Fjallskilanefnd

32. fundur 06. júní 2017 kl. 14:07 - 14:07 Eldri-fundur

 

32. fundur fjallskilanefnd Eyjafjarðarsveitar
haldinn í fundarstofu 2, Skólatröð 9, 6. júní 2017 og hófst hann kl. 12:00.

Fundinn sátu:
Birgir H. Arason, formaður, Svanhildur Ósk Ketilsdóttir, aðalmaður, Orri Óttarsson, aðalmaður og Ólafur Rúnar Ólafsson, sveitarstjóri.
Fundargerð ritaði: Ólafur Rúnar Ólafsson Sveitarstjóri.

Dagskrá:

1. Fjallskil 2017 - 1706004
A: Sleppingar
Samkvæmt 7. gr. samþykktar um búfjárhald nr. 581/2013 hefst beitartímabil á sameiginlegt beitarland 10. júní ár hvert en lýkur um göngur á haustin vegna beitar sauðfjár, hefst 20. júní ár hvert en lýkur 1. október sama ár vegna beitar nautgripa, og hefst 20. júní ár hvert og lýkur 10. janúar á næsta ári vegna beitar hrossa. Ekki er tilefni til að víkja frá þessum ákvæðum.

Áhersla er lögð á að fjallsgirðingar skulu fjár- og gripheldar fyrir 10. júní og séu það til 10. janúar ár hvert sbr. 5.gr. samþykktar 581/2013.

Mælst er til þess að fullorðnum hrútum sé ekki sleppt á afrétt.

Fjallskilanefnd felur sveitarstjóra að senda þeim landeigendum sem ekki eru búsettir í sveitarfélaginu samþykkt um búfjárhald og gera þeim grein fyrir skyldum þeirra vegna viðhalds girðinga og tilkynningaskyldu varðandi hagagöngu.

B: Gangnadagar
Ákveðið að 1. göngur verði laugardag og sunnudag 2.-3. september og 9.-10. september. 2. göngur verði 16.-17. september og 23.-24. september. Hrossasmölun verður föstudaginn 6. október. Stóðréttir verði 7. október, sbr. bókun á 30. fundi nefndarinnar 2. desember 2016.Ef efni eru til eftirleitar skal miðað við að þær verði farnar eigi síðar en 20. október.

C: Varnargirðing milli Rútsstaða og Bringu
Í samræmi við afstöðu fundarmanna á fundi sem fjallskilanefnd boðaði til og haldinn var 5. apríl 2017, verði sveitarstjóra falið að hafa samband við Matvælastofnun vegna framtíðar varnargirðingarinnar. Meirihluti fundarmanna hafði þá afstöðu að fallast mætti á að Mjaðmá yrði skilgreind varnarlína og afleggja mætti girðinguna sem varnarlínu samkvæmt tillögu nefndar sem fjallað hefur um varnargirðingar- og hólf.

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 13:15

Getum við bætt efni síðunnar?