Byggingarnefnd

11. fundur 20. janúar 2014 kl. 13:05 - 13:05 Eldri-fundur

Jólafundur byggingarnefndar Eyjafjarðar, 11. fundur, haldinn að óseyri 2, þann 13.12.2013, kl. 11,15.
Fundarstjóri var Hreiðar B. Hreiðarsson og ritari þröstur Sigurðsson.

Fundarstjóri setti fundinn og bauð menn velkomna á þennan árlega jólafund nefndarinnar, bauð hann jafnframt gest fundarins Guðmund Sigvaldason sveitastjóra Hörgársveitar, hjartanlega velkominn.  Hreiðar sagði þetta sinn fyrsta jólafund, þar sem hann kom skyndilega inn í nefndina sem aðalmaður og þá strax kosinn formaður nefndarinnar.  það sem af er hafi þetta verið mjög fróðlegur og skemmtilegur tími.
þá bauð fundarstjóri byggingarfulltrúa að taka til máls.

Jósavin fór í stuttu máli yfir starfsárið, en árið hafi verið með hefðbundnum hætti.  á árinu voru haldnir 5 fundir í byggingarnefnd, tekin voru fyrir 44 erindi og byggingarleyfin eru 39 talsins.  þetta er svipaður fjöldi erinda og hefur verið undanfarin ár, að undaskildu árinu 2012 sem stakk aðeins úr með fjölda erinda í desember til að öðlast byggingarleyfi fyrir gildistöku nýrrar byggingarreglugerðar.  Nokkrar byggingar sem þar voru samþykktar er ekki enn byrjað á.  það er þó ánægjulegt að eitt nýtt fjós var tekið í notkun á árinu, og einnig eitt fjárhús, en það eru fyrstu nýju gripahúsin frá efnahagshruni.
á árinu komu upp örfá mál sem þurftu sérstaka meðferð og var eitt þeirra kært til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem þó hafði ekki fengið neina formlega afgreiðslu hjá embættinu.  Viðkomandi mál væri nú í meðferð sveitarstjórnar og skipulagsnefndar viðkomandi sveitafélags.
á árinu var gengið formlega frá samþykkt fyrir afgreiðslu sameiginlegrar byggingarnefndar Eyjafjarðarsvæðis.  á stjórnarfundi embættisins í fyrrahaust var ákveðið að endurskoða gjaldskrá fyrir hina ýmsu þjónustu sem embættið veitir og öðlast hún gildi á nýju ári, eftir að hún hefur verið auglýst í stjórnartíðindum.  öll gjaldtaka sem embættið innheimtir skal endurspegla þá vinnu sem liggur að baki.  Einnig var umræða í stjórninni hvort ráða skuli einn aðila sem skuli vera skipulags- og byggingarfulltrúi fyrir öll sveitafélögin sem standa að embættinu, en horfið er frá því að svo stöddu.
Að lokum þakkaði Jósavin nefndarmönnum og samstarfaðilum fyrir gott samstarf á árinu.

Næstur tók Guðmundur Sigvaldason til máls.  Hann þakkaði gott boð um að sitja jólafund nefndarinnar.  Hann greindi stuttlega frá sínum bakgrunni í sveitastjórnarmálum, en hann hefur undanfarin ár gegnt störfum sveitastjóra Hörgársveitar og áður Hörgárbyggðar.  Vera hans í opinberri stjórnsýslu væri orðin löng eða um 33 ár.  Hans bakgrunnur væri þó allt annar, þar sem hann væri með bs. sem Landfræðingur með sagnfræði sem hliðargrein.  það væri út frá þeim grunni sem hann langaði að flytja sitt erindi, en hann hefur alla tíð haft mikinn áhuga á að ferðast og skoða gömul mannvirki og menningarminjar víðsvegar um heiminn.
Sýndi hann fundarmönnum margar myndir af þessum mannvirkjum og kom víða við. Frá Róm voru m.a. myndir af hlöðnu frárennsliskerfi sem liggur undir hluta borgarinnar og er það nokkurra þúsunda ára gamalt.  Einnig voru myndir frá norður Skotlandi ásamt Orkneyjum, sem sýndu mannvirki frá allt að 5000 árum f. Krist.  þá voru einnig myndir frá Heilaga eyju við Bretland þar sem talið er að víkingaöldin hafi byrjað árið 793.  það sem einnig var markvert að sjá á þessum myndum var hversu minjar voru vel varðveittar og viðhaldið á Orkneyjum en síður í Skotlandi.
Formaður þakkaði Guðmundi fyrir fróðlegt erindi og Jósavin fyrir greinagóða ársskýrslu um stafsemina, óskaði nefndarmönnum gleðilegra jóla, sleit fundi og bauð fundarmönnum að þiggja veitingar á veitingarstaðnum
La Vita ‘e Bella.
Fundi slitið kl. 13,00.

Hreiðar Bjarni Hreiðarsson, Elmar Sigurgeirsson, Egill Bjarnason, Hermann Jónsson og Björn Ingason.
Jósavin Gunnarsson, Guðmundur Sigvaldason og þröstur Sigurðsson.

Getum við bætt efni síðunnar?