Auglýsingablaðið

758. TBL 20. nóvember 2014 kl. 10:09 - 10:09 Eldri-fundur

Frá Laugalandsprestakalli
Messa í Möðruvallakirkju sunnudaginn 23. nóvember kl. 11:00.
Allir hjartanlega velkomnir. 
Sóknarprestur

Jólaföndur fyrir allan skólann
Í ár ætlum við að breyta til og hafa sameiginlegt jólaföndur og jólakortagerð fyrir alla nemendur skólans laugardaginn 29. nóvember kl. 11:00-14:00. Nemendur unglingastigs eru sérstaklega boðnir velkomnir. Nokkrar föndurstöðvar verða í kennslustofum yngsta og miðstigs. Fjölbreytt föndurefni og kort verða seld á staðnum gegn vægu gjaldi. Gott er að grípa með sér skraut, skæri og lím.
Kaffi og heitt súkkulaði verður í boði foreldrafélagsins en smákökur og annað góðgæti er vel þegið að heiman. Mætum sem flest og eigum notalega stund með börnunum og hverju öðru.
Jólakveðja frá bekkjarfulltrúum og stjórn foreldrafélagsins

Það er alveg að koma 1. desember!
Hinn magnaði, umdeildi og óforskammaði Einar Kárason verður með uppistand um landsbyggðarhyski fyrri tíma en jafnframt munu hin rómuðu hjónakorn, Eiríkur og María, stíga á stokk og flytja íslensk þjóðlög eins og þeim einum er lagið.
Miðaverð er 2.000 kr. og veitingar seldar á staðnum. Ath. Enginn posi á staðnum. Sjáumst í Laugarborg mánudagskvöldið 1. desember kl. 20:00.
Menningarmálanefnd

Ullarflutningar í Eyjafjarðarsveit
Ull verður sótt í Eyjafjarðarsveit fimmtudaginn 27. nóvember. Svo hægt sé að skipuleggja flutningana sem best eru þeir bændur sem verða tilbúnir með ull beðnir um að hafa samband við Rúnar í s: 847-6616 eða á netfangið run@simnet.is eða Bigga í Gullbrekku í s: 845-0029.
Munið að merkja, vigta og skrá ullina. Tilgreina þarf pokafjölda og hve mörg kíló bændur eru að senda frá sér. Byrjað verður á Halldórsstöðum að morgni og kl.14:00 verður bíllinn staðsettur við Svertingsstaði.

Kæru sveitungar
Nú leggjum við hjúin aftur af stað í ferðalag um Norðurland með sambland af tónleikum og ljósmyndasýningu. Í fyrra sungum við og spiluðum „Kvæðin um fuglana“. Núna erum við búin að setja saman efnisskrá sem heitir „Kvæðin um sólina“. Við höldum alls 5 tónleika á næstu dögum, m.a. stofutónleika heima hjá okkur í Sunnutröð 8, Hrafnagilshverfi. Þar erum við nú á fimmtudaginn 20. nóvember
kl. 20:00. Við verðum svo í Hofi fimmtudaginn 27. nóvember kl. 20:30. Birkir Blær mun spila með okkur í nokkrum lögum. Miðaverð er 2.000 kr. í Hofi en stofutónleikarnir eru að sjálfsögðu ókeypis á meðan pláss leyfir.
Hlökkum til að sjá ykkur.
Elvý og Eyþór

Jólabingó
Verður haldið í Funaborg á Melgerðismelum sunnudaginn 23. nóvember kl. 13:30.
Spjaldið kostar 500 kr. og 250 kr. eftir hlé. 
Glæsilegir vinningar í boði.
Hestamannafélagið Funi

Þorrablót 2015
Þá er lappakvöldið víðfræga búið og farið að styttast í þorrablótið. Ætli lappirnar verði til fyrir blótið!
Þorrablótsnefndin

Tónar á Grund - tónleikar í Grundarkirkju
Fimmtudagskvöldið 20. nóvember kl. 20:00 heldur Kirkjukór Laugalandsprestakalls tónleika í Grundarkirkju. Um er að ræða fyrri tónleika af tveimur undir heitinu „Tónar á Grund“ sem kórinn stendur fyrir til að fagna nýja orgelinu. Menningarráð Eyþings styrkti kórinn til tónleikahaldsins.
Einsöngvarar á tónleikunum verða Auðrún Aðalsteinsdóttir og Helgi Þórsson. Stjórnandi og orgelleikari er Daníel Þorsteinsson.
Aðgangur er ókeypis en tekið er á móti framlögum þeirra sem styðja vilja starfs kórsins.
Kirkjukór Laugalandsprestakalls

Álfagallerýið auglýsir
Opið frá kl. 13:00-17:00 laugardaga og sunnudaga.
Nú nálgast desember með hraði og fólk fer að huga að jólagjöfum. Erum með fjölbreytt úrval af handverki framleiddu af handverksfólki á Eyjafjarðarsvæðinu. Sjón er sögu ríkari.
Gerða er með opið frá kl. 13:00-17:00 á sunnudögum í markaðsskúrnum sínum þar sem má kaupa ýmislegt í jólaföndrið ofl.
Verið velkomin

Félag aldraðra í Eyjafirði
Jólahlaðborð félagsins verður föstudaginn 28. nóvember í mötuneyti Hrafnagilsskóla. Húsið opnað kl. 19:00 og borðhald hefst kl. 19:30. Verð 4.000 kr.og hver hefur með sér einn pakka. Skráning í Félagsborg á n.k. mánudag eða í
s: 462-1581 Vigfús og s: 463-1215 Vala.
Nefndin

Kaffihlaðborð á Silvu að Syðra-Laugalandi efra í Eyjafjarðarsveit
Sunnudaginn 23. nóvember kl. 14:00 – 16:00 verður opið á Silvu. Boðið verður upp á kaffihlaðborð sem samanstendur af bragðgóðum réttum sem gera gott í kroppinn. Verð 1.500 kr. Kynningar á snyrtivörum og vítamínum og nýjum vörum frá Silvu. Kennsla í gerð brenninettluseyðis, lesið í spil og margt fleira.
Allir velkomnir

Athugið
Sveitartöfrarnir færast yfir á sunnudaginn 30. nóvember svo takið þann dag frá.

 

Getum við bætt efni síðunnar?