Auglýsingablaðið

853. TBL 23. september 2016 kl. 14:55 - 14:55 Eldri-fundur

Hrossasmölun og hrossaréttir 2016
Hrossasmölun verður föstudaginn 30. september og hrossaréttir laugardaginn 1. október sem hér segir: 
Þverárrétt kl. 10:00 
Melgerðismelarétt kl. 13:00
Gangnaseðlar verða sendir þeim sem lagt er á og einnig birtir á heimasíðu Eyjafjarðarsveitar.
Fjallskilanefnd


Fjárhagsáætlunargerð 2017
Hafin er vinna við gerð fjárhagsáætlunar Eyjafjarðarsveitar fyrir árin 2017-2020. Því er auglýst eftir erindum, umsóknum, tillögum og ábendingum íbúa, fyrirtækja og félagasamtaka í Eyjafjarðarsveit um mál sem varða gerð fjárhagsáætlunar.
Þeim aðilum sem vilja koma með erindi, umsóknir, tillögur og/eða ábendingar er bent á að senda þær á esveit@esveit.is fyrir 30. september 2016.
Sveitarstjóri


Ágætu sveitungar 60 ára og eldri
Vetrarstarf Félags aldraðra í Eyjafirði hefst þriðjudaginn 27. september n.k. frá kl. 13:00-17:00. Starfsemin í vetur verður hefðbundin að mestu leyti. En á fyrsta fund mætir Haukur Ingibergsson formaður Landssambands eldri borgara og upplýsir okkur um mál sem okkur varðar.
Mætum sem flest með spurningar fyrir formanninn.
Með kærri kveðju;
Stjórnin - Hildur, Ólafur, Valgerður, Þuríður og Sveinbjörg.


Salernispappír, eldhúspappir, fiskibollur og reyktur silungur!
Nemendur í 10. bekk Hrafnagilsskóla munu í þessari viku og næstu banka uppá í sveitinni og bjóða til sölu salernispappír, eldhúspappír, ljúffengan reyktan silung og fiskibollurnar góðu sem voru svo vinsælar í fyrravetur. Allt til fjáröflunar fyrir skólaferðalagið í vor. Jafnframt þiggjum við einnota umbúðir, ef einhver heimili vilja nýta sér það tækifæri.
Ef svo illa hittist einhvers staðar á að enginn verði heima þegar sölufólk kemur má hafa samband við Nönnu ritara í Hrafnagilsskóla og panta framangreindar vörur.
Fjáröflunarnefnd 10. bekkjar


Móttökugámur fyrir einnota umbúðir
Minnt er á móttökugám fyrir einnota umbúðir á gámasvæði sveitarfélagsins. Andvirði umbúðanna rennur í ferðasjóð 10. bekkjar Hrafnagilsskóla.
Fjáröflunarnefnd 10. bekkjar


Atvinna
Óskum eftir duglegum starfsmanni í ræstingar fyrir Yoga & spa í Knarrarbergi.
Um er að ræða hlutastarf (rúmlega 20%).
Nánari upplýsingar í síma 865-9429 eða ab@inspiration-iceland.com
 

Dansnámskeið ! SÍÐUSTU INNRITUNARDAGAR 
Þá er að styttast í að dansnámskeið hefjist fyrir byrjendur. Kennt verður á fimmtudagskvöldum kl. 20:00 í Laugaborg. Þetta verða 8 skipti, við byrjum 29. september og klárum áður en aðventan byrjar. Kenndir eru hinir ýmsu dansar sem allir þurfa að kunna til að verða ballfærir. Dansar eins og Cha cha, Jive, Tjútt, Samba, Vals o.fl. já og ekki má gleyma gömlu dönsunum Skottís, Ræl, Vínarkrus og Polka. Það er skylda að kunna þá á Þorrablótinu :) Fyrir utan hvað það er hollt að dansa þá er þetta hin mesta skemmtun. Munið að dansinn lengir lífið :)
Nánari upplýsingar og innritun er í síma 891-6276 (á kvöldin).
Danskveðjur, Elín Halldórsdóttir danskennari


Kvennablak
Nú eru æfingar í blakinu hafnar aftur. Æfingar eru á mánudagskvöldum kl. 21:00-22:00 og á miðvikudögum kl. 17:00-19:00 í íþróttahúsinu í Hrafnagili. Þjálfari er Þorgerður Hauksdóttir.
Hvetjum allar áhugsamar konur að vera með – ekki skilyrði að hafa spilað blak áður.
Bryðjur


Félagar í Framsóknarfélagi Eyjafjarðarsveitar athugið. Þeir sem hafa áhuga á að fara á flokksþing Framsóknarflokksins sem haldið verður helgina 1.-3. október hafið samband við Helga Örlygsson í síma 862-3800, Loga Óttarsson í síma 694-8989 eða Ketil Helgason í síma 864-0258.
Stjórnin


Hrúta- og sölusýning 9. október n.k.
Hrúta- og sölusýning Sauðfjárræktarfélagsins Neista í Hörgársveit verður haldin þann 9. október n.k. í Skriðu kl. 14:00-17:00. Þar verður m.a. eftirfarandi á dagskrá;

Lambhrútaskoðun. Keppt verður í flokkunum hvítir hyrndir, mislitir og kollóttir. Lambhrútarnir verða stigaðir upp af hinum þaulreynda þukklara Eyþóri úr Akrahrepp. Fullyrða má að þarna verður um æsispennandi keppni að ræða enda verður henni lýst beint og stigun jafnharðan birt á upplýsingaskjá svo allir geti fylgst með.

Fallegasta gimbrin. Gimbrum félagsmanna verður gerð góð skil og munu félagsmenn mæta með fallegustu gimbrina sína til sýnis og þátttöku í fegurðarsamkeppni. Ekki er víst að há stigun tryggi sigur heldur mun litur, hornalag, útgeislun og geðslag án efa ráða töluverðu um lokaniðurstöðu. Gestum og gangandi verður jafnvel boðin þátttaka í vali á fallegustu gimbrinni.

Sölusýning og uppboð. Félagsmenn mæta með sitt úrvalsfé til sölu og sýnis. Allt endar þetta svo með æsispennandi uppboði á því besta sem Hörgárdalurinn hefur upp á að bjóða í sauðfé. Óhætt er að fullyrða að uppboð þetta verði á við góða flugeldasýningu og tryggi um leið mikið fjárstreymi inn í hörgdælska efnahagskerfið.

Vart þarf að taka fram að í Hörgarsveit þykir fé bæði fimt og fagurt svo ekki sé minnst á gerðina. Því eru allir áhugamenn um sauðfé nær og fjær hvattir til þess að gera sér ferð í Skriðu og taka þátt í þessari mannlífsbætingu og taka með sér heim áhugaverða kynbótagripi ef svo ber undir.

Sýning þessi er öllum opin án endurgjalds en veitingar verða í boði gegn vægu gjaldi.

Getum við bætt efni síðunnar?