin er opin frá kl. 13.00 til 17.00 báða dagana en Smámunasafnið er opið alla daga milli kl. 13.00 og 18.00 frá 15. maí til 15. september. þar er hægt að fá rjúkandi kaffi og nýbakaðar vöfflur, handverk og eldri muni svo sem bækur, hljómplötur, búsáhöld og feira og fleira.
Verið ávallt velkomin í Sólgarð,
Smámunasafnið og Hollvinafélag Búnaðarsögusafns Eyjafjarðar


Dyngjan-listhús
í tilefni af því að nú er eitt ár liðið frá því að Dyngjan-listhús opnaði, verður opnuð sýningin ”Svífandi”. Anna Sigríður Hróðmarsdóttir og Hadda hafa unnið að svífandi vír/leir verkum sem fanga geisla sólarinnar. Sýningin opnar kl. 14.00 laugardaginn 23. júní og stendur í allt sumar. Nánari upplýsingar í síma 899-8770, hadda@simnet.is og á https://www.facebook.com/dyngjanlisthus


óska eftir pössun í sumar
óska eftir pössun fyrir Kristján son minn, virka daga frá 9. júlí til og með 10. ágúst í sumar. Kristján verður 4 ára í nóvember. Við verðum í Kaupangi Eyjafjarðarsveit og best ef viðkomandi gæti komið í Kaupang hálfan eða allan daginn, virka daga. Eða þá ef Kristján gæti fengið inni í nágrenninu, þar sem ég verð við vinnu á Akureyri í sumar. Borga eftir samkomulagi.   Helga Kristjánsdóttir GSM: 848-1718


Kálfasýning á Handverkshátíð
Líkt og í fyrra ætlar FUBN (félag ungra bænda á Norðurlandi) að standa fyrir kálfasýningu á Handverkshátíð föstudaginn 10. ágúst. Að því tilefni hvetjum við alla sem vettlingi geta valdið til að byrja að þjálfa upp kálfa til teyminga og gera þæga, fallega og stillta. Keppt verður um fallegasta kálfinn, best tamda kálfinn og svo að lokum fær sá kálfur sem flottastur er fyrir alla eiginleika titilinn Gullkálfurinn 2012. í fyrra var Gullkálfurinn hörgdælskur en það var kvígan Hjarta frá þríhyrningi og Benedikt Sölvi Ingólfsson sem stóðu sig með slíkri prýði. í ár trúi ég því að íbúar Eyjafjarðarsveitar muni ná titlinum en til þess þurfum við að leggja okkur öll fram, bretta upp ermar, þrykkja okkur í stígvélin, míla kálfinn og hlaupa af stað.
Við hvetjum því alla til að taka þátt og hafa gaman að. Nánari upplýsingar og skráning verða auglýst síðar.
Fyrir hönd stjórnar FUBN, Sara María


Kaffi kú
Eitthvað hefur skolast til opnunartíminn í síðasta pósti en það er að sjálfsögðu opið til kl. 22:00 sunnudag – fimmtudag. Heitar vöfflur með ís og rjómapönnukökur með karamellu er það nýjasta á seðlinum, svo er gúllassúpan alltaf á sínum stað.
Opnunartímar í sumar eru:
Sunnudag - Fimmtudag kl. 14-22
Föstudag - Laugardag kl. 14-01
Kaffiku.is


Handverksprýddir póstkassar

Kæru sveitungar.
Eins og við auglýstum í byrjun maí, langar okkur að fá íbúa sveitarinnar í lið með okkur til að mynda allsherjar stemningu með Handverkshátíð ársins og Landbúnaðarsýningunni sem haldin verður samhliða í ár. Stemningunni ætlum við að ná á þann hátt að sveitin skarti skreyttum póstkössum í sumar. Með öðrum orðum að fá ykkur íbúana til að skreyta ykkar póstkassa með einhverju handverki svo sem prjóni, hekli, saumi, útskurði eða hverju því sem ykkur dettur í hug. Póstkassarnir verða skreyttir fram yfir hátíðarhelgina, 10. - 13. ágúst.

Stefnt er að því að 7. júlí verði póstkassar sveitarinnar sem flestir komnir í sparifötin. þann dag verður atkvæðaseðlum og kjörkössum dreift til ferðaþjónustuaðila sveitarinnar sem ætla að taka þátt og þeir kynntir í næsta Auglýsingablaði. Allir gestir staðanna geta þá greitt atkvæði og sveitungar eru hvattir til að gera sér ferð á einhvern staðanna og taka þátt í atkvæðagreiðslunni sem mun standa fram að hátíðarhelginni sjálfri. Eigendur best prýdda póstkassa Eyjafjarðarsveitar verða verðlaunaðir á kvöldvöku hátíðanna þann 11. ágúst.

Nokkrir póstkassar eru nú þegar orðnir prúðbúnir og þökkum við góðar undirtektir. Við hlökkum til að sjá fleiri útfærslur af ýmiskonar handverki, en minnum á skilyrðið eina: að starfsmenn Póstsins geti vandræðalaust komið póstinum til skila.

F.h. stjórnar Handverkshátíðar og Landbúnaðarsýningar 2012,
Ester Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri.

Getum við bætt efni síðunnar?