Auglýsingablaðið

856. TBL 13. október 2016 kl. 10:16 - 10:16 Eldri-fundur

Auglýsingablaðið
Skila þarf inn auglýsingum fyrir kl. 10:00 á þriðjudögum á esveit@esveit.is eða í síma 463-0600. Næsta blað kemur út fimmtudaginn 20.10.16.
 

Borun lokið við Hrafnagil og Botn
Eins og íbúar Eyjafjarðarsveitar hafa sjálfsagt tekið eftir hefur jarðborinn NASI frá Ræktunarsambandi Flóa og Skeiða verið að störfum á svæðinu frá því í maí sl..
Nú hefur borun verið hætt í 1.905 metra dýpi og bor og bormenn farnir af svæðinu.
Í stuttu máli sagt gekk borunin erfiðlega og er holan að gefa mjög lítið vatn þrátt fyrir örvunaraðgerðir. Fyrir liggur að holan verður ekki virkjuð og mun því verða minnisvarði um að ekkert er sjálfgefið í heitavatnsöflun, þrátt fyrir að borað sé í svæði þar sem vatn er í holum í nokkurra metra fjarlægð. Þar sem framkvæmd er nú lokið mun Norðurorka á næstu vikum fara í frágang á og við borsvæðið. Á heimasíðu Norðurorku www.no.is má sjá nánari fréttir um málið.
Starfsfólk Norðurorku þakkar íbúum í Eyjafjarðarsveit kærlega fyrir gott samstarf í þessu verkefni sem og öðrum.
 

Frá Félagi aldraðra í Eyjafirði
Félagsborg, fimmtudaginn 20. október kl. 14:00
Bjarni Guðleifsson flytur fyrirlestur um köngulær. Mjög áhugavert.
Sjáumst sem flest.
Stjórnin



Haust og jól í Reykhúsaskógi laugardaginn 15. október kl. 14:00 – 17:00
Við bjóðum fólki að ganga um skóginn eftir skógarstígum og njóta haustlitanna. Skógrækt í Reykhúsum hófst 1983 en fyrir á svæðinu var lítill trjáreitur, Stjörnureitur, þar sem trjám var plantað milli 1930 og 1940.
Í skóginum er rjóður með eldstæði og frumstæðum gistikofa og þar verður boðið upp á kaffi eða kakó og „meððí“.
Þeir sem þess óska geta valið sér jólatré úr útvöldum rauðgrenitrjám og merkt sér. Trén verða höggvin stuttu fyrir jól til að tryggja sem best barrheldni þeirra og ekið heim til kaupenda í Eyjafjarðarsveit og á Akureyri um miðjan desember. Trén sem eru til sölu eru í þremur stærðum; 1,25/1,5 m, 1,5/1,75 m og 1,75/2 m og er þá miðað við hæð að efsta greinakransi á trénu. Verð trjánna er 5.000, 6.000 og 7.000 kr. eftir stærð.
Gengið er upp í skóginn um slóða norðan Kristnesspítala. Slóðinn er nokkuð brattur í byrjun svo að það er um að gera að gefa sér góðan tíma. Fólk sem á erfitt með gang eða með lítil börn og er á fjórhjóladrifnum bíl má aka upp slóðann og leggja ofan við brekkuna.
Verið hjartanlega velkomin, Anna og Páll í Reykhúsum
 

Iðunnarkvöld í kvöld – miðvikudaginn 12. október
Kæru kvenfélagskonur, hittumst í fundarherberginu í Laugarborg kl. 20:00 í kvöld.
3. flokkur hefur umsjón. Við munum m.a. ræða um væntalegt og jafnvel væntanleg námskeið. Nýjar konur ávallt velkomnar :-)
Stjórnin


Kvenfélagið Hjálpin – Haustfundur fimmtudaginn 13. október
Kvenfélagið Hjálpin verður með haustfund sinn í Sólgarði fimmtudaginn 13. október kl. 20:00. Nánari upplýsingar verða sendar í tölvupósti.
Fyrir þær sem langar til að kynnast starfsemi okkar, er tækifæri til að kíkja við og sjá hvað við erum að gera :-)
Stjórnin


Eyvindur auglýsir
Lumar þú á áhugaverðu efni sem gæti átt heima í blaðinu okkar?
Við leitum að sögum, myndum, frásögnum, ljóðum, bröndurum og ýmsu fleiru sem þið, íbúar Eyjafjarðarsveitar, gætuð lumað á.
Ef þið liggið á einhverju sem þið viljið deila með okkur þá endilega sendið okkur línu á rosahuna@gmail.com eða brynhildurb@unak.is.
Með góðum kveðjum,
ritnefnd Eyvindar


Lambinn
Erum byrjuð að selja miða á Jólaboðin okkar 25. og 26. nóv., 2. og 3. des. og 9. og 10. des.
Grafin gæsabringa, appelsínumarineruð bleikja, grafið lamb, reyktur silungur, síld, hangikjöt, svínapurusteik, lambalæri, kaldur jólagrautur, gamaldags rjómaterta, sítrónufrómas með hvítu súkkulaðimousse.
Allt þetta á aðeins 7.900 á manninn.
Miðapantanir í síma 463-1500 og á netfanginu lambinn@lambinn.is


Gaia Gyðjuhof
Hjartanlega velkomnar í Gaia gyðjuhof á fullu tungli sunnudaginn 16. október klukkan 20:00-22:00 í fallega salnum á Knarrarbergi.
Við munum anda okkur inn í andartakið og dansa og hreyfa okkur í takt við sál og líkama. Við finnum miðju okkar og jafnvægið í því að vera meðvitaðar og vakandi, í djúpri tengingu við sjálfar okkur og í tengingu við móður jörð og alheiminn. Við munum hugleiða, dansa, fara í góða slökun með heilandi kristal hljómskálar og njóta þess að vera saman í öruggu umhverfi og systralagi. Komið í þægilegum fatnaði. Kostnaður er 2.500 kr. fyrir kvöldið, te innifalið. Við komum saman á nýjum og fullum tunglum.
Skráning hjá Sollu í síma 857-6177 eða í gegnum facebook: Thora Solveig Bergsteinsdottir


Hvolpar
3 Border-collie hvolpar fást gefins, tveir hundar og ein tík.
Upplýsingar gefur Orri Óttarsson, sími: 899-3264

Getum við bætt efni síðunnar?