Auglýsingablaðið

973. TBL 15. janúar 2019 kl. 12:48 - 12:48 Eldri-fundur

Sveitarstjórnarfundur
527. fundur sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar verður haldinn í fundarherbergi sveitarstjórnar, Skólatröð 9, fimmtudaginn 24. janúar og hefst hann kl. 15:00.
Dagskrá fundarins verður kynnt á upplýsingatöflu í anddyri skrifstofunnar og á heimasíðu sveitarfélagsins.


Íþrótta- og tómstundastyrkur barna 2019
Vakin er athygli á að íþrótta- og tómstundastyrkur barna í Eyjafjarðarsveit hefur verið hækkaður í 20.000 kr. fyrir árið 2019. Styrkurinn er veittur vegna æfinga- og þátttöku-gjalda fyrir börn á aldrinum 6-17 ára með lögheimili í sveitarfélaginu. Styrkhæft er hvers konar reglulegt íþrótta- og tómstundastarf. Til að fá styrkinn greiddan þarf að senda á skrifstofu; 1. afrit af reikningi þar sem fram kemur fyrir hvaða íþrótt eða tómstund er verið að greiða og fyrir hvaða barn, 2. Staðfestingu á greiðslu, 3. Reikningsupplýsingar til að leggja styrkinn inn á.
Reglur um íþrótta- og tómstundastyrkinn má finna á heimasíðu Eyjafjarðarsveitar í samþykktum.


Útvarpsmessa 23. janúar

Útvarpsmessa verður tekin upp á Grund miðvikudagskvöldið 23.01.19 kl. 20:00.
Allir hjartanlega velkomnir.
Sóknarnefndirnar

Árshátíð unglingastigs
Árshátíð unglingastigs verður haldin í Laugarborg föstudaginn 18. janúar nk. Hún hefst kl. 20:00 og stendur til kl. 23:30. Skólabílar aka heim að balli loknu.
Árshátíðin hefst á tveimur tónlistaratriðum og að þeim loknum sýna nemendur í 8., 9. og 10. bekk stytta útgáfu af Shrek og það eru kennarar á unglingastigi sem leikstýra. Auk þess að leika, syngja og dansa á sýningunni sjá nemendur um búninga, förðun, leikmynd, leikskrá og alla tæknivinnu.
Verð aðgöngumiða er 800 kr. fyrir nemendur á grunnskólaaldri og 1.500 kr. fyrir þá sem eldri eru. Veitingar á hlaðborði eru innifaldar í miðaverðinu. Ágóðinn rennur allur til nemenda, bæði í ferðasjóð 10. bekkinga og til að greiða lyftugjöld og fleira fyrir nemendur unglingastigs.
Athugið að ekki er posi á staðnum.
Allir eru hjartanlega velkomnir.
Nemendur á unglingastigi.


Þorrablót Eyjafjarðarsveitar haldið 2. febrúar 2019
Húsið opnar kl. 19:30 og borðhald hefst stundvíslega kl. 20:30.
Hlaðborð ! Hlaðborð! Hlaðborð!
Hlaðið hrútspungum og öðrum hefðbundnum þorramat frá Bautanum!
Ýmsir réttir í boði fyrir þá sem ekki hafa þroska í pungana.
Kaffi í boði eftir borðhald.
Allur borðbúnaður á staðnum, þú þarft bara að grípa með þér pelann.
Óli ,,gamli” sveitarstjóri sér um veislustjórn og Bjarni Karls stjórnar fjöldasöng.
Móðurskipið leikur fyrir dansi fram undir morgun.
Miðapantanir 16. og 17. janúar frá kl. 20:00-22:00.
Knútur sími 891-7943, Víðir sími 899-9821 og Anna sími 847-2274.
Aðgöngumiðarnir eru jafnframt happdrættismiðar með vinningum úr héraði!
Miðarnir verða afgreiddir 23. og 24. janúar frá kl. 20:00-22:00
í anddyri íþróttahúss Hrafnagilsskóla.
Miðaverð 7.900,- ATH! Enginn posi!
Hlökkum til að sjá ykkur!
Þorrablótsnefnd Eyjafjarðarsveitar 2019
Ath! Blótið er ekki fyrir viðkvæma, Jón á Hrafnagili er í nefndinni.


Reiðskólinn í Ysta-Gerði
Eftir áramót höldum við áfram og verður reiðskólann á vorönninni alls 10 skipti og byrjar í viku 4 og klárast fyrir páska. Frí verður í viku 7 og 11. Kennt er í reiðskemmunni í Ysta-Gerði, Eyjafjarðarsveit. Kennari er Sara Arnbro, menntaður reiðkennari frá Háskólanum á Hólum.
Kennt verður á þriðjudögum, miðvikudögum, fimmtudögum og föstudögum kl. 18:00 og 18:45. Árgangur 2015 og eldri. Fullorðnir líka! Max 5 nemendur í hvern hóp. Verðið er það sama og síðastliðin 3 ár, 35.000 kr. Hægt er að nota tómstundastyrkinn frá Akureyrarbær, Hörgársveit og Eyjafjarðarsveit, en fyrst þarf að skrá sig hjá Söru.
Foreldrar eru velkomnir inn á kaffistofu á meðan, ávallt heitt á könnunni.
Skráningin er bindandi, netfang: sara_arnbro@hotmail.com.
Tökum líka minni hópa í 1 eða 2 klukkutíma reiðtúra!


Jóga á Jódísarstöðum
Ég býð þér að taka þátt í eflandi Kundalini jógatímum á fimmtudögum í vetur. Áhersla verður á hreinsun, styrk og eflingu.
Kundalini-jógahefðin færir okkur kröftugar, umbreytandi og skjótvirkar leiðir til að styrkja öll helstu kerfi líkamans. Með iðkun öðlumst við dýrmæt verkfæri til að takast á við verkefni lífsins, stór og smá—við dýpkum öndun, kyrrum hugann, styrkjum og liðkum líkamann, en allt helst þetta í hendur við heilbrigða andlega líðan.
Tíminn hefst á öflugri Kundalini-jóga kriyu, en það er æfingasett þar sem æfingum er raðað í ákveðna röð til að ná fram sem sterkustum áhrifum. Því næst líðum við inn í (gong-) djúpslökun og endum svo á eflandi hugsleiðslum, þar sem við vinnum meðal annars með möntrur.
Hvenær: Fimmtudagar kl. 17:30-18:45.
Hvar: Jódísarstöðum 4 Eyjafjarðarsveit.
Verð: 1.800 kr. stakur tími/14.000 10 tímar. Velkomin í frían prufutíma. 
Ég, Þóra Hjörleifsdóttir, hlakka til að sjá ykkur. 
Nánari upplýsingar og skráning: thorahjor@gmail.com


Gefðu bóndanum dekur á bóndadaginn!
Snyrtistofan Sveitsæla er með opið mánudaga og miðvikudaga 12:00-18:00, þriðjudaga 9:00-16:00, fimmtudaga 14:00-16:00 og föstudaga 9:00-14:00. Allar helstu snyrtimeðferðir í boði í notalegu umhverfi í sveitinni, Lamb Inn Öngulsstöðum.
Er með hágæðavörur frá Comfort Zone. Þær vörur eru án parabena, mineral olíu, silikons, litarefna, dýraafurða og MIT (rótvarnarefnis).
Gjafabréf til sölu, þú velur ákveðna meðferð eða upphæð að eigin vali. Tilvalin gjöf við öll tækifæri. Best er að hringja í mig ef þið viljið nálgast gjafabréf.
Tímapantanir í síma 833-7888, milli kl. 9:00-17:00 á daginn. Eftir kl. 17:00 og um helgar svarar símsvari og þá er um að gera að tala inná hann og ég mun hafa samband við fyrsta tækifæri.
Elín Halldórsdóttir snyrtifræðingur og danskennari.


Danskennsla fyrir fullorðna!
Byrjendanámskeið í dansi að hefjast og einnig fyrir þá sem hafa smá grunn og vilja læra meira (búin með ca. 1-2 námskeið). Kennt verður á þriðjudögum kl. 19:30 og 21:00 í Laugarborg. Þetta verða 8 skipti og við byrjum 5. febrúar. Kenndir eru hinir ýmsu dansar sem allir þurfa að kunna til að verða ballfærir. Dansar eins og Cha cha, Jive, Tjútt, Samba, Vals o.fl. já og ekki má gleyma gömlu dönsunum. Það er hollt að dansa og hin mesta skemmtun og munið að dansinn lengir lífið 😊 Nánari upplýsingar og innritun er í síma 891-6276 (á kvöldin).
Danskveðjur, Elín Halldórsdóttir danskennari.


Lína Langsokkur hjá Freyvangsleikhúsinu
15. sýning 19. jan. kl. 14:00 Uppselt
16. sýning 20. jan. kl. 14:00
17. sýning 26. jan. kl. 14:00
18. sýning 27. jan. kl. 14:00
19. sýning 2. feb. kl. 14:00
20. sýning 3. feb. kl. 14:00
21. sýning 9. feb. kl. 14:00
22. sýning 10. feb. kl. 14:00
Miðasala í síma 857-5598 og á tix.is
Nánari upplýsingar á Freyvangur.is

Getum við bætt efni síðunnar?