Atvinnumálanefnd

9. fundur 07. desember 2006 kl. 00:46 - 00:46 Eldri-fundur

Níundi fundur atvinnumálanefndar Eyjafjarðarsveitar miðvikudaginn 26. mars 2003 kl. 20.00.

á fundinn sem haldinn var á Syðra Laugalandi mættu Jón Jónsson, Birgir Arason, Páll Snorrason, Sigríður Bjarnadóttir og Vaka Jónsdóttir auk búfjáreftirlitsmannsins Bjarna Kristinssonar. Bjarni Kristjánsson, sveitarstjóri, sat jafnframt fundinn á tímabili.

Fyrir fundinum lá skýrsla búfjáreftirlitsmanns, umsögn nefndarinnar um stefnuskjal sveitarinnar er varða hennar mál auk annarra tilfallandi mála.

Vorskoðun forðagæslunnar er vel á veg komin, nánast öllum heimsóknum lokið framan við Hrafnagil og Laugaland. Lögboðið er að vorskoðun sé lokið 15. apríl ár hvert og Bjarni taldi það auðveldlega geta orðið hér í sveit. Hann sagði ástandið heilt yfir vera gott en í einu tilviki hefði hann þurft að hafa samband við eftirlitsdýralækni. það mál væri nú í höndum þeirra eftirlitsaðila en Bjarni hefur ekki fengið að vita um framvindu þess. í framhaldi af þessu spannst umræða um hvort ekki ætti að berast til búfjáreftirlitsmanns og atvinnumálanefndar þegar hana það varðar niðurstaða, jafnvel skýrsla, svo staðfest sé um framkvæmd. Enn hefur ekkert borist frá Dýralæknaþjónustu Eyjafjarðar er varðar garnaveikisbólusetningu og hundahreinsunina. Búfjáreftirlitsmaðurinn hefur gengið eftir því en eitthvað er óljóst hvað sé í höndum hverra aðila; hvort garnaveikisbólusetningin sé á höndum efitlitsdýralæknis og hundahreinsunin á höndum heilbrigðisfulltrúa. Sveitarfélagið hefur hingað til séð um að þetta sé gert, hefur tekið þátt í skipulagningu framkvæmdarinnar og leitað eftir tilboði í verkið. Ef það á að sjá um að þetta sé gert og þar af leiðandi að vitna til verksins þá verður að liggja fyrir einhver staðfesting, jafnvel skýrsla, um framkvæmdina frá framkvæmdaaðila. Sé það hins vegar ekki þá ætti að vera nóg að kynna fyrir skepnueigendum að ábyrgðin sé þeirra og láta þeim sjálfum í té að sinna þessu. það þarf að fá skorið úr um hvers sé hverra í garnaveikisbólusetningu og hundahreinsun og óskar nefndin eindregið eftir því.

Bjarni sagði framkvæmd hafna á áður umræddri rétt í Litla Dal og er það vel. Jón sagði aðila hafa komið að máli við sig þar sem leitast var eftir því hvort sveitarsjóður styrkti flugferð sem farið var í í haust yfir Djúpudalina til fjárleitar. Tildrög málsins eru sú að tveir fjáreigendur höfðu mikinn hug á að kosta sjálfir flugferð sem farin yrði yfir svæðið og voru í sambandi við gangaforingja svæðisins, Birgi Arason. Hann hafði samband við flugmann sem tók vel í málið. þegar til kom var fyrirvarinn á ferðinni nánast enginn en Birgir hafði samband við Bjarna búfjáreftirlitsmann þannig að hann vissi um ferðina. í ljósi þess að viðkomandi aðilar sýna frumkvæði í eftirleitum taldi nefndin rétt að koma á móts við þá sem reyna og vilja ná þessu fé. Nefndarfólk var sammála um að fjallskilasjóður greiddi hlut ferðarinnar sem næmi þriðjungi kostnaðar eða allt að fimm þúsundum króna. Hins vegar væri leiðin sú að leita eftir stuðningi er þetta varðar áður en hafist er handa og farið af stað.

Jón kynnti fyrir nefndinni þann grundvöll sem stuðst hafði verið við til að vinna aðalskipulag Eyjafjarðarsveitar út frá og stefnuskjal til næstu tuttugu ára byggir á. Nefndin fjallaði um atvinnumálakaflann vítt og breitt. Sigríður taldi mikilvægt að kynna fyrir fólki hvaða leiðir væru færar í atvinnuþróun og hvað Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar hefði upp á að bjóða og nota dreifibréf sveitarinnar til þess. Allir voru sammála um að löngu væri orðið tímabært að tryggja framboð á lóðum fyrir atvinnustarfsemi og Páll stakk upp á að auglýsa eftir lóðum til kaupa/sölu/leigu fyrir sveitarfélagið, ekki eftir neinu ákveðnu svæði, heldur sjá til hvað bærist. Nefndin gæti svo unnið út frá því sem kæmi, það yrði hennar fyrsta skref. Forsendurnar yrðu þó að vera að lóðirnar féllu vel að umhverfinu og annarri atvinnustarfsemi. í ljósi þróunar sem á sér stað og varðar landbúnaðinn taldi Vaka að það yrði að gefa öðrum greinum ekkert síðra tækifæri og vera vakandi yfir því. Birgir og Sigríður voru ánægð með að tekið sé sérstaklega til landbúnaðarins í stefnuskjalinu því ímyndin væri til staðar (sbr. landbúnaðarhérað) sem mætti ekki gleymast og yrði að halda í.

Bjarni sveitarstjóri kom nú inn á fundinn. í ljósi umræðu um hvers væri hvað er varðar garnaveikisbólusetningu og hundahreinsun fyrr á fundinum var ákveðið að sveitarstjóri og búfjáreftirlistmaður fengju til fundar við sig eftirlitsdýralækni annars vegar og heilbrigðisfulltrúa hins vegar til að fá þessi mál á hreint, hafa jafnvel skriflegt samkomulag. Sveitarstjóri dreifði einnig nýkomnu lögfræðiáliti Arnars Sigfússonar um ónýtar girðingar í sveitarfélaginu þar sem nefndarfólk var einkum með ónýtar fjallsgirðingar í huga. út frá þessu spannst umræða um verklagsreglur nefndarinnar sem getið er um í sjöttu grein erindisbréfs hennar. Sigríður hafði tekið saman punkta um ýmis verk upp úr eldri fundargerðum fyrir fundinn og Páll hafði unnið drög að verklagsreglum fyrir nefndina. Bjarni sveitarstjóri taldi slíkar verklagsreglur einmitt vera forsenda þess að hægt sé að fylgja eftir eftirlitsskyldu í sveitarfélaginu. Hann sagði hafa skort hvernig taka skuli á uppkomnum málum auk þess sem það væri réttur þegnans að vita hvernig brugðist yrði við málunum. Reglur sem þessar þarf að samþykkja af sveitarstjórn og auglýsa og kynna vel í sveitarfélaginu. Ef eitthvað fer öðruvísi en ætlað er er gott að hafa einhvers konar gátlista um viðkomandi atriði og þannig leiðir eitt af öðru. Nefndarfólk var sammála um að vinnureglur sem þessar yrði að vera auðvelt að fara eftir þannig að ekkert ætti að koma neinum á óvart ef grípa þyrfti til einhverra aðgerða. ákveðið var að Páll ynni áfram að verklagsreglunum og Jón færi með honum í þær. Aðrir í nefndinni litu vel yfir þau drög sem þegar eru komin og koma sínum athugasemdum á framfæri við Pál eða Jón hið fyrsta.

Sveitarstjóri kynnti nefndinni að nokkrar umsóknir hefðu borist og varða hugsanleg verk fyrir vinnuflokk Landsvirkjunar á komandi sumri í sveitarfélaginu. Hann hefur nú gengið frá umsókn til Landsvirkjunar og vonast eftir jákvæðum viðbrögðum. þá barst talið að gamalli sauðfjárveikivarnargirðingu (frá Rútsstöðum að Illagili) sem er ónýt og þyrfti að taka. Búfjáreftirlitsmaður hefur verið í sambandi við Sigurð Sigurðarson sóttvarnardýralækni út af þessu og sauðfjárveikivarnir eru tilbúnar til að greiða fyrir vinnu við að fjarlægja girðinguna. Hugmynd kom upp um að fá Hjálparsveitina Dalbjörgu til verksins og var Bjarna búfjáreftirlitsmanni falið að koma því á framfæri þangað.

áður en Bjarni Kristjánsson vék af fundi var atvinnumálaþáttur stefnuskjalsins tekinn upp að nýju. Birgir taldi pappírsfarganið verða sífellt meira og hvað byggði það á öðru. Sveitarstjóri tók þá fram að einmitt vegna alls þessa væri nauðsynlegt að draga út úr lögum og reglugerðum verklagsreglur og stefnuskrár og hafa þær einfaldar svo fara megi eftir þeim. Innan flókins laga- og stjórnsýsluramma verður að fylgja eftir formsatriðum svo standa megi með þeim og fylgja eftir. Nefndin tók jákvætt í "sinn" kafla í stefnuskránni, lagði til orðalagsbreytingar í samræmi við það sem áður hafði verið rætt og var sammála um að nýta mætti dreifibréf sveitarinnar meira er varðar áætlanir, t.d. nefnda og fræðsluefni, t.d. samstarfsaðilanna AFE og SíMEY. Sveitarstjóra var falið að hafa samband við tvo síðast töldu aðila og fá frá þeim kynningarefni til birtingar.

Nefndinni barst í hendur bréf um námskeið fyrir búfjáreftirlitsmenn sem halda á á Akureyri 1. apríl n.k. Hún vísar því til nefndar sem starfar á Eyjafjarðarsvæðinu um þessi mál.

í umræðu um fundargerðir nefndarinnar var ákveðið að nefndarfólk fengi alltaf síðustu fundargerð með boðun nýs fundar. Ritari hefur stuðst við tölvupóstinn þegar hann hefur sent fundargerðirnar út og nefndarfólk hefur tvo sólarhringa til að koma með athugasemdir. Fresturinn hefur reyndar stundum verið knappari svo hægt hafi verið að senda fundargerðirnar út til sveitarstjórnar sem tekur þær inn á sína fundi. ákveðið var að halda þessum tveimur sólarhringum en ritari fengi skilaboð frá öllum um að þeir hafi móttekið fundargerðina, hvort sem þeir óska eftir lagfæringu á henni eða ekki. Vaka og Birgir töldu fundargerðirnar of ýtarlegar en Sigríður ritari sagðist ekki breyta þeim fyrr en í ljósi upplýsinga um samræmingu fundargerða sem til stendur að setja riturum allra nefnda á vegum sveitarfélagsins.

Stefnt er að því að halda næst fund 8. maí og reikna má með að fjallskilamál verði helguð honum.

Getum við bætt efni síðunnar?