Landnám Helga magra

Landnám Íslands - teikning. Mynd: www.ferlar.is

Póstkort teiknað af Samúel Eggertssyni                             

Svo sem segir í Landnámu var Helgi Eyvindarson hinn magri fyrstur til að nema land í Eyjafirði. Hann fikraði sig að vísu inn eftir firðinum, dvaldi hinn fyrsta vetur þar sem nú heitir Árskógsströnd, færði sig síðan inn í fjarðarbotn eins og hann var, þ.e. þar sem þá hét Bíldsá en við köllum nú Kaupang. Eftir ársdvöl sá Helgi að enn betra myndi vera að búa á leitinu hinum megin árinnar og þangað flutti hann bú sitt og nefndi staðinn Kristnes. Vinum sínum og vandamönnum gaf hann land svo sem siður var og eru t.d. nefndir til sögunnar Hámundur mágur hans sem bjó á Espihóli, hinum syðra; Gunnar, tengdasonur Helga, hann bjó í Djúpadal; Auðun rotin, annar tengdasonur, fékk Saurbæ til ábúðar; Hrólfur, sonur Helga magra, sat í Gnúpufelli; Ingjaldur annar sonur Helga bjó að Þverá hinni efri en Þorgeir nokkur og Hlíf dóttir Helga bjuggu að Fiskilæk (hvar sem sá bær stóð).

Þegar ár og aldir liðu festust í sessi - mest af náttúrulegum landkostum - nokkur höfuðból í Eyjafirði innanverðum eða Framfirði eins og oft er sagt. Stærstu höfuðbólin voru að líkindum Grund, Þverá efri (Munkaþverá), Möðruvellir, Saurbær og Hólar, en þessar jarðir eru einna landmestar hér um slóðir. Ef til vill var það vegna jarðhita sem Hrafnagil og Laugaland voru líka löngum eftirsótt höfuðból.

Höfðingjar á Sturlungaöld sátu einkum að Grund (Sighvatur Sturluson og Sturla sonur hans) og Hrafnagili (Þorgils skarði) en fullt eins eftirminnilegir munu vera þeir Víga Glúmur (á Þverá efri) Guðmundur ríki (á Möðruvöllum) og Einar bróðir hans, Þveræingur (á Þverá efri) sem eru eldri og jafnvel þjóðsagnakenndari.

Á Þverá hinni efri var stofnað munkaklaustur árið 1155 og fékk staðurinn líklega fljótlega nafnið Munkaþverá. Fáein ár upp úr 1200 var klausturlíf í Saurbæ, kannski vegna húsabruna á Munkaþverá.

Þegar miðöldum lauk, klaustur liðu undir lok og þrengdist um flesta hluti hér á landi, lækkaði einnig vegur margra eyfirskra höfuðbóla. Þó bjuggu lögmenn, sýslumenn og slíkir höfðingjar á Grund, Munkaþverá og á Espihóli var sýslumaður Jón Jakobsson forfaðir allra þeirra sem hafa heitið Espólín hér á landi. Á síðari hluta 16. aldar voru prentaðar bækur í Gnúpufelli og eru margar þeirra harla sjaldgæfar.

Í Möðrufelli var lengi frægt reynitré og þar var líka fyrr á öldum svonefndur prestaspítali en það mun hafa verið eins konar elliheimili fyrir uppgjafapresta.

Af Kristnesi, landnámsjörðinni sjálfri, fara ekki sögur aftur fyrr en fjórðungur var liðinn af 20. öld.

Þá reis þar berklahæli og varð athvarf mörgum sem áttu við að stríða hinn hvíta dauða. Þar rekur Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri tvær af deildum sínum, öldrunarlækningadeild og endurhæfingardeild.

Síðast uppfært 21. ágúst 2019
Getum við bætt efni síðunnar?